Viðtalsbók útvarpsmannsins Barsamians við Chomsky þar sem farið er um víðan völl og tæpt á hinu og þessu. Í heildina nokkuð skemmtileg lesning þar sem að Chomsky sýnir, eins og búast mátti við, nokkuð aðra hlið á hinu góða heimsveldi Bandaríkjanna. Margt athyglisvert kemur fram, t.d. hvernig USA, hylmir yfir hryðjuverkamenn og er þar með, skv. boðorðum Bush ,,against us" (þið munið: ,Either you are with us, or against us..."). Chomsky er auðvitað fjandanum klárari og minnugri og snjallari við að tengja ólík tímabil og ólíka hluti saman á sannfærandi hátt.
Gallinn við málflutning Chomskys er kannski sá sami og oft verður hjá réttlætissinnuðum vinstri mönnum sem kannski hafa verið aðeins og uppteknir við að grafa upp ljóta hluti árum saman. Þeir öðlast fyrir vikið það sem á ensku kallast ,,selective memory" og muna bara eftir því ljóta og verða fyrir vikið svolítið sinikal svona og halda að allt sem allir gera stafi alltaf af illum hvötum. Annar galli Chomskys, sem líka skrifast á marga yst á hægri vængnum, er að gera minna úr illvirkjum annarra en þeirra sem mest völd hafa og að taka afstöðu með nánast öllum sem eru óvinir USA. Verður að einhvers konar: Óvinur óvinar míns er vinur minn. Til dæmis er erfitt að taka til sín það sem hann segir um loftárásir NATO á Kosovo 1999. Þar gerir hann lítið úr glæpum Milosevic og Serbanna og það er ljótt að heyra enda stóð Milosevic í þjóðernishreisnunum.
En um margt athyglisverð lesning. Ekki nenni ég þó að leggjast í pólitískar rullur eftir Chomsