Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

12.9.06

Arabíukonur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

Fá álitamál eru eins vandmeðfarin og í augum Vesturlandabúa þessi misserin og staða kvenna í samfélögum Múslima. Erfitt er fyrir þá sem ekki þekkja til af eigin raun að fella dóma um það hvort þær eru kúgaðar af samfélögum sínum eða einfaldlega sáttar við lífið og tilveruna þó að hún kunni að líta öðruvísi út en sú sem við þekkjum hér í Vestrinu.

Það gildir eins og oft áður að þeir sem vita minnst eru oft fljótastir að dæma. Það er lítið mál að skella fram alhæfingum en mun erfiðara hins vegar að taka afstöðu að vel ígrunduðu máli enda vita það flestir sem slíkt leggja í vana sinn að oftar leiðir ein spurning einungis til fleiri spurninga heldur en eins ákveðins svars.

Að þessu komst Jóhanna Kristjónsdóttir þegar að hún fór á stúfana, einu sinni sem oftar, um nokkur Austurlönd nær til þess að viða að sér efni um stöðu og viðhorf kvenna í nokkrum arabískum samfélögum. Afraksturinn er bókin Arabíukonur: Samfundir í fjórum löndum sem Mál og menning sendi frá sér síðla árs 2004 og endurútgaf síðan í kilju ári síðar.

Sjálfsagt eru fáir Íslendingar jafnsjóaðir af ferðum og langdvölum um menningarheim Austurlanda nær og Jóhanna en nánast má ganga svo langt að segja að þessi heimshluti hafi verið hennar annað heimili undanfarna tvo áratugina eða svo. Það er því einkar mikill fengur í því fyrir íslenska lesendur að Jóhanna skuli senda frá sér bók um þetta glóandi álitaefni samtímans sem staða kvenna í samfélögum Múslima er.

Og hver er svo niðurstaðan? Hvaða sannleik getur Jóhanna fært okkur um stöðuna? Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og kannski mátti gera sér í hugarlund, að sannleikurinn er enginn. Vissulega má draga saman ákveðna heildarsýn af viðtölunum og umfjölluninni um þann fjölbreytta hóp kvenna sem verður á vegi Jóhönnu í löndunum fjórum sem hún ákveður að gera skil (Egyptaland, Sýrland, Óman og Jemen). Staðan er heilt á litið ekki góð, ekki á vestrænan mælikvarða í það minnsta. Áhersla á orðspor fjölskyldna, ævagamlar hefðir og valdastrúktúr karlmanna verður þannig víða til þess að viðmælendur höfundar búa ekki við það frelsi og þá hamingju sem þeim þætti æskileg.

Hins vegar er staðan eins misjöfn meðal kvennanna og þær eru margar. Raunar má segja að það sé í þessu tilviki eins og víðar á við að stéttarstaða kvennanna virðist hafa töluvert mikið að segja hvað varðar stöðu þeirra sem kvenna. Þannig eru ómenntaðar konur sem tilheyra fjölskyldum og kreðsum í fátækustu stéttum vanþróuðustu landanna sem farið er til þær sem verst standa. Menntaðar og vel settar konur í betur stæðu löndunum eru hins vegar oft í síst verri stöðu en kynsystur þeirra norður í Evrópu og að sumu leyti er staða þeirra jafnvel sterkari. Aðstæður kvenna eru því fremur bundnar við þjóðfélagsstöðu og þjóðfélagsviðhorf en trúarbrögðin og sömuleiðis fer viðhorf til jafnréttismála nokkuð eftir menntun og stéttarstöðu.

Þar með er komin upp kunnugleg mynd frá Vesturlöndum. Skilningur á kvenfrelsissjónarmiðum og menntunar- og velferðarstig virðist haldast nokkurn veginn í hendur. Og svo það sé ítrekað aftur, þá virðast trúarbrögð koma því fremur lítið við.

Bókin er skemmtileg aflestrar. Það gustar af Jóhönnu í þessari bók. Ekki ætla ég að segja hvað er til dæmis miklu skemmtilegra að lesa frásagnir Jóhönnu þar sem að lífsreynslan litar hverja síðu í stað þess að lesa til dæmis höfunda á borð við Åsne Seierstad sem skortir einhvern veginn allan höfuðstól á bak við það sem þeir eru að skrifa vegna þess að skilningurinn á lífinu er enn þá svo lítill og tök þeirra á fólki enn þá svo fálmkennd. Auk þess skortir þann húmor og þá sjálfsíróníu sem nauðsynleg er. Af slíku er hins vegar blessunarlega nóg hjá Jóhönnu enda ekki við öðru að búast.

Nálgun Jóhönnu er líka vel til fundin. Hún leyfir sér hiklaust að spyrja konurnar hreint út sömu naívu spurninganna og leita á hugi okkar sem minna þekkjum til en hún. Spurninga eins og hvort blæjan sé kúgunartæki og hvort þær sjálfar lifi í kúguðum heimi. Hún veit að stundum hættir hún á að móðga viðmælendurna en Jóhanna hefur slíka nærveru og er slíkur mannþekkjari að konurnar fyrirgefa allar fljótt barnalegu spurningarnar þegar að þær skynja þá virðingu og nærgætni sem undir býr hjá Jóhönnu gagnvart þeim menningarheimi sem hún er að kljást við að skilja, kannski fyrir hönd lesenda bókar sinnar.

Fyrir þetta ber að þakka Jóhönnu Kristjónsdóttur. Niðurstaðan er bók sem varpar ljósi á fjölbreytileikann en freistast sem betur fer ekki til að leita einhverra niðurstaðna eða lokasvara nema bara þeirra að hlutirnir eru gerólíkir í hverju tilviki fyrir sig. Það er lærdómsrík lexía nú á tímum alhæfinga og fordóma í garð margslungins veruleika samfélaga Austurlanda nær.