Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.9.04

Portnoys Complaint eftir Philip Roth

Sjálfsagt hafa fáir bandarískir rithöfundar hreyft meira við teprulegum löndum sínum en hinn aldni Philip Roth. Hann hefur verið iðinn við að hneyksla fólk allt frá því að hann sendi frá sér sína fyrstu bók Goodbye, Columbus 1959. Reyndar má segja að gagnrýnin þá hafi einkum komið úr hans eigin ranni. Gyðingar voru nefnilega margir hverjir vægast sagt lítt hrifnir af myndinni sem Roth, trúbróðir þeirra, dró upp af gyðingdómnum og samfélagi gyðinga í Bandaríkjunum.

En Roth lét svo sannarlega ekki segjast og stórjók skothríðina á „fólkið sitt” og þeirra gildi eftir því sem árin liðu. Fyrir mörgum nær þessi hvassa gagnrýni sjálfsagt hámarki í umtöluðustu bók Roths Portnoys Complaint sem kom út 1969. Þar má segja að hann fái eina alls herjar útrás þegar hann sprengir utan af sér hin íhaldssömu og þvingandi gildi gyðingdómsins. Útkoman er heljarinnar mikil einræða Alexanders Portnoys, aðalsögupersónunnar. Það veður á Portnoy, hann lætur allt flakka og er sérstaklega upptekinn af því sem litið var hornauga en kraumaði samt undir niðri í uppvexti hans.

Kynhvötin og allt sem henni tengist er sérstaklega fyrirferðarmikil í allri frásögninni þar sem Roth deilir á hræsnina og tvöfeldnina í hinu „púritanska” bandaríska samfélagi þar sem ofuráhersla á siðavendni borgaranna brýst út í hömluleysi undir niðri. Aðdáendur kvikmyndaleikstjórans Woody Allen munu sjá eitt og annað sameiginlegt með verkum þeirra Roths enda eru viðbrögð við hinum íhaldssömu gildum Gyðingdómsins sem haldið var að þeim í æsku áberandi leiðarstef í verkum beggja.

Lesendur nútímans fjargviðrast varla jafnmikið yfir klúrum lýsingunum og orðbragðinu og þeir gerðu þegar bókin kom út enda hefur margt þokast í frjálsræðisátt síðan. Eftir stendur hins vegar vitundarflæðið allt saman hjá Alexander Portnoy sem kannski má að einhverju leyti líkja við þeysireiðir Hlyns Bjarnar í 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason.

Aðeins ein bók eftir Philip Roth hefur verið þýdd á íslensku. Það er fyrrnefnd Goodbye, Columbus sem Rúnar Helgi Vignisson þýddi og nefndi Vertu sæll, Kólumbus. Þýðingunni fylgir prýðisgóður eftirmáli Rúnars Helga um höfundinn og verk hans.

(Birtist á Bókmenntavefnum í september 2002)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home