Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

19.12.06

Bókabloggið flutt!


Bókabloggið er flutt á bokabloggid.wordpress.com.



Þar er að finna allar færslurnar af þessu bloggi og þaðan verður bókabloggað héðan í frá.

14.12.06

Útgönguleiðir eftir Steinar Braga

Sigurður Pálsson sagði í útvarpsviðtali sem ég heyrði um daginn að lestur bóka væri á vissan hátt eins og spilun á gömlum vínilplötum. Spennusögur lesi maður á 78 snúninga hraða, skáldsögur á 45 snúningum og ljóð loks á 33 snúninga hraða. Séu ljóð lesin á meiri hraða en þetta þá fari upplifunin fyrir lítið. Mér fannst þetta nokkuð vel mælt hjá nafna mínum Pálssyni.

Ég var nefnilega að klára Útgönguleiðir Steinars Braga og ég hef það á tilfinningunni að ég hafi stillt lesturinn á of mikinn hraða og helst þyrfti ég sjálfsagt að lesa bókina aftur enda ,,kallar hún á dýpri lestur" eins og voðalega flott er að segja á bókmenntafræðísku. Ég á þó sjálfsagt ekki eftir að lesa hana aftur vegna þess að ég er latur við svona ,,djúplestur" einhvern.

Get þó sagt það að Útgönguleiðir er flott safn sitúasjóna, eða atvika. Hryllingurinn og ógeðið er alltumlykjandi þannig að mælt er með því að bókin sé lesin utan matmálstíma.

Þetta er fyrsta bókin sem ég renni mér í gegnum eftir Steinar Braga. Það er skömm að því, auðvitað, og úr því verður að bæta sem fyrst. Kannski maður reyna að verða sér út um spæjarabókina hans núna í jólafríinu heima.

13.12.06

Metamorphosis eftir Franz Kafka

Nú er ég orðinn töluvert meira merkikerti og get slegið aðeins meira um mig eftir að vera búinn að komast í gegnum fyrstu Kafka-bókina mína. Hamskiptin voru það heillin. Þetta var það fyrsta sem ég valdi mér að hlusta á eftir að ég uppgötvaði aðgang minn, sem lánþegi á Malmö-bókasafninu, að Naxos-hljóðbókararkívinu.

Upplesturinn var góður og sagan auðvitað frábær og um margt langt á undan sinni samtíð (án þess að ég ætli að rökstyðja það frekar enda þar með kominn út á bókmenntafræðilegan hálan ís, þangað sem ég á ekkert erindi, ómenntaður maðurinn í þeim fræðum).

Paddan Gregor Samsa og hans heimilisfólk stóð sannarlega undir nafni sem klassískar bókmenntir og ég er til í meiri Kafka. Verst bara að það eru ekki fleiri Kafka-bækur á Naxos-grunninum...

5.12.06

Travels with Charley eftir John Steinbeck

Þessa dagana er talsvert mikið rætt um nýútkomna ferðasögu þeirra Einars Kárasonar, Ólafs Gunnarssonar og fylgineytis um reisu þeirra síðastliðið sumar þvert yfir Bandaríkin á gömlum Kadilakk. Ferðalangarnir fylgdu að talsverðu leyti hinum sögufræga þjóðvegi 66“, þeim hinum sama og John Steinbeck átti stóran þátt í að gera ódauðlegan í skáldsögu sinni Þrúgum reiðinnar frá 1939.

Í tilefni útkomu reisubókar þeirra Einars og Ólafs er því ekki úr vegi að rifja einmitt upp ferðasögu sem lýsir ferðalagi sjálfs Johns Steinbeck um þetta sama víðfeðma land haustið 1960. Sú saga kom út á bók 1962, sama ár og Steinbeck var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum, og heitir því alþýðlega nafni Travels with Charley.

Árið 1960 fannst John Steinbeck hann standa á einhvers konar tímamótum. Hann hafði varið miklum tíma áratuginn á undan fjarri heimalandi sínu, einkum í Frakklandi eða Englandi. Líkamshreystin, sem fram að því hafði verið honum óbrigðul, var einnig farin að minnka (hann hafði lent í fáeinum tilvikum vægra hjartaáfalla). Hvort tveggja varð þetta til þess að Steinbeck fannst nauðsynlegt að taka sjálfan sig tökum. Honum fannst öll fjarveran frá heimalandi sínu, og ef til vill aldurinn líka, vera farin að gera það að verkum að hann væri farinn að fjarlægjast þessa þjóð sína sem hann eitt sinn hafði haft svo meistaraleg tök á að skrifa um.

Hann ákvað því að leggja upp í heljarinnar ferðalag, svo til hringinn í kringum Bandaríkin, haustið 1960. Til ferðalagsins lét hann sérsmíða húsbíl sem hann gaf nafnið Rocinante, eftir reiðskjóti Don Kíkóta, og síðan fékk púddl-hundurinn Charley það hlutverk að vera húsbónda sínum félagsskapur á hringferðinni miklu. Fyrir utan þá félaga Rocinante og Charley lagði Steinbeck hins vegar aleinn í hann.

Ferðin hófst frá heimili Steinbecks í New York, þaðan var haldið norður eftir austurströndinni upp til Maine og þaðan um það bil vestur í átt. Hann kom við í Chicago, Fargo, í Wisconsin-fylki og á fleiri stöðum á leið sinni upp að vesturströndinni. Undir lok bókarinnar segir Steinbeck frá því að ferðinni geti hann líkt við það að setjast að matarborði sem sé að svigna undan miklum krásum; í upphafi hámar maður allt í sig en þegar að á líður og magamálið fer að verða af skornum skammti þá reyni maður frekar að velja og hafna og stingi aðeins upp í sig kræsilegustu bitunum. Þannig segir hann að honum hafi liðið þegar komið var upp að vesturströndinni. Fram að því hafði hann stoppað víða og reynt að fræðast um allt sem fyrir augu bar en á seinni hluta reisunnar fann hann að úthaldið var ekki endalaust og því ákvað hann að fara hraðar yfir suðvestrið og alla leiðina til baka aftur heim til sín. Hann áði því bara á útvöldum stöðum frá vestri til austurs og staldrar einna helst við dvöl sína í Texas og Louisiana þar sem að mikil ólga ríkti um þessar mundir og kom hún talsverðu róti á huga Steinbecks. Meira um það síðar.

Ferðalagið er farið í upphafi mikilla umbrotatíma í bandarísku samfélagi og sú deigla sem er við það að fara í gang skín vel í gegn í þjóðfélagslýsingum ferðabókarinnar. Sjálfsblekking 6. áratugarins er um það bil að baki, þar sem að hvítir, miðaldra Bandaríkjamenn töldu sig hafa fundið sína paradís í fínu úthverfunum sínum, með konuna við eldavélina, börnin vel greidd og klædd, stóra grillið úti í garði og bensínskrímslið í innkeyrslunni. Stóra stríðið var að baki og ekkert ógnaði nema þá kannski helst Rússagrýlan í austri, svona endrum og eins. Módernisminn virtist hafa sigrað heiminn þar sem tíðin gat ekki orðið neitt annað en betri. Enginn velti sérstaklega fyrir sér stöðu kvenna og ýmissa annarra hópa, svo sem blökkumanna, sem engin völd höfðu í þessari þjóðfélagsskipan og þaðan af síður velti nokkur því fyrir sér að pústið aftan úr bensínskrímslinu í innkeyrslunni hefði eitthvað með framtíðarhorfur plánetunnar að gera.

Það var hins vegar farið að daga upp fyrir einum og einum þegar komið er sögu, haustið 1960, að himnasælan áratuginn á undan hafi ef til vill verið mikið svikalogn. Fyrr var minnst á ólguna sem ríkti í Texas og Louisiana, og raunar mun víðar um Bandaríkin, og þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða réttindabaráttu blökkumanna í ríki sem fram að því að því hafði beinlínis haldi uppi aðskilnaðarstefnu kynþáttanna, sér í lagi í ýmsum ríkjum suðursins. Steinbeck segir frá þeirri djúpu sorg sem grípur hann þegar að hann sjálfur horfir upp á mæður koma skipulega saman í mótmælastöðu fyrir utan skóla í New Orleans dag eftir dag til þess að hrópa ókvæðisorð að þeldökkri stúlku sem átti fólk að sem boðið hafði hefðunum byrginn og sett barn sitt í skóla með hvítum börnum. Svipuðu viðhorfi finnst honum hann verða fyrir allt of oft þegar að fer um þessi svæði þar sem fremur virðist talað um blökkufólk sem aðra og óæðri dýrategund en jafnréttháa meðbræður í samfélaginu.

Fyrir utan hatrið í suðurríkjunum, finnst Steinbeck hann verða fyrir annars konar vonbrigðum með aðra hluta þjóðar sinnar. Þar finnst honum einkenna allt mikill doði og viðhorf sem einkennast af stjórnlausum materíalisma og snúast um það eitt að kaupa og henda því í staðinn sem keypt var í gær. Steinbeck vekur lesendur sína til umhugsunar um umhverfisvána sem af þessu skeytingarleysi hefur hlotist þar sem ruslahaugar hlaðast upp við hver bæjarmörk og ár eru mengaðar með úrgangi. Sumir hafa, vegna þessa, nefnt Steinbeck til sögunnar sem einn fyrsta talsmann umhverfisverndar, stefnu sem ekki fór að láta raunverulega á sér kræla fyrr en fyrst áratug síðar.

Doðinn beinist líka að áhugaleysi fólks á þjóðmálum, að mati Steinbecks. Hann segist hvergi hitta fyrir nokkurn mann sem áhuga hafi á komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir það að þá þegar hafi verið ljóst að sögulegar forsetakosningar voru fyrir dyrum milli Nixons og Kennedys.

Að sama skapi finnst honum flatneskjan vera orðin alltumlykjandi um allt sitt stóra ríki. Alls staðar hafa verið lagðir rennisléttir vegir. Alls staðar er sami verksmiðjuframleiddi og bragðlausi maturinn framreiddur og á sumum stöðum kemur mannshöndin ekki einu sinni við sögu til þess að bera matinn fram því að sjálfsalar hafa sprottið upp á víð og dreif sem selja bæði forrétti, aðalrétti og eftirrétti og útþynnt kaffi þar að auki.

Allt þetta fyllir Steinbeck af blendnum tilfinningum. Í eina röndina finnst honum allt vera orðið eins hjá þjóð sinni en á hinn bóginn finnst honum allt þetta nokkuð framandi. Hann verður því að horfast í augu við þá staðreynd að ferðalagið hefur ef til vill aðeins staðfest þá tilfinningu sem hann hafði áður en lagt var af stað; að þjóð hans sé á einhverri allt annarri og óskiljanlegri vegferð en hann sjálfur.

Þrátt fyrir þetta er Travels with Charley langt í frá að einkennast af bölsýnisrausi eldri manns sem syrgir horfna gullöld. Travels with Charley er hlý og með eindæmum skemmtileg frásögn þar sem lesandinn ferðast bæði um tíma og rúm til víðfeðms lands mikilla náttúrulegra andstæðna og aftur til tíma þar sem að þjóðin í landinu stóra var í þann mund að rumska af þyrnirósarsvefni eftirstríðsáranna og upplifa einn afdrifaríkasta áratug í seinni tíma sögu vestrænnar menningar.

20.11.06

Goodbye to Berlin eftir Christopher Isherwood

Þrælfín bók í góðum upplestri. Dregur upp mynd af suðupottinum Berlín á árunum í kringum 1930 þegar að allt gat enn gerst í þeirri miklu heimsborg og raunar í Þýskalandi öllu. Það er engin leið að sjá hverjir muni hafa best, kommúnistar, nasistar eða bara sama gamla Weimar-sósjaldemókrasían (Þjóðverjar hefðu betur haldið sig bara við hana).

12.11.06

Lygasaga eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Fátt finnst mér nú leiðinlegra en fyrrverandi alkar að rekja í löngu máli fyrrum drykkjusögu sína í allt of miklum smáatriðum. Fyrir vikið hef ég í gegnum tíðina forðast allar reynslusögur sem komið hafa út á bók þar sem að þurrkaðir alkar segja frá blautri fortíð sinni. Flokka þetta undir einhvers konar sorgar- eða óhamingjuklám þar sem verið er að klæmast á óhamingju fólks og gera hana að hálfgerðri afþreyingu þar sem lögmálið; því svæsnara og hryllilegra því meira spennandi, er í gildi.

Margir hafa haldið því fram að Lygasaga Lindu Vilhjálmsdóttur sé undantekningin frá þessari reglu þar sem að þar segi fær rithöfundur frá eigin drykkjureynslu auk þess sem sagan hennar sé tempruð, írónísk, vel stíluð og laus við alla vorkunn eða dramatíseringar.

Ég ákvað því að láta fordóma mína fyrir alkabókmenntum ekki hindra það að renndi mér í gegnum bók Lindu.

Og satt er það að vissulega gerir Linda þetta margfalt betur heldur en gengur og gerist í þessum mjög svo leiðigjarna bókmenntaflokki. Og margt er flott og margt er mjög gott. En samt sem áður hálfleiddist mér lesturinn. Bókin er nefnilega samt sem áður enn ein játningarsaga þurrkaða alkans þar sem ekkert annað er til umræðu en alkinn sjálfur og alkóhólisminn og svæsnar sögur af gömlum fylleríum. Ég verð því að viðurkenna að ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum enda fannst mér Lindu ekki takast nógu vel að hefja sig yfir hinar hefðbundnu leiðigjörnu alkasögur.

Lygasaga er því ekki nema rétt sæmileg, þegar að á heildina er litið.

8.11.06

Khader.dk eftir Naser Khader

Sjálfsævisaga en um leið pólitískt testamenti þessarar einnar helstu vonarstjörnu danskra stjórnmála í dag. Khader situr á þingi fyrir Radikale venstre-flokkinn, er sýrlenskur að uppruna en hefur búið hér frá barnsaldri.

Sagan segir sögu hans sem innflytjanda og í leiðinni kemur hann á framfæri sínum skoðunum um danska pólitík, einkum innflytjendamál.

Athyglisverð bók um margt þó að mér finnist Khader vera kannski full uppfullur af sjálfum sér. Stjórnmálamenn hafa nú reyndar ekki verið mjög frægir fyrir hógværð eða lítillæti þannig að kannski hann skeri sig ekkert úr.

Mest fór í taugarnar á mér við lesturinn hversu miklum tíma hann eyddi í að ráðast á vinstri menn og áherslur þeirra í innflytjendamálum sem honum fannst naívar og þess vegna kallaði hann vinstri menn "Halal-hippa" út alla bókina. Svona uppnefningar eru pirrandi og hafa ekkert með málefnalega umræðu að gera, auk þess sem mér finnst þær gera lítið úr þeim hópi fólks sem þó leggur á sig að kynna sér málin og komast að lausnum sem einkennast af skilningi og yfirvegun.

Annars ágætis bók.

Imperial Ambitions eftir David Barsamian og Noam Chomsky

Viðtalsbók útvarpsmannsins Barsamians við Chomsky þar sem farið er um víðan völl og tæpt á hinu og þessu. Í heildina nokkuð skemmtileg lesning þar sem að Chomsky sýnir, eins og búast mátti við, nokkuð aðra hlið á hinu góða heimsveldi Bandaríkjanna. Margt athyglisvert kemur fram, t.d. hvernig USA, hylmir yfir hryðjuverkamenn og er þar með, skv. boðorðum Bush ,,against us" (þið munið: ,Either you are with us, or against us..."). Chomsky er auðvitað fjandanum klárari og minnugri og snjallari við að tengja ólík tímabil og ólíka hluti saman á sannfærandi hátt.

Gallinn við málflutning Chomskys er kannski sá sami og oft verður hjá réttlætissinnuðum vinstri mönnum sem kannski hafa verið aðeins og uppteknir við að grafa upp ljóta hluti árum saman. Þeir öðlast fyrir vikið það sem á ensku kallast ,,selective memory" og muna bara eftir því ljóta og verða fyrir vikið svolítið sinikal svona og halda að allt sem allir gera stafi alltaf af illum hvötum. Annar galli Chomskys, sem líka skrifast á marga yst á hægri vængnum, er að gera minna úr illvirkjum annarra en þeirra sem mest völd hafa og að taka afstöðu með nánast öllum sem eru óvinir USA. Verður að einhvers konar: Óvinur óvinar míns er vinur minn. Til dæmis er erfitt að taka til sín það sem hann segir um loftárásir NATO á Kosovo 1999. Þar gerir hann lítið úr glæpum Milosevic og Serbanna og það er ljótt að heyra enda stóð Milosevic í þjóðernishreisnunum.


En um margt athyglisverð lesning. Ekki nenni ég þó að leggjast í pólitískar rullur eftir Chomsky sjálfan.

23.10.06

The Invention of Solitude eftir Paul Auster

Eitt af fyrstu verkum Austers og gott ef ekki fyrsti prósinn hans. Stenst, að mínu mati, ekki því besta sem hann hefur gert snúning. Fyrri hlutinn er helgaður minningum og hugrenningum Austers um nýlátinn föður sinn en í seinni hlutanum fara hlutirnir meira á flot og mörk skáldskapar og veruleika verða óskýr og framvinda flýtur á milli hugrenninga ýmiskonar.

Best að hætta sér ekki mikið lengra í lýsingum á bókinni áður en maður fer út á þann hála ís að fara að slá um sig með bókmenntafræðilegum frösum sem maður ræður ekkert við. Þetta er Auster fyrir lengra komna, bók sem mér fannst ég oft vera of heimskur fyrir. En það er ekkert við því að gera (þ.e. heimsku minni).

14.10.06

Ikonen i fickan eftir Owe Wikström

Tók þessa hljóðbók nú bara svona í bríaríi. Þetta reyndist hin skemmtilegasta hlustun. Höfundurinn er prófessor í trúarbragðafræðum frá Uppsala-háskóla og bókin er uppfull af alls konar exístensíalískum þankagangi höfundar um vegferð manneskjunnar þar sem að leiðarstefið er ferðalög, bæði á hinu ytra borði og hinu innra. Ég hætti mér eiginlega varla út í frekari útlistingar á efni bókarinnar en einhvern veginn varð þetta allt mjög áhugavert og skemmtilegt.

Og ekki orð um það meir.

12.9.06

Arabíukonur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

Fá álitamál eru eins vandmeðfarin og í augum Vesturlandabúa þessi misserin og staða kvenna í samfélögum Múslima. Erfitt er fyrir þá sem ekki þekkja til af eigin raun að fella dóma um það hvort þær eru kúgaðar af samfélögum sínum eða einfaldlega sáttar við lífið og tilveruna þó að hún kunni að líta öðruvísi út en sú sem við þekkjum hér í Vestrinu.

Það gildir eins og oft áður að þeir sem vita minnst eru oft fljótastir að dæma. Það er lítið mál að skella fram alhæfingum en mun erfiðara hins vegar að taka afstöðu að vel ígrunduðu máli enda vita það flestir sem slíkt leggja í vana sinn að oftar leiðir ein spurning einungis til fleiri spurninga heldur en eins ákveðins svars.

Að þessu komst Jóhanna Kristjónsdóttir þegar að hún fór á stúfana, einu sinni sem oftar, um nokkur Austurlönd nær til þess að viða að sér efni um stöðu og viðhorf kvenna í nokkrum arabískum samfélögum. Afraksturinn er bókin Arabíukonur: Samfundir í fjórum löndum sem Mál og menning sendi frá sér síðla árs 2004 og endurútgaf síðan í kilju ári síðar.

Sjálfsagt eru fáir Íslendingar jafnsjóaðir af ferðum og langdvölum um menningarheim Austurlanda nær og Jóhanna en nánast má ganga svo langt að segja að þessi heimshluti hafi verið hennar annað heimili undanfarna tvo áratugina eða svo. Það er því einkar mikill fengur í því fyrir íslenska lesendur að Jóhanna skuli senda frá sér bók um þetta glóandi álitaefni samtímans sem staða kvenna í samfélögum Múslima er.

Og hver er svo niðurstaðan? Hvaða sannleik getur Jóhanna fært okkur um stöðuna? Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og kannski mátti gera sér í hugarlund, að sannleikurinn er enginn. Vissulega má draga saman ákveðna heildarsýn af viðtölunum og umfjölluninni um þann fjölbreytta hóp kvenna sem verður á vegi Jóhönnu í löndunum fjórum sem hún ákveður að gera skil (Egyptaland, Sýrland, Óman og Jemen). Staðan er heilt á litið ekki góð, ekki á vestrænan mælikvarða í það minnsta. Áhersla á orðspor fjölskyldna, ævagamlar hefðir og valdastrúktúr karlmanna verður þannig víða til þess að viðmælendur höfundar búa ekki við það frelsi og þá hamingju sem þeim þætti æskileg.

Hins vegar er staðan eins misjöfn meðal kvennanna og þær eru margar. Raunar má segja að það sé í þessu tilviki eins og víðar á við að stéttarstaða kvennanna virðist hafa töluvert mikið að segja hvað varðar stöðu þeirra sem kvenna. Þannig eru ómenntaðar konur sem tilheyra fjölskyldum og kreðsum í fátækustu stéttum vanþróuðustu landanna sem farið er til þær sem verst standa. Menntaðar og vel settar konur í betur stæðu löndunum eru hins vegar oft í síst verri stöðu en kynsystur þeirra norður í Evrópu og að sumu leyti er staða þeirra jafnvel sterkari. Aðstæður kvenna eru því fremur bundnar við þjóðfélagsstöðu og þjóðfélagsviðhorf en trúarbrögðin og sömuleiðis fer viðhorf til jafnréttismála nokkuð eftir menntun og stéttarstöðu.

Þar með er komin upp kunnugleg mynd frá Vesturlöndum. Skilningur á kvenfrelsissjónarmiðum og menntunar- og velferðarstig virðist haldast nokkurn veginn í hendur. Og svo það sé ítrekað aftur, þá virðast trúarbrögð koma því fremur lítið við.

Bókin er skemmtileg aflestrar. Það gustar af Jóhönnu í þessari bók. Ekki ætla ég að segja hvað er til dæmis miklu skemmtilegra að lesa frásagnir Jóhönnu þar sem að lífsreynslan litar hverja síðu í stað þess að lesa til dæmis höfunda á borð við Åsne Seierstad sem skortir einhvern veginn allan höfuðstól á bak við það sem þeir eru að skrifa vegna þess að skilningurinn á lífinu er enn þá svo lítill og tök þeirra á fólki enn þá svo fálmkennd. Auk þess skortir þann húmor og þá sjálfsíróníu sem nauðsynleg er. Af slíku er hins vegar blessunarlega nóg hjá Jóhönnu enda ekki við öðru að búast.

Nálgun Jóhönnu er líka vel til fundin. Hún leyfir sér hiklaust að spyrja konurnar hreint út sömu naívu spurninganna og leita á hugi okkar sem minna þekkjum til en hún. Spurninga eins og hvort blæjan sé kúgunartæki og hvort þær sjálfar lifi í kúguðum heimi. Hún veit að stundum hættir hún á að móðga viðmælendurna en Jóhanna hefur slíka nærveru og er slíkur mannþekkjari að konurnar fyrirgefa allar fljótt barnalegu spurningarnar þegar að þær skynja þá virðingu og nærgætni sem undir býr hjá Jóhönnu gagnvart þeim menningarheimi sem hún er að kljást við að skilja, kannski fyrir hönd lesenda bókar sinnar.

Fyrir þetta ber að þakka Jóhönnu Kristjónsdóttur. Niðurstaðan er bók sem varpar ljósi á fjölbreytileikann en freistast sem betur fer ekki til að leita einhverra niðurstaðna eða lokasvara nema bara þeirra að hlutirnir eru gerólíkir í hverju tilviki fyrir sig. Það er lærdómsrík lexía nú á tímum alhæfinga og fordóma í garð margslungins veruleika samfélaga Austurlanda nær.

30.8.06

Den femte kvinnan eftir Henning Mankell

Ein af þessum alveg hreint ágætu glæpasögum Mankells. Hlustaði á góðan upplestur sögunnar og ítreka ég hér með enn og aftur hversu hentugt það form er til inntöku glæpasagna sem maður hefði ómögulega nennt að eyða tíma í að lesa en er ágætt að hlýða á meðan maður bardúsar eitthvað annað.

Svosem ekki mikið meira um málið að segja. Bara fínt hjá Mankell.

29.8.06

The Brooklyn Follies eftir Paul Auster

Paul Auster sagði í viðtali vegna bókar sinnar Brooklyn Follies að hann skrifaði kómedíur þegar að hann væri illa stemmdur en tragedíur þegar að hann væri vel stemmdur. Og þar sem að Paul Auster hefur lýst því hversu hryðjuverkin 11. september 2001 og aðgerðir Bandaríkjastjórnar í kjölfarið hafi skilið hann eftir í losti og djúpu þunglyndi þá lá það beinast við fyrir hann að skrifa kómedíu til þess að lyfta sér upp.

Afraksturinn er Brooklyn Follies. Einhver útgefenda Austers reyndi að auglýsa bókina með því að segja: ,,Auster goes Woody Allen" og mér finnst það bara nokkuð vel til fundið. Brooklyn Follies minnir nefnilega ekki lítið á glettnar New York-sögur Allens þegar að hann var upp á sitt besta. Svona virkilega vel skrifaðar fíl-gúdd-sögur.

Sagan segir frá Nathan sem er kominn á ,,early retirement" eins og það heitir á ensku. Hann er í byrjun mjög í stíl aðalsöguhetja margra bóka Austers; einfari sem á nógan pening til þess að hafa efni á því að gera ekkert annað en að loka sig af frá umheiminum og sinna sínu grúski. Hann er búinn að fá leið á lífinu og sest að í Brooklyn til þess að fá að hrörna þar í friði, fýldur og kaldhæðinn.

Hann rekst síðan af tilviljun á Tom, systurson sinn á förnum vegi. Systursonurinn hefur lent á hálfgerðu blindskeri í lífinu eftir að hafa verið vel á veg kominn með sinn akademíska feril. Nú er hann hins vegar farinn að keyra leigubíl í New York og síðan í framhaldinu standa vaktina í bókabúð. Þeir taka að bralla ýmislegt saman og í lið þeirra bætist síðan systurdóttir Toms, hin ellefu ára gamla Lucy.

Sumir eru viðkvæmir fyrir því að atburðarás sagna sé rakin of nákvæmlega áður en þeir lesa hana sjálfir og því skal hér staðar numið í frásögn plottsins. Þó skal því bætt við að, og það verður þá bara að hafa það að ég upplýsi það, að allt endar í miklum blóma og veröldin brosir við Nathan á síðustu blaðsíðu bókarinnar - að morgni fagurs haustdags í New York: 11. september 2001. Ekki þarf hálærðan bókmenntafræðing til að sjá hvaða andstæður Auster er þar að draga fram: Lífið var gott þangað til þarna um miðbik morguns hins örlagaríka 11. september en eftir það fór allt til fjandans og sú staða ríkir enn óbreytt á ritunartíma þessarar bókar (útg. 2005).

Bush fær sínar sneiðar í bókinni. Allar vitibornar persónur bókarinnar standa með Al Gore (eða jafnvel Ralph Nader) í forsetakosningunum haustið 2000 en fulltrúi síkópatanna hans Bush er frelsaður öfgakristinn suðurríkjahillíbillí sem læsir systur Toms inni mánuðum saman á heimili þeirra vegna þess hversu illa gengur að fá hana til þess að gerast leiðitöm stjörnuklikkuðum sértrúarsöfnuði sem að frelsinginn tilheyrir.

Hér er því um rammpólitíska bók að ræða og drungalegur botnstraumurinn undir ljúfri kómedíunni er þungur og kraftmikill. Hæglega má setja hana í flokk með svokölluðum eftir-11. september-bókum (post-9/11 literature) en fleiri bækur mætti gjarnan bætast í þann flokk enda er fáar raddir mikilvægari á slíkum umbrotatímum sem nú ríkja í heiminum en raddir rithöfunda sem geta, þegar vel tekst til, hrist ærlega upp í lesendum sínum með úthugsuðum sjónarhornum og vel orðuðum nálgunum.

Brooklyn Follies fer hiklaust í hæsta klassa meðal bóka Austers (af þeim fáu sem ég hef lesið raunar). Vonandi gefa bandarísk stjórnmál Auster síðan tækifæri til þess að skrifa tragedíu næst. Það bendir nú reyndar fátt til þess í augnablikinu.

16.8.06

On the Road eftir Jack Kerouac

Ég man ekki hvenær að ég heyrði fyrst minnst á On the Road, hina frægu vegasögu Jack Kerouacs en ég man hins vegar eftir mörgum tilvikum þar sem maður hefur hlustað á stórkarlalegar lýsingar á efni bókarinnar og ekki síður á höfundinum og öllu ruglinu og vitleysunni sem hann tók upp á á sinni viðburðaríku ævi.

Satt best að segja varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum með On the Road. Kannski hún hefði virkað betur á mig ef ég hefði lesið hana en ekki hlustað á hana lesna upp en þó vil ég halda það að góðar bækur ættu ekki að tapa svo miklu á milli tveggja forma sem til eru til þess að njóta bókmennta. Ég bjóst við flottri framvindu og glæsilegri frásögn þessarar háklassísku töffarabókar en í staðinn fannst mér þetta oft og tíðum vera lítið meira en eintóna fyllerísröfl og frægðarsögur af alls konar sniðugu og skemmtilegu flippi í ungu fólki sem finnst gaman að rasa út.

Kannski hefði ég haft meiri þolinmæði fyrir þessu á þeim tíma sem að maður var einmitt að hlusta á frægðarsögur af þessari miklu bók, svona í kringum rúmlega tvítugt þegar að maður var líka alltaf úti á lífinu og fannst rosa gaman að heyra um og segja sjálfur sögur sem byrja á setningunni: ,,Djöfull var ég fullur, maður!"

En hvort sem það er það eða eitthvað annað, þá alla vega mátti ég hafa mig allan við að hlusta til enda á allar ,,djöfull var ég fullur, maður"-sögurnar af Kerouac og félögum hans. En kannski er málið bara líka það að allt þetta í bókinni sem hneykslaði rosalega á sínum tíma hljómar eins og úr sunnudagaskólastund miðað við það sem úir og grúir af út um allt í bókmenntum nútímans. Þannig að sú ögrun sem í efni bókarinnar fólst hér áður fyrr er löngu horfin og þá stendur restin kannski svolítið fátækleg eftir.

On the Road voru sem sagt vonbrigði. En ég ætla samt að reyna mig við Big Sur líka og sjá hvort mér finnst það skárra.

30.7.06

Stormur eftir Einar Kárason

Aftan á kiljuútgáfunni af Stormi eftir Einar Kárason sem ég fékk lánaða um daginn er vitnað í ritdómara sem segir eitthvað á þá leið að það sé langt síðan hann skemmti sér jafnmikið við lestur bókar. Ég segi nú eiginlega það sama bara. Maður er alltaf að lesa bækur sem hafa það helst upp á að bjóða að vera vel stílaðar, vel plottaðar, áhrifamiklar eða eitthvað þvíumlíkt en alltof sjaldan kemur það fyrir að til manns rata bækur sem maður flissar eða hreinlega hlær upphátt yfir. Það gerði Stormur hins vegar.

Sagan skýrir frá þessum sérstæða en þó einhvern veginn svo kunnuglega manni, Eyvindi Jónssyni Stormi sem lætur digurbarkalega um alla hluti en sjaldan ef þá nokkurn tíma stendur nokkuð á bak við orð hans. Týpan er, eins og ég segi, eiginlega alveg óhugnanlega kunnugleg: Allt það klandur og klúður sem Stormur kemur sér ævinlega í er alltaf einhvers konar alheimssamsæri hálfvita þessa heims að kenna en aldrei honum sjálfum. Hann drekkur of mikinn bjór, vinnur aldrei handtak en lætur konuna sína þess í stað sjá fyrir honum og heimilinu og það eina sem hann er góður í er að spila á kerfið til þess að að fá meiri bætur fyrir hitt og þetta.

Þrátt fyrir þetta er hann ætíð sárhneykslaður yfir því hvað allir hinir nenna lítið að leggja á sig, hristir hausinn yfir fíflum sem komið hafa honum í tóm vandræði (vandræði sem hann einn, og enginn annar, ber fulla ábyrgð á) og stundar illt umtal um allt og alla, sérstaklega þá sem gefist hafa upp á samskiptum sínum við hann.

Og að sjálfsögðu flytur þessi maður til Danmerkur til þess að sníkja meira þar. Já, eins gott að maður passi sig sjálfur á því að koma sér heim áður en maður breytist í eitt stykki Storm!

Bókin er sett upp þannig að persónurnar fá sína kafla á víxl þar sem þær segja frá sinni hlið atburða og þær persónur sem þar tala eru oft ekki síður kostulegar en aðalpersónan Stormur.

Það rifjast upp fyrir manni við lestur þessarar bókar hversu mikill meistari Einar Kárason er í því að draga upp kómískar en þó einhvern veginn svo dæmigerðar persónulýsingar á týpum sem allir þekkja. Það er að minnsta kosti einn í hverri stórfjölskyldu eða vinakreðsu eins og Stormur og það sama á við um hina karakterana. Sannast þar hið fornkveðna að karakterarnir hans Einars eru: ,,funny because its true", svo vitnað sé í sjálfan Hómer (Simpson sko!).

Allt lofið og prísið á bókarkápunni er því barasta dagsatt: Stormur er nefnilega sannarlega fyndnasta og gleðilegasta bók sem ég hef lengi lesið.

25.7.06

Steget efter eftir Henning Mankell

Ég var farinn að fá hundleið á þessum Mankell-bókum, og glæpasögum yfirleitt, þegar ég ákvað þó að prófa að hlusta á þessa. Hún er númer sex eða sjö af Wallander-sögunum og mér til undrunar og mikillar gleði þá var hún mun betri en margar af þeim sem ég hef lesið. Eins og ég hef áður talað um, þá er ég reyndar búinn að finna fullkomna aðferð til að njóta glæpasagna, þ.e. að hlusta á þær í staðinn fyrir að lesa þær. Glæpasögur krefjast nefnilega ekki meiri athygli en svo að maður getur vel gert eitthvað á meðan að maður fylgist með framvindunni.

Sem sagt meðal þeirra bestu í Wallander-seríunni.

15.7.06

Sólskinshestur eftir Steinunni Sigurðardóttur

Það er mikið fagnaðarefni að Edda-útgáfa (eða hvað þetta heitir nú formlega) skuli stíga það skref inn í nútímann, fyrst íslenskra forlaga, og fara að fordæmi erlendra kollega sinna með því að hefja útgáfu svokallaðra MP3-bóka - þ.e. hljóðbóka á MP3-formi sem fólk getur hlaðið beint inn á spilarana sína til þess að hlýða svo á sér til skemmtunar.

Fyrst í röð slíkra bóka er Sólskinshestur, nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur. Edda var svo rausnarleg að bjóða gestum heimasíðu sinnar að hlaða upplestrinum ókeypis niður í tilefni þessara tímamóta. Ég greip vitanlega tækifærið.

Ég hef aldrei lagt mig neitt sérstaklega eftir bókum Steinunnar. Fannst reyndar Tímaþjófurinn nokkuð góð bók þegar að ég las hana á sínum tíma en síðan hef ég lesið annað og reynt við enn annað en einhvern veginn ekki þá átt samleið með Steinunni.

Segja má það sama um Sólskinshest. Hún er að mörgu leyti afar vel skrifuð og sérstaklega finnst mér mikils verðar Reykjavíkurlýsingar bókarinnar. En samt náðu persónurnar ekki fullkomlega til mín en líklega er það bara vegna þess að ég hef einhvern veginn sjaldan getað samsamað mig þeim tóni sem einkennir bækur Steinunnar.

Þannig að þetta var að mörgu leyti ágætt en kannski bara ekki alveg fyrir minn snúð.

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast í lokin á tæknilegri hlið þessarar MP3-bókar en sú hlið fær algjöra falleinkunn. Vissulega ber að fagna því framtaki Eddu að gefa Sólskinshest út á þessu formi og ryðja þannig brautina. Hins vegar hefði maður haldið að við svona frumkvöðlaverk yrði vandað til verka og að engir hnökrar væru á upptökunni. Því fer hins vegar fjarri. Tæknilega hliðin einkennist nefnilega af einstöku metnaðarleysi og slóðaskap. Hljóðgæðin sjálf eru til dæmis af síðustu sort, eins og hljóðritað sé á gamalt segulbandstæki.

Verst er hins vegar að fulltrúar Eddu virðast ekki hafa ómakað sig við að fara yfir upptökuna áður en hún var sett út á vefinn því að víða í upptökunni má finna dæmi um að Steinunn mismæli sig eða ræski sig og geri síðan stutta pásu og byrji síðan aðeins fyrr í textanum sem hún var búin að lesa. Slíkar aðferðir þekkja allir rithöfundar sem lesið hafa upp á band og vita að þá má treysta á að tæknifólk muni klippa misfelluna úr svo út verði samfelldur lestur. Eddufólk virðist hins vegar ekki hafa hirt um að sinna þessu og þess í stað sent út í loftið óunnið eintak að upplestrinum.

Þetta slær mjög á annars gott framtak Eddu sem vonandi sýnir meiri metnað þegar að útgáfu næstu MP3-bókar kemur hjá útgáfunni

På resa med Herodotos eftir Ryszard Kapuscinski

Ekki var hægt að láta hjá líða að renna í gegnum þessa nýjustu bók Ryszards Kapuscinski sem er tiltöluleg nýkomin út í sænskri þýðingu (enska þýðingin bíður útkomu síðar á þessu ári). Það kveður við nokkuð nýjan tón í þessari bók Kapuscinski enda má segja að sögumenn þessarar bókar séu tveir; Kapuscinski og svo forn-gríski sagnaritarinn Heródótus.

Kapuscinski heldur áfram í þessari bók að deila reynslusögum með lesendum sínum frá áratugalöngu starfi sínu sem fréttaritari víðs vegar um heiminn fyrir pólsku fréttaþjónustuna. Kapuscinski hefur í síðari bókum sínum, einkum í Imperium, færst nær sínum heimaslóðum og lýsingum á eigin uppruna og því heldur hann áfram í þessari nýju bók.

Við fáum að kynnast því hvernig fréttaritarinn Ryszard Kapuscinski varð til, allt frá fyrstu leiðöngrum hans til Indlands og Kína, þar sem hann er svo blautur á bak við eyrun að hann getur ekki einu sinni tjáð sig ensku (kannski það þurfi samt ekki að vera svo sjálfsagt að allir kunni endilega ensku) og er að mörgu leyti fullkomlega bjargarlaus eins og fugl sem dottið hefur úr hreiðri sínu.

Strax þarna í byrjun ferils síns er hinni stóru og miklu sagnabók Heródótusar gaukað að honum og upp frá því verður sagnaritarinn Heródótus honum að nokkru leyti fyrirmynd og bókina tekur hann með sér hvert á land sem er til þess að geta slegið upp í, sér til dægrastyttingar eða fróðleiks.

Kapuscinski reynir að sýna fram á andstæðurnar eða hliðstæðurnar milli þess sem fyrir augu Heródótusar bar á hans ferðum og þess sem Kapuscinski sjálfur sá svo á sömu slóðum. Oft fylgja í bókinni langar tilvitnanir í Heródótus og fannnst mér persónulega þar vera um frekar leiðinlega útúrdúra að ræða. Fór svo að lokum að ég hálfhljóp yfir alla þá kafla bókarinnar sem höfðu að geyma tilvitnanir eða umfjallanir um sögusvið lýsingar Heródótusar enda hef ég snöggtum minni áhuga á lýsingum á konungum og stríðum fyrir botni miðjarðarhafs á fornsögulegum tíma en ég hef á þeim lýsingum sem Kapuscinski dregur upp í bókum sínum af lífinu og tilverunni nú og í náinni fortíð.

Þessi flétta Kapuscinski af eigin lýsingum og frásögnum Heródótusar varð því þreytandi til lengdar og gekk einhvern veginn ekki upp að mínu mati. Lýsingar Kapuscinskis á eigin reynslu standa hins vegar alltaf fyrir sínu og það er hið góða við þessa bók. Heródótusar-flétturnar endalausu eru hins vegar mínus í kladdann, að mínu mati.

12.7.06

When we were Orphans eftir Kazuo Ishiguro

Það eru auðvitað bölvaðir fordómar og alhæfingar af minni hálfu sem valda því að mér finnst að nafn Kazuo Ishiguro ætti að vera tengt hinni nýju bylgju enskra bókmennta þar sem tónn innflytjenda og afkomenda þeirra í bresku samfélagi er áberandi. Það kemur nefnilega mjög snemma í ljós við hlustun á skáldsögu hans When we were Orphans að varla er hægt að hugsa sér ,,breskari" sögu. Það kemur svo sem líka heim og saman við hina erkibresku Remains of the Day þar sem viðfangsefnið er eins breskt og það gæti nokkurn tíma orðið.

Í þessari bók er söguhetjan afkomandi Breta sem halda úti óformlegu nýlenduveldi í Sjanghæ í Kína með heljartökum sínum á Kínverjum í gegnum verslun með ópíum. Við fáum þó einkum að kynnast söguhetjunnar þegar að hún er komin á fullorðinsár, komin til Englands en búin að sjá á eftir báðum foreldrum sínum eftir að þeir hurfu sporlaust í Kína meðan að hún var enn þá barn. Söguhetjan, einkaspæjarinn Christopher Banks, ákveður að halda aftur austur eftir til þess að leita foreldra sinna en verður að gjalda fyrir barnslega heimssýn sína og rekst á fleiri veggi en hann hafði leyft sér að gera sér í hugarlund að kynnu að leynast á veginum.

Bókinni vex mjög ásmegin eftir því sem líður á. Hún byrjar hægt og fremur stirðlega (næstum leiðinlega, svei mér þá) en síðan fara hjólin að snúast og úr verður fyrirtaks skáldsaga. Helsti kostur bókarinnar er hversu meistaralega Ishiguro tekst að fanga þennan ótrúlega breska heimsveldishroka sem skín úr hugarfari og hegðan allra þeirra Breta, að aðalpersónunni meðtalinni, sem við sögu koma. Auðvelt hefði verið að detta ofan í þann pytt að pússa hornin af þessum einstaklega ógeðfelldu bresku eiginleikum þessa tíma til þess að gera sögupersónurnar, sérstaklega þá kannski aðalpersónuna, sympatískari í augum lesenda en það gerir Ishiguro sem betur fer ekki. Persónulýsingar ríma því vel við það sem maður getur, kannski á hæpnum forsendum þó, haldið fram að séu raunsannar lýsingar á hrokafullum breskum leiðindapúkum á 4. áratug síðustu aldar (sem er mestan part sögutími bókarinnar).

Í heildina bara nokkuð gott allt saman, sem sagt.

7.7.06

Vindens skugga eftir Caros Ruiz Zafon

Ég spyr mig sömu spurningar eftir hlustun á Skugga vindsins og ég gerði þegar að ég þrælaði mér í gegnum hlustun á fyrstu Harry Potter-bókunum tveimur: Hvað í ósköpunum finnst öllum svona merkilegt við þessa lélegu skruddu?!

Skuggi vindsins á það sameiginlegt með Harry Potter að í báðum tilvikum er um að ræða marflatar og klisjukenndar sögur sem eru eins og afrakstur af einhverju dauðhreinsuðu rithöfundanámskeiði þar sem öllum formúlum er jú fylgt en útkoman er jafnandlaus og lyftutónlist.

Kannski er það einmitt þetta sem virkar til þess að ná hylli alls fjöldans og komast í efsta sæti á vinsældalista: Búa til svona bókmenntalegan skyndibita.

Ég hlustaði þó til enda af sömu ástæðu og maður gerir oft þegar að maður er að reyna að komast að því hvað öllum hinum fannst svona stórmerkilegt og frábært við eitthvað sem allir eru að lesa og öllum finnst gott.

Niðurstaðan er hins vegar: Álíka innihaldsrík og Hagkaupsbæklingur. Sem sagt, rusl.