Uppgjör við umheiminn eftir Val Ingimundarson
Það er allt of fátítt að út komi bækur þar sem kafað er ofan í einstaka þætti íslenskrar stjórnmálasögu síðari ára út frá fræðilegu sjónarmiði. Það fáa sem fram kemur af þessu fræðilega efni er því eðlilega afar kærkomið.
Það á til dæmis við um rannsóknir Vals Ingimundarsonar sagnfræðings sem komu út í tveimur ritum 1996 og 2001 og fjalla um samskipti Íslands annars vegar og Bandaríkjanna og NATO hins vegar á árunum frá 1945-1974. Síðari bókin er sú sem hér er til umfjöllunar. Hún nefnist Uppgjör við umheiminn. Samskipti Íslands, Bandaríkjanna og NATO 1960-1974. Íslensk þjóðernishyggja, vestrænt samstarf og landhelgisdeilan og í henni er haldið áfram þar sem frá var horfið með fyrri bókinni.
Óhætt er að segja að Valur hafi víða leitað fanga til að varpa eins skýru ljósi og honum er unnt á hið afmarkaða tímabil í Uppgjöri við umheiminn. Þar er honum sýnilega mestur fengur í nýlega opinberuðum gögnum frá sögutímanum, einkum úr bandarískum skjalasöfnum. Í þeim rekja þarlendir embættismenn, einkum sendiherrar Bandaríkjanna á Íslandi, samskipti þjóðanna og hina pólitísku stöðu hverju sinni. Gögnin sýna fram á allt baktjaldamakkið sem iðulega lá að baki mörgum ákvarðananna og hversu mikilvægt það var valdhöfum að láta allt falla vel að almenningsálitinu.
Átökin bak við tjöldin verða sérstaklega áberandi á tímabili vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971-74. Í bandarískum skjölum (og raunar víðar) frá þeim tíma kristallast sú togstreita sem varð þegar að aðilar innan stjórnarinnar reyndu að koma sér hjá því í lengstu lög að fara eftir róttækum grundvallaratriðum stjórnarsáttmálans og vinna jafnvel gegn ákvæðum hans. Þessi róttæku grundvallaratriði voru þau helst að færa landhelgina út í fimmtíu mílur og að vinna að brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu.
Vandamálið við ákvæðið um brottför varnarliðsins var það að hugur fylgdi alls ekki máli hjá Framsóknarmönnum í stjórninni, auk þess sem sumir fulltrúar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna áttu eftir að hvika þegar að á reyndi. Framsóknarmaðurinn Einar Ágústsson utanríkisráðherra vann gegn stefnu stjórnarinnar í varnarmálum frá fyrsta degi sínum í embætti í góðri samvinnu við Bandaríkjamenn. Sama sinnis var Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra. Þeir léku þessum tveimur skjöldum til að reyna að sætta allar raddir, ekki aðeins meðal ólíkra afla innan ríkisstjórnarinnar heldur ekki síður innan Framsóknarflokksins sjálfs sem var á barmi klofnings, einkum vegna afstöðunnar til varna Íslands.
Í allri þessari flóknu atburðarás verður hamagangurinn á bak við tjöldin oft svo mikill og ráðabruggið þvílíkt að stundum er engu er líkara en að lesandinn sé með vel plottaðan reyfara í höndunum en ekki lýsingu á stjórnmálaástandinu á Íslandi á öndverðum áttunda áratugnum. Uppgjör við umheiminn er því ekki bara vandað og upplýsandi fræðirit heldur einnig hörkuspennandi lesning.
Í niðurstöðum bókarinnar veltir Valur síðan ýmsum spurningum og kenningum fyrir sér út frá efni bókarinnar. Ýmislegt er þar athyglisvert. Þar má nefna þá fullyrðingu hans að þorskastríðin milli Íslendinga og Breta á áttunda áratugnum afsanni þá margfrægu kenningu að lýðræðisþjóðir lendi ekki í stríðsátökum sín á milli. Nokkrir hafa gagnrýnt þessa túlkun Vals. Þeir segja að þorskastríðin styðji þvert á móti við bakið á kenningunni um friðsamleg samskipti lýðræðisþjóða þar sem Bretar hefðu beytt nauðsynlegum hernaðarlegum þunga og unnið fullnaðarsigur á örskömmum tíma ef um raunveruleg stríðsátök hefði verið að ræða.
Þessi viðhorf fá byr undir báða vængi þegar litið er til rannsókna sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur leggur nú stund á og fjallað var um í Morgunblaðsgrein fyrir skömmu. Þar byggir Guðni á nýlega opinberuðum breskum skjölum frá tímum þorskastríðanna á áttunda áratugnum. Í þeim koma m.a. fram tillögur breska sjóhersins og varnarmálaráðuneytisins um að beita fullri hörku á Íslandsmiðum með skjótan og öruggan sigur að markmiði.
Mótbárur úr öðrum áttum, einkum úr breska utanríkisráðuneytinu, vógu hins vegar þyngra. Þar á bæ var bent á að halda yrði átökum í skefjum til að stefna aðild Íslands að NATO og varnarsamningi þess við Bandaríkin ekki í voða. Það verður því ekki annað séð en að Bretum hafi verið nokkuð í mun að fara gætilegar að samstarfsþjóð sinni en til dæmis einræðisríkinu Argentínu nokkrum árum síðar í Falklandseyjastríðinu.
Svona vangaveltur vakna eðlilega til hér og þar við lestur ítarlegrar og gaumgæfðrar krufningar Vals. Enda má segja að jafnvel æskilegra sé að niðurstöður rannsókna veki upp áleitnar spurningar en að þær myndist við að veita endanleg svör. Umfjöllunin um eitt stormasamasta tímabil íslenskrar stjórnmálasögu er því vitanlega ekki til lykta leidd í Uppgjöri við umheiminn.
