Travels with Charley eftir John Steinbeck
Í tilefni útkomu reisubókar þeirra Einars og Ólafs er því ekki úr vegi að rifja einmitt upp ferðasögu sem lýsir ferðalagi sjálfs Johns Steinbeck um þetta sama víðfeðma land haustið 1960. Sú saga kom út á bók 1962, sama ár og Steinbeck var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum, og heitir því alþýðlega nafni Travels with Charley.
Árið 1960 fannst John Steinbeck hann standa á einhvers konar tímamótum. Hann hafði varið miklum tíma áratuginn á undan fjarri heimalandi sínu, einkum í Frakklandi eða Englandi. Líkamshreystin, sem fram að því hafði verið honum óbrigðul, var einnig farin að minnka (hann hafði lent í fáeinum tilvikum vægra hjartaáfalla). Hvort tveggja varð þetta til þess að Steinbeck fannst nauðsynlegt að taka sjálfan sig tökum. Honum fannst öll fjarveran frá heimalandi sínu, og ef til vill aldurinn líka, vera farin að gera það að verkum að hann væri farinn að fjarlægjast þessa þjóð sína sem hann eitt sinn hafði haft svo meistaraleg tök á að skrifa um.
Hann ákvað því að leggja upp í heljarinnar ferðalag, svo til hringinn í kringum Bandaríkin, haustið 1960. Til ferðalagsins lét hann sérsmíða húsbíl sem hann gaf nafnið Rocinante, eftir reiðskjóti Don Kíkóta, og síðan fékk púddl-hundurinn Charley það hlutverk að vera húsbónda sínum félagsskapur á hringferðinni miklu. Fyrir utan þá félaga Rocinante og Charley lagði Steinbeck hins vegar aleinn í hann.
Ferðin hófst frá heimili Steinbecks í New York, þaðan var haldið norður eftir austurströndinni upp til Maine og þaðan um það bil vestur í átt. Hann kom við í Chicago, Fargo, í Wisconsin-fylki og á fleiri stöðum á leið sinni upp að vesturströndinni. Undir lok bókarinnar segir Steinbeck frá því að ferðinni geti hann líkt við það að setjast að matarborði sem sé að svigna undan miklum krásum; í upphafi hámar maður allt í sig en þegar að á líður og magamálið fer að verða af skornum skammti þá reyni maður frekar að velja og hafna og stingi aðeins upp í sig kræsilegustu bitunum. Þannig segir hann að honum hafi liðið þegar komið var upp að vesturströndinni. Fram að því hafði hann stoppað víða og reynt að fræðast um allt sem fyrir augu bar en á seinni hluta reisunnar fann hann að úthaldið var ekki endalaust og því ákvað hann að fara hraðar yfir suðvestrið og alla leiðina til baka aftur heim til sín. Hann áði því bara á útvöldum stöðum frá vestri til austurs og staldrar einna helst við dvöl sína í Texas og Louisiana þar sem að mikil ólga ríkti um þessar mundir og kom hún talsverðu róti á huga Steinbecks. Meira um það síðar.
Ferðalagið er farið í upphafi mikilla umbrotatíma í bandarísku samfélagi og sú deigla sem er við það að fara í gang skín vel í gegn í þjóðfélagslýsingum ferðabókarinnar. Sjálfsblekking 6. áratugarins er um það bil að baki, þar sem að hvítir, miðaldra Bandaríkjamenn töldu sig hafa fundið sína paradís í fínu úthverfunum sínum, með konuna við eldavélina, börnin vel greidd og klædd, stóra grillið úti í garði og bensínskrímslið í innkeyrslunni. Stóra stríðið var að baki og ekkert ógnaði nema þá kannski helst Rússagrýlan í austri, svona endrum og eins. Módernisminn virtist hafa sigrað heiminn þar sem tíðin gat ekki orðið neitt annað en betri. Enginn velti sérstaklega fyrir sér stöðu kvenna og ýmissa annarra hópa, svo sem blökkumanna, sem engin völd höfðu í þessari þjóðfélagsskipan og þaðan af síður velti nokkur því fyrir sér að pústið aftan úr bensínskrímslinu í innkeyrslunni hefði eitthvað með framtíðarhorfur plánetunnar að gera.
Það var hins vegar farið að daga upp fyrir einum og einum þegar komið er sögu, haustið 1960, að himnasælan áratuginn á undan hafi ef til vill verið mikið svikalogn. Fyrr var minnst á ólguna sem ríkti í Texas og Louisiana, og raunar mun víðar um Bandaríkin, og þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða réttindabaráttu blökkumanna í ríki sem fram að því að því hafði beinlínis haldi uppi aðskilnaðarstefnu kynþáttanna, sér í lagi í ýmsum ríkjum suðursins. Steinbeck segir frá þeirri djúpu sorg sem grípur hann þegar að hann sjálfur horfir upp á mæður koma skipulega saman í mótmælastöðu fyrir utan skóla í New Orleans dag eftir dag til þess að hrópa ókvæðisorð að þeldökkri stúlku sem átti fólk að sem boðið hafði hefðunum byrginn og sett barn sitt í skóla með hvítum börnum. Svipuðu viðhorfi finnst honum hann verða fyrir allt of oft þegar að fer um þessi svæði þar sem fremur virðist talað um blökkufólk sem aðra og óæðri dýrategund en jafnréttháa meðbræður í samfélaginu.
Fyrir utan hatrið í suðurríkjunum, finnst Steinbeck hann verða fyrir annars konar vonbrigðum með aðra hluta þjóðar sinnar. Þar finnst honum einkenna allt mikill doði og viðhorf sem einkennast af stjórnlausum materíalisma og snúast um það eitt að kaupa og henda því í staðinn sem keypt var í gær. Steinbeck vekur lesendur sína til umhugsunar um umhverfisvána sem af þessu skeytingarleysi hefur hlotist þar sem ruslahaugar hlaðast upp við hver bæjarmörk og ár eru mengaðar með úrgangi. Sumir hafa, vegna þessa, nefnt Steinbeck til sögunnar sem einn fyrsta talsmann umhverfisverndar, stefnu sem ekki fór að láta raunverulega á sér kræla fyrr en fyrst áratug síðar.
Doðinn beinist líka að áhugaleysi fólks á þjóðmálum, að mati Steinbecks. Hann segist hvergi hitta fyrir nokkurn mann sem áhuga hafi á komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir það að þá þegar hafi verið ljóst að sögulegar forsetakosningar voru fyrir dyrum milli Nixons og Kennedys.
Að sama skapi finnst honum flatneskjan vera orðin alltumlykjandi um allt sitt stóra ríki. Alls staðar hafa verið lagðir rennisléttir vegir. Alls staðar er sami verksmiðjuframleiddi og bragðlausi maturinn framreiddur og á sumum stöðum kemur mannshöndin ekki einu sinni við sögu til þess að bera matinn fram því að sjálfsalar hafa sprottið upp á víð og dreif sem selja bæði forrétti, aðalrétti og eftirrétti og útþynnt kaffi þar að auki.
Allt þetta fyllir Steinbeck af blendnum tilfinningum. Í eina röndina finnst honum allt vera orðið eins hjá þjóð sinni en á hinn bóginn finnst honum allt þetta nokkuð framandi. Hann verður því að horfast í augu við þá staðreynd að ferðalagið hefur ef til vill aðeins staðfest þá tilfinningu sem hann hafði áður en lagt var af stað; að þjóð hans sé á einhverri allt annarri og óskiljanlegri vegferð en hann sjálfur.
Þrátt fyrir þetta er Travels with Charley langt í frá að einkennast af bölsýnisrausi eldri manns sem syrgir horfna gullöld. Travels with Charley er hlý og með eindæmum skemmtileg frásögn þar sem lesandinn ferðast bæði um tíma og rúm til víðfeðms lands mikilla náttúrulegra andstæðna og aftur til tíma þar sem að þjóðin í landinu stóra var í þann mund að rumska af þyrnirósarsvefni eftirstríðsáranna og upplifa einn afdrifaríkasta áratug í seinni tíma sögu vestrænnar menningar.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home