Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

10.10.04

Jón Sigurðsson (fyrra bindi) eftir Guðjón Friðriksson

Alltaf jafn nördalega gaman að renna í gegnum aðgengilega og áhugaverða ævisögu. Áður hafði ég lesið allar þrjár Einars Ben. bækurnar hans Guðjóns Friðrikssonar og fyrstu Jónasar frá Hriflu bókina. Og nú er ég sem sagt búinn að skella aftur fyrra bindinu af Jóni Sigurðs. Af þessum þremur flokkum held ég nú að Einar Ben. hafi vinninginn enda töluvert litríkari og skemmtilegri karakter en hinir tveir sem eru oftar en ekki lítið annað en þurrpumpulegir vinnuþjarkar og þrasarar.

Guðjón Friðriksson hefur ákveðið að fara ákveðna leið með ævisögum sínum með því að skreyta frásögnina með ýmsu svona sem gæti hafa gerst en gerðist ekkert endilega. Yfirleitt eru þessar ,,gæti hafa gerst"-skreytingar ekki þannig að þær hafi áhrif á staðreyndir sem fyrir liggja, oftast bara svona: ,,Jón Sigurðsson labbaði út í bakarí og fékk sér sætabrauð" eða eitthvað svona sem skiptir engu höfuðmáli og ekkert gerir til þó að Jóni Sigurðssyni hafi í raun aldrei keypt sér sætabrauð (enda nískupúki).

Svona söguaðferð er þó vandmeðfarin og mér fannst Guðjón vera öruggari með hana í sögunum um Einar Ben. og Jónas frá Hriflu enda fleiri heimildir til frá þeim tíma og því betra að samsama þær frásögninni og vera þannig með vissara bakland. Í Jóni Sigurðs finnst mér Guðjón hins vegar oft vera kominn út á hálan ís og jafnvel á stöku stað draga upp skáldaðar myndir af mönnum og atvikum sem ekki er að sjá að eigi sér neina stoð í fyrirlyggjandi heimildum. Stundum er verndarhendin yfir helgimyndinni Jóni Sigurðssyni til dæmis einum og umlykjandi þegar því er haldið fram að Jón hafi örugglega ekki staðið með þessu eða hinu ranglætinu og svo framvegis.

En annars er þetta skemmtileg og auðlesin bók og sjálfsagt rennir maður sér í síðara bindið einhvern tíma þegar að tóm gefst til. Samt, eins og áður segir, ekki það besta sem frá Guðjóni hefur komið þó að nokkuð gott sé.