Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur
Þá er það verðlaunabókin sjálf. Einhvern veginn kom upp í huga mér sama tilfinning og maður fær þegar maður sofnar yfir vídeóspólu og klárar hana ekki fyrr en daginn eftir rétt áður en maður skilar henni. Svoleiðis myndir njóta einhvern veginn aldrei sannmælis hjá manni því það er fátt meiri múdbreiker en að klára bíómynd degi síðar og það í einhverju hálfgerðu kappi við tímann. Þetta nefni ég af því að ég held að ég hafi látið þessa bók marinerast fullmikið á náttborðinu dögum og vikum saman án þess að hespa henni bara af. Fyrir vikið missti ég einhvern veginn niður stemninguna í bókinni milli lestra.
Mér finnst Fólkið í kjallaranum vera ágæt bók, ekkert meira svo sem og heldur ekkert minna. Á sjálfsagt alveg eins bókaverðlaunin skilið í ár en í betra bókaári er ég ansi hræddur um að hún hefði ekki átt séns. En, eins og ég segi, ágæt engu að síður.
Það sem er vel gert eru einkum persónulýsingar foreldra Klöru og lýsingar á, mér liggur við að segja, pakkinu sem þau hanga með í æsku Klöru (sem nóta bene er aðalpersónan). Auði lukkast vel að sýna hvernig vínsulleríið smám saman deyfir hjá þeim alla dómgreind þangað til þau daga uppi með brjóstumkennanlegar afturgöngur tíma og aldursskeiðs sem löngu eru horfin. Það er reyndar athyglisvert hvað þessi svokallaða '68-kynslóð kemur yfirleitt illa út úr bókmenntum þeirra kynslóða sem á eftir hafa komið. Mér dettur strax í hug að nefna þá Mikael Torfason og Michel Houellebecq, og jú Sölva líka, sem allir hafa kveðið við svipaðan tón og Auður, lýst þessari kynslóð sem hálfgerðum ræflum fullum af hræsni, alltaf svolítið íðí, löngu komin í bullandi mótsögn við öll sín fyrri, fögru gildi en básúna samt enn þá um holt og hóla hversu mikið betri og göfugri kynslóðin var að öllu leyti, bæði í samanburði við þá sem á undan komu og eftir.
Í bók Auðar er þó fremur að greina ákveðna væntumþykju til kynslóðarinnar og kannski örlítið meiri sanngirni en hjá alla vega Houellebecq og Mikael. Kynslóðar sem var jú bara börn síns tíma og hafði vitanlega sitthvað til síns máls og hefur enn og bylti vissulega mörgu sem fyrir var staðnað. Ekki síður þykir mér hin reikula sál Klara vera vel heppnuð persóna hjá Auði, einhvern veginn finnst manni maður alla vega kannast við týpuna úr ýmsum áttum. Síður finnst mér henni hins vegar takast að draga upp mynd af borgaralega fólkinu, þeim Svenna, Elínu og Bogga. Einhvern veginn verður mannlýsingin á þeim afskaplega tvívíð og steríótýpísk og mér liggur við að segja fordómafull.
Fólkið í kjallaranum er samt sem áður að mörgu leyti vel heppnað og innihaldsríkt uppgjör við kynslóð foreldra fólksins sem fætt er á áttunda áratugnum. Eitt besta svar okkar kynslóðar hingað til við ofríki '68-kynslóðarinnar sem síðustu tuttugu ár eða svo hefur verið svotil einrátt í meningarheiminum með sína hugmyndafræði og nostalgísku lífssýn og sína þreytandi Bítla og Stóns og Vogasögur.