Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

20.11.06

Goodbye to Berlin eftir Christopher Isherwood

Þrælfín bók í góðum upplestri. Dregur upp mynd af suðupottinum Berlín á árunum í kringum 1930 þegar að allt gat enn gerst í þeirri miklu heimsborg og raunar í Þýskalandi öllu. Það er engin leið að sjá hverjir muni hafa best, kommúnistar, nasistar eða bara sama gamla Weimar-sósjaldemókrasían (Þjóðverjar hefðu betur haldið sig bara við hana).

12.11.06

Lygasaga eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Fátt finnst mér nú leiðinlegra en fyrrverandi alkar að rekja í löngu máli fyrrum drykkjusögu sína í allt of miklum smáatriðum. Fyrir vikið hef ég í gegnum tíðina forðast allar reynslusögur sem komið hafa út á bók þar sem að þurrkaðir alkar segja frá blautri fortíð sinni. Flokka þetta undir einhvers konar sorgar- eða óhamingjuklám þar sem verið er að klæmast á óhamingju fólks og gera hana að hálfgerðri afþreyingu þar sem lögmálið; því svæsnara og hryllilegra því meira spennandi, er í gildi.

Margir hafa haldið því fram að Lygasaga Lindu Vilhjálmsdóttur sé undantekningin frá þessari reglu þar sem að þar segi fær rithöfundur frá eigin drykkjureynslu auk þess sem sagan hennar sé tempruð, írónísk, vel stíluð og laus við alla vorkunn eða dramatíseringar.

Ég ákvað því að láta fordóma mína fyrir alkabókmenntum ekki hindra það að renndi mér í gegnum bók Lindu.

Og satt er það að vissulega gerir Linda þetta margfalt betur heldur en gengur og gerist í þessum mjög svo leiðigjarna bókmenntaflokki. Og margt er flott og margt er mjög gott. En samt sem áður hálfleiddist mér lesturinn. Bókin er nefnilega samt sem áður enn ein játningarsaga þurrkaða alkans þar sem ekkert annað er til umræðu en alkinn sjálfur og alkóhólisminn og svæsnar sögur af gömlum fylleríum. Ég verð því að viðurkenna að ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum enda fannst mér Lindu ekki takast nógu vel að hefja sig yfir hinar hefðbundnu leiðigjörnu alkasögur.

Lygasaga er því ekki nema rétt sæmileg, þegar að á heildina er litið.

8.11.06

Khader.dk eftir Naser Khader

Sjálfsævisaga en um leið pólitískt testamenti þessarar einnar helstu vonarstjörnu danskra stjórnmála í dag. Khader situr á þingi fyrir Radikale venstre-flokkinn, er sýrlenskur að uppruna en hefur búið hér frá barnsaldri.

Sagan segir sögu hans sem innflytjanda og í leiðinni kemur hann á framfæri sínum skoðunum um danska pólitík, einkum innflytjendamál.

Athyglisverð bók um margt þó að mér finnist Khader vera kannski full uppfullur af sjálfum sér. Stjórnmálamenn hafa nú reyndar ekki verið mjög frægir fyrir hógværð eða lítillæti þannig að kannski hann skeri sig ekkert úr.

Mest fór í taugarnar á mér við lesturinn hversu miklum tíma hann eyddi í að ráðast á vinstri menn og áherslur þeirra í innflytjendamálum sem honum fannst naívar og þess vegna kallaði hann vinstri menn "Halal-hippa" út alla bókina. Svona uppnefningar eru pirrandi og hafa ekkert með málefnalega umræðu að gera, auk þess sem mér finnst þær gera lítið úr þeim hópi fólks sem þó leggur á sig að kynna sér málin og komast að lausnum sem einkennast af skilningi og yfirvegun.

Annars ágætis bók.

Imperial Ambitions eftir David Barsamian og Noam Chomsky

Viðtalsbók útvarpsmannsins Barsamians við Chomsky þar sem farið er um víðan völl og tæpt á hinu og þessu. Í heildina nokkuð skemmtileg lesning þar sem að Chomsky sýnir, eins og búast mátti við, nokkuð aðra hlið á hinu góða heimsveldi Bandaríkjanna. Margt athyglisvert kemur fram, t.d. hvernig USA, hylmir yfir hryðjuverkamenn og er þar með, skv. boðorðum Bush ,,against us" (þið munið: ,Either you are with us, or against us..."). Chomsky er auðvitað fjandanum klárari og minnugri og snjallari við að tengja ólík tímabil og ólíka hluti saman á sannfærandi hátt.

Gallinn við málflutning Chomskys er kannski sá sami og oft verður hjá réttlætissinnuðum vinstri mönnum sem kannski hafa verið aðeins og uppteknir við að grafa upp ljóta hluti árum saman. Þeir öðlast fyrir vikið það sem á ensku kallast ,,selective memory" og muna bara eftir því ljóta og verða fyrir vikið svolítið sinikal svona og halda að allt sem allir gera stafi alltaf af illum hvötum. Annar galli Chomskys, sem líka skrifast á marga yst á hægri vængnum, er að gera minna úr illvirkjum annarra en þeirra sem mest völd hafa og að taka afstöðu með nánast öllum sem eru óvinir USA. Verður að einhvers konar: Óvinur óvinar míns er vinur minn. Til dæmis er erfitt að taka til sín það sem hann segir um loftárásir NATO á Kosovo 1999. Þar gerir hann lítið úr glæpum Milosevic og Serbanna og það er ljótt að heyra enda stóð Milosevic í þjóðernishreisnunum.


En um margt athyglisverð lesning. Ekki nenni ég þó að leggjast í pólitískar rullur eftir Chomsky sjálfan.