Bóksalinn frá Kabúl eftir Åsne Seierstad
Það kom Åsne Seierstad öllum hinum vestrænu blaðamönnunum í Afganistan skemmtilega á óvart að finna vel búna bókabúð í menningarauðninni Kabúl þar sem talíbanar höfðu annars náð að dauðhreinsa burt alla framför mannkyns síðastliðin 1500 ár eða svo, og jafnvel lengra aftur.
Vertinn í búðinni vissi líka sínu viti, gat spjallað um heimsbókmenntirnar við kúnnana af ástríðu og var talsmaður framfara og frelsis í landi sínu. Seierstad hrósaði happi og fékk þá ágætu hugmynd að skrifa sögu um þennan lærða mann og fjölskyldu hans. Hún flutti inn á heimili hans og varð eins konar fluga á vegg um nokkurra mánaða skeið.
Eftir því sem á dvölina leið rann ljóminn hins vegar smám saman af hinum framfarasinnaða bóksala. Hann reyndist vera litlu skárri en flestir landar hans sem lifa eftir fornaldarlegum siðareglum og viðhorfum. Hann leit konur sömu augum og flestallir afganskir kynbræður hans; þær eru réttlaus hópur sem ber að hlýða í einu og öllu því sem yfirboðarar þeirra krefjast af þeim en hljóta verra af ella.
Aðstæður kvenna í Afganistan skánuðu því lítið þrátt fyrir að hin kvenfjandsamlega talíbanastjórn hefði verið hrakin frá völdum. Því að þótt frjálslyndari yfirvöld hafi tekið við hefur það litlu máli skipt því það er ættarveldi hverrar fjölskyldu sem gildir og er öllum lögum ofar.
Nokkur alræmd dæmi má nefna: Unglingsstúlka sem fremur þann stórglæp að hrífast af dreng á sama reiki og gefa sig á tal við hann er limlest fyrir vikið af fjölskyldumeðlimum sínum og er upp frá því úthrópuð skækja og drós. Verslunarmaður nauðgar stúlkubarni af götunni og gortar sig af því að hún geti ekkert gert vegna þess að hún muni sjálf bera skaðann ef hún vogar sér að segja einhverjum frá. Táningsstúlkur sem rétt eru orðnar kynþroska eru vegnar og metnar eins og nautgripir og síðan seldar þeim sem fjölskyldunni þykir bjóða best. Oftar en ekki rígfullorðnum körlum sem vilja ef til vill bæta annarri eiginkonu við og ýta þeirri sem fyrir er til hliðar.
Sjálfur er bóksalinn harðstjóri heima fyrir. Allir skulu fara að hans vilja í einu og öllu og enginn má setja sig upp á móti nokkru sem hann segir eða gerir. Eiginkona hans hefur engan rétt til þess að mögla þegar að hann ákveður að gera sextán ára stúlku að annarri eiginkonu sinni. Engum leyfist heldur að segja neitt þegar að bóksalinn ákveður að beita fullri hörku gegn bláfátækum smið og margra barna föður sem varð það á að hnupla nokkrum póstkortum úr bókabúðinni. Smiðurinn skal fá að dúsa í fangelsi áralangt, jafnvel þó það verði til þess að fjölskylda hans verði þar með fyrirvinnulaus og einhver barnanna veslist líklega upp og deyi. Bóksalinn ræður og þar við situr.
Bóksalinn í Kabúl er sett upp eins og um skáldsögu sé að ræða. Sögumaðurinn Åsne Seierstad kýs að halda sig utan framvindu sögunnar (nema í formála og eftirmála) og aðalpersónurnar fá ný nöfn. Flestöllum fjölskyldumeðlimunum er svo úthlutað einum kafla á mann þar sem kastljósið beinist að þeim. Allir eiga sína niðurbældu drauma og þrár en enginn fær að vera sinnar gæfu smiður. Dapurleg örlög fólks eru ráðin fyrirfram eftir aldagömlum hefðum og engin leið er fyrir nokkurn annan en fjölskylduföðurinn að hrófla við þeim.
Bóksalinn í Kabúl er sorgarsaga. Í henni er dregin upp mynd af þjóðfélagi í viðjum fornaldarlegs hugarfars. Segja má að svo bregðist krosstré sem önnur tré því að ef marka má dæmisöguna af bóksalanum og fjölskyldu hans er vonina ekki einu sinni að finna í þeim sem virðast frjálslyndir og opnir við fyrstu sýn. Þeir reynast vera hinir mestu afturhaldsseggir þegar á reynir og haldlitlir í baráttunni fyrir framþróuðu og opnu samfélagi.
Meðan svo er og hin afturhaldssömu og ofstopafullu viðhorf ráða ríkjum í Afganistan er líklegra að framtíðin þar taki fremur mynd af þyrnum stráðri fortíð landsins en að í hönd fari betri tímar með blóm í haga.
(Birt á Sellunni í apríl 2004)
Vertinn í búðinni vissi líka sínu viti, gat spjallað um heimsbókmenntirnar við kúnnana af ástríðu og var talsmaður framfara og frelsis í landi sínu. Seierstad hrósaði happi og fékk þá ágætu hugmynd að skrifa sögu um þennan lærða mann og fjölskyldu hans. Hún flutti inn á heimili hans og varð eins konar fluga á vegg um nokkurra mánaða skeið.
Eftir því sem á dvölina leið rann ljóminn hins vegar smám saman af hinum framfarasinnaða bóksala. Hann reyndist vera litlu skárri en flestir landar hans sem lifa eftir fornaldarlegum siðareglum og viðhorfum. Hann leit konur sömu augum og flestallir afganskir kynbræður hans; þær eru réttlaus hópur sem ber að hlýða í einu og öllu því sem yfirboðarar þeirra krefjast af þeim en hljóta verra af ella.
Aðstæður kvenna í Afganistan skánuðu því lítið þrátt fyrir að hin kvenfjandsamlega talíbanastjórn hefði verið hrakin frá völdum. Því að þótt frjálslyndari yfirvöld hafi tekið við hefur það litlu máli skipt því það er ættarveldi hverrar fjölskyldu sem gildir og er öllum lögum ofar.
Nokkur alræmd dæmi má nefna: Unglingsstúlka sem fremur þann stórglæp að hrífast af dreng á sama reiki og gefa sig á tal við hann er limlest fyrir vikið af fjölskyldumeðlimum sínum og er upp frá því úthrópuð skækja og drós. Verslunarmaður nauðgar stúlkubarni af götunni og gortar sig af því að hún geti ekkert gert vegna þess að hún muni sjálf bera skaðann ef hún vogar sér að segja einhverjum frá. Táningsstúlkur sem rétt eru orðnar kynþroska eru vegnar og metnar eins og nautgripir og síðan seldar þeim sem fjölskyldunni þykir bjóða best. Oftar en ekki rígfullorðnum körlum sem vilja ef til vill bæta annarri eiginkonu við og ýta þeirri sem fyrir er til hliðar.
Sjálfur er bóksalinn harðstjóri heima fyrir. Allir skulu fara að hans vilja í einu og öllu og enginn má setja sig upp á móti nokkru sem hann segir eða gerir. Eiginkona hans hefur engan rétt til þess að mögla þegar að hann ákveður að gera sextán ára stúlku að annarri eiginkonu sinni. Engum leyfist heldur að segja neitt þegar að bóksalinn ákveður að beita fullri hörku gegn bláfátækum smið og margra barna föður sem varð það á að hnupla nokkrum póstkortum úr bókabúðinni. Smiðurinn skal fá að dúsa í fangelsi áralangt, jafnvel þó það verði til þess að fjölskylda hans verði þar með fyrirvinnulaus og einhver barnanna veslist líklega upp og deyi. Bóksalinn ræður og þar við situr.
Bóksalinn í Kabúl er sett upp eins og um skáldsögu sé að ræða. Sögumaðurinn Åsne Seierstad kýs að halda sig utan framvindu sögunnar (nema í formála og eftirmála) og aðalpersónurnar fá ný nöfn. Flestöllum fjölskyldumeðlimunum er svo úthlutað einum kafla á mann þar sem kastljósið beinist að þeim. Allir eiga sína niðurbældu drauma og þrár en enginn fær að vera sinnar gæfu smiður. Dapurleg örlög fólks eru ráðin fyrirfram eftir aldagömlum hefðum og engin leið er fyrir nokkurn annan en fjölskylduföðurinn að hrófla við þeim.
Bóksalinn í Kabúl er sorgarsaga. Í henni er dregin upp mynd af þjóðfélagi í viðjum fornaldarlegs hugarfars. Segja má að svo bregðist krosstré sem önnur tré því að ef marka má dæmisöguna af bóksalanum og fjölskyldu hans er vonina ekki einu sinni að finna í þeim sem virðast frjálslyndir og opnir við fyrstu sýn. Þeir reynast vera hinir mestu afturhaldsseggir þegar á reynir og haldlitlir í baráttunni fyrir framþróuðu og opnu samfélagi.
Meðan svo er og hin afturhaldssömu og ofstopafullu viðhorf ráða ríkjum í Afganistan er líklegra að framtíðin þar taki fremur mynd af þyrnum stráðri fortíð landsins en að í hönd fari betri tímar með blóm í haga.
(Birt á Sellunni í apríl 2004)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home