Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

23.10.06

The Invention of Solitude eftir Paul Auster

Eitt af fyrstu verkum Austers og gott ef ekki fyrsti prósinn hans. Stenst, að mínu mati, ekki því besta sem hann hefur gert snúning. Fyrri hlutinn er helgaður minningum og hugrenningum Austers um nýlátinn föður sinn en í seinni hlutanum fara hlutirnir meira á flot og mörk skáldskapar og veruleika verða óskýr og framvinda flýtur á milli hugrenninga ýmiskonar.

Best að hætta sér ekki mikið lengra í lýsingum á bókinni áður en maður fer út á þann hála ís að fara að slá um sig með bókmenntafræðilegum frösum sem maður ræður ekkert við. Þetta er Auster fyrir lengra komna, bók sem mér fannst ég oft vera of heimskur fyrir. En það er ekkert við því að gera (þ.e. heimsku minni).

14.10.06

Ikonen i fickan eftir Owe Wikström

Tók þessa hljóðbók nú bara svona í bríaríi. Þetta reyndist hin skemmtilegasta hlustun. Höfundurinn er prófessor í trúarbragðafræðum frá Uppsala-háskóla og bókin er uppfull af alls konar exístensíalískum þankagangi höfundar um vegferð manneskjunnar þar sem að leiðarstefið er ferðalög, bæði á hinu ytra borði og hinu innra. Ég hætti mér eiginlega varla út í frekari útlistingar á efni bókarinnar en einhvern veginn varð þetta allt mjög áhugavert og skemmtilegt.

Og ekki orð um það meir.