Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.9.04

Vaknað í Brussel eftir Betu

Það afreka ekki margar bækur það að hleypa af stað hatrömmum deilum áður en þær koma út. Það tókst nú samt bók Elísabetar Ólafsdóttur (Betu rokk), Vaknað í Brussel. Deiluefnið er gamalkunnt; sjónarmið markaðslögmálanna gegn hinum listrænu gildum. Bilið milli markaðarins og listarinnar eru hins vegar yfirleitt frekar illgreinanleg. Flestir þeir sem gera út á markaðinn í sköpun sinni hljóta að hafa nokkurn listrænan metnað. Að sama skapi vilja þeir sem hafa listina yfir og allt um kring væntanlega líka að verk þeirra veki athygli og breiðist út (þó þeim þyki kannski fínt að halda öðru fram).

Það má auðvitað teygja það og toga hve markaðssjónarmið réðu miklu þegar forleggjarinn Kristján B. Jónasson ákvað að veðja á hina óreyndu Elísabetu í stað einhverra virtari og eldri höfunda. Sjálfsagt hafa þau ráðið þó nokkru enda hefur hann dæmin fyrir sér sem hálfgerður guðfaðir skáldsögunnar Dís sem þrjár stelpur skrifuðu saman sumarið 2000. Þeirri bók var frábærlega tekið; mikill fjöldi Íslendinga skemmti sér konunglega yfir henni, háar upphæðir voru greiddar fyrir útgáfuréttinn erlendis og kvikmyndun á sögunni er í burðarliðnum.

Vaknað í Brussel er að vissu leyti í sama anda og er allt eins líkleg til að ganga í augun á ungum íslenskum lesendum og útlendir bókaútgefendur hljóta eins að gefa bók gaum sem fjallar einmitt um það sem er svo flott og töff við Ísland – íslenska djammara og Björk.

Um bókina sjálfa má það segja að þar er dregin upp svo gott sem dagsönn mynd af lífi og viðhorfi ungra og skemmtanaglaðra Íslendinga. Höfundur þarf ekki að setja sig í stellingar og reyna að "ná til unga fólksins" með ótruverðugum og ýktum persónulýsingum og tilbúningi á einhverju "ýkt"-unglingamáli sem enginn kannast við. Málfarið er þess í stað það sem ungu fólki er eðlilegt og tamt án þess að á því sé vakin sérstök athygli (engar tilgerðarlegar neðanmálsgreinar með skýringum fylgja, eins og í Dís).

Vaknað í Brussel er ekkert stórvirki í íslenskri bókmenntasögu. Hún er bara það sem hún gefur sig út fyrir að vera – lífleg skemmtisaga um unga og óráðna djammara. Svo er bara að sjá hvort að hinn naski útgefandi Kristján B. Jónasson heldur áfram að unga út ungum og frískum pennum næstu árin.

(Birtist á Bókmenntavefnum í desember 2002)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home