Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.9.04

Pinochet in Piccadilly eftir Andy Beckett

Þeir voru ófáir sem glöddust innilega þegar fréttir bárust af því í október 1998 að Augusto Pinochet, alræmdur fyrrum einræðisherra í Chile, hefði verið handtekinn í London og ætti yfir höfði sér ákæru fyrir glæpi gegn mannkyni. Draumurinn um að Baltasar Garcon, spænski dómarinn og hugsjónamaðurinn, fengi að segja herforingjanum ósvífna til syndanna virtist innan seilingar. Ekkert varð hins vegar úr neinu, Blair-stjórnin guggnaði að lokum á öllu saman og Pinochet var sendur heim eftir að hafa verið í stofufangelsi í tæplega eitt og hálft ár. Ástæðan var bágt heilsufar en um það var að sjálfsögðu deilt enda virtist gamli einræðisherrann furðulega fljótur að ná sér af öllum sínum krankleikum um leið og hann var kominn út úr breskri lofthelgi.

Fyrir skömmu rak á fjörur mínar bókina Pinochet in Piccadilly eftir breska blaðamanninn Andy Beckett. Af bókarlýsingu mátti skilja að í henni væri farið ofan í saumana á forsögu handtökunnar á Pinochet og tengslum hennar við hið mikla samband sem verið hefur á milli Chile og Breska heimsveldisins gegnum aldirnar. Ég hóf því lesturinn spenntur og bjóst við að verða fróðari um alla þá forsögu og málavöxtu sem leiddu að lokum til handtökunnar.

Eftir því sem á bókina leið gerðist ég hins vegar æ langeygari eftir því sem ég var að leita að. Stundum fannst mér ég hreinlega vera að lesa ritgerð eftir óreyndan námsmann sem ekki hefur tamið sér þá kúnst að takmarka umföllun sína við efnið sem liggur til grundvallar. Höfundurinn eyddi þannig miklu púðri og mörgum blaðsíðum í að rekja í þaula hernaðarleiðangra undir stjórn skoskrar þjóðhetju Chilebúa sem frelsaði þá undan Spánverjum á öndverðri 19. öld, viðskiptaveldi Englendings sem sölsaði undir sig verðmætar nítratnámur í Chile í lok 19. aldar og þátttöku Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, í sjálfboðaliðastarfi í Chile á sjöunda áratugnum. Allt saman athyglisvert út af fyrir sig en allt of sjaldan í samhengi við Pinochet, handtökuna eða bara nokkurn skapaðan hlut.

Ég las reyndar þolinmóður áfram og var að vona að allir þessir útúrdúrar myndu renna saman undir lokin og mynda eina heild en ekkert gerðist. Ekki þar með sagt að margt fróðlegt hafi ekki komið fram. Það er til dæmis mjög athyglisvert að lesa um það hversu dyggilega breskir íhaldsmenn hafa ætíð staðið við bakið á Pinochet sínum (ekki síður nú en í stjórnartíð hans) og hvernig þeir reyna að gera lítið úr þeim skelfilegu voðaverkum sem framin voru í stjórnartíð herforingjans.

En eftir sem áður var það aðalatriðið sem vantaði: Handtaka Pinochet og öll sú atburðarás. Aðeins í lok bókarinnar er komið þar að og þá á því hundavaði sem betur hefði átt við þegar raktar voru sjóorrustur við Chilestrandir fyrir tvöhundruð árum eða bresk-chileönsk viðskiptatengsl fyrir hundrað árum. Lítið sem ekkert var talað um aðdraganda ákæranna frá spænska dómaranum Baltasar Garcon, lítið sem ekkert farið yfir það fyrir hvað var ákært og svo mætti áfram telja. Og allt í einu er Pinochet bara laus úr haldi og floginn úr landi og maður er litlu nær.

Útkoman veldur því vonbrigðum. Of lausbundin efnistök og allt of lítið vikið að kjarna málsins. Áhugafólk um gjörðir harðstjórans Pinochet og tilraunir réttsýns fólks til að hafa hendur í hári honum verður því að leita annað eftir betri og hnitmiðaðri heimildum.

(Birtist á Bókmenntavefnum og Sellunni í júní 2003)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home