(Birtist á Sellunni og á Bókmenntavefnum í apríl 2003)
Það á til dæmis við um rannsóknir Vals Ingimundarsonar sagnfræðings sem komu út í tveimur ritum 1996 og 2001 og fjalla um samskipti Íslands annars vegar og Bandaríkjanna og NATO hins vegar á árunum frá 1945-1974. Síðari bókin er sú sem hér er til umfjöllunar. Hún nefnist Uppgjör við umheiminn. Samskipti Íslands, Bandaríkjanna og NATO 1960-1974. Íslensk þjóðernishyggja, vestrænt samstarf og landhelgisdeilan og í henni er haldið áfram þar sem frá var horfið með fyrri bókinni.
Óhætt er að segja að Valur hafi víða leitað fanga til að varpa eins skýru ljósi og honum er unnt á hið afmarkaða tímabil í Uppgjöri við umheiminn. Þar er honum sýnilega mestur fengur í nýlega opinberuðum gögnum frá sögutímanum, einkum úr bandarískum skjalasöfnum. Í þeim rekja þarlendir embættismenn, einkum sendiherrar Bandaríkjanna á Íslandi, samskipti þjóðanna og hina pólitísku stöðu hverju sinni. Gögnin sýna fram á allt baktjaldamakkið sem iðulega lá að baki mörgum ákvarðananna og hversu mikilvægt það var valdhöfum að láta allt falla vel að almenningsálitinu.
Átökin bak við tjöldin verða sérstaklega áberandi á tímabili vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971-74. Í bandarískum skjölum (og raunar víðar) frá þeim tíma kristallast sú togstreita sem varð þegar að aðilar innan stjórnarinnar reyndu að koma sér hjá því í lengstu lög að fara eftir róttækum grundvallaratriðum stjórnarsáttmálans og vinna jafnvel gegn ákvæðum hans. Þessi róttæku grundvallaratriði voru þau helst að færa landhelgina út í fimmtíu mílur og að vinna að brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu.
Vandamálið við ákvæðið um brottför varnarliðsins var það að hugur fylgdi alls ekki máli hjá Framsóknarmönnum í stjórninni, auk þess sem sumir fulltrúar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna áttu eftir að hvika þegar að á reyndi. Framsóknarmaðurinn Einar Ágústsson utanríkisráðherra vann gegn stefnu stjórnarinnar í varnarmálum frá fyrsta degi sínum í embætti í góðri samvinnu við Bandaríkjamenn. Sama sinnis var Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra. Þeir léku þessum tveimur skjöldum til að reyna að sætta allar raddir, ekki aðeins meðal ólíkra afla innan ríkisstjórnarinnar heldur ekki síður innan Framsóknarflokksins sjálfs sem var á barmi klofnings, einkum vegna afstöðunnar til varna Íslands.
Í allri þessari flóknu atburðarás verður hamagangurinn á bak við tjöldin oft svo mikill og ráðabruggið þvílíkt að stundum er engu er líkara en að lesandinn sé með vel plottaðan reyfara í höndunum en ekki lýsingu á stjórnmálaástandinu á Íslandi á öndverðum áttunda áratugnum. Uppgjör við umheiminn er því ekki bara vandað og upplýsandi fræðirit heldur einnig hörkuspennandi lesning.
Í niðurstöðum bókarinnar veltir Valur síðan ýmsum spurningum og kenningum fyrir sér út frá efni bókarinnar. Ýmislegt er þar athyglisvert. Þar má nefna þá fullyrðingu hans að þorskastríðin milli Íslendinga og Breta á áttunda áratugnum afsanni þá margfrægu kenningu að lýðræðisþjóðir lendi ekki í stríðsátökum sín á milli. Nokkrir hafa gagnrýnt þessa túlkun Vals. Þeir segja að þorskastríðin styðji þvert á móti við bakið á kenningunni um friðsamleg samskipti lýðræðisþjóða þar sem Bretar hefðu beytt nauðsynlegum hernaðarlegum þunga og unnið fullnaðarsigur á örskömmum tíma ef um raunveruleg stríðsátök hefði verið að ræða.
Þessi viðhorf fá byr undir báða vængi þegar litið er til rannsókna sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur leggur nú stund á og fjallað var um í Morgunblaðsgrein fyrir skömmu. Þar byggir Guðni á nýlega opinberuðum breskum skjölum frá tímum þorskastríðanna á áttunda áratugnum. Í þeim koma m.a. fram tillögur breska sjóhersins og varnarmálaráðuneytisins um að beita fullri hörku á Íslandsmiðum með skjótan og öruggan sigur að markmiði.
Mótbárur úr öðrum áttum, einkum úr breska utanríkisráðuneytinu, vógu hins vegar þyngra. Þar á bæ var bent á að halda yrði átökum í skefjum til að stefna aðild Íslands að NATO og varnarsamningi þess við Bandaríkin ekki í voða. Það verður því ekki annað séð en að Bretum hafi verið nokkuð í mun að fara gætilegar að samstarfsþjóð sinni en til dæmis einræðisríkinu Argentínu nokkrum árum síðar í Falklandseyjastríðinu.
Svona vangaveltur vakna eðlilega til hér og þar við lestur ítarlegrar og gaumgæfðrar krufningar Vals. Enda má segja að jafnvel æskilegra sé að niðurstöður rannsókna veki upp áleitnar spurningar en að þær myndist við að veita endanleg svör. Umfjöllunin um eitt stormasamasta tímabil íslenskrar stjórnmálasögu er því vitanlega ekki til lykta leidd í Uppgjöri við umheiminn.
(Birtist á Sellunni og á Bókmenntavefnum í apríl 2003)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home