Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

14.12.06

Útgönguleiðir eftir Steinar Braga

Sigurður Pálsson sagði í útvarpsviðtali sem ég heyrði um daginn að lestur bóka væri á vissan hátt eins og spilun á gömlum vínilplötum. Spennusögur lesi maður á 78 snúninga hraða, skáldsögur á 45 snúningum og ljóð loks á 33 snúninga hraða. Séu ljóð lesin á meiri hraða en þetta þá fari upplifunin fyrir lítið. Mér fannst þetta nokkuð vel mælt hjá nafna mínum Pálssyni.

Ég var nefnilega að klára Útgönguleiðir Steinars Braga og ég hef það á tilfinningunni að ég hafi stillt lesturinn á of mikinn hraða og helst þyrfti ég sjálfsagt að lesa bókina aftur enda ,,kallar hún á dýpri lestur" eins og voðalega flott er að segja á bókmenntafræðísku. Ég á þó sjálfsagt ekki eftir að lesa hana aftur vegna þess að ég er latur við svona ,,djúplestur" einhvern.

Get þó sagt það að Útgönguleiðir er flott safn sitúasjóna, eða atvika. Hryllingurinn og ógeðið er alltumlykjandi þannig að mælt er með því að bókin sé lesin utan matmálstíma.

Þetta er fyrsta bókin sem ég renni mér í gegnum eftir Steinar Braga. Það er skömm að því, auðvitað, og úr því verður að bæta sem fyrst. Kannski maður reyna að verða sér út um spæjarabókina hans núna í jólafríinu heima.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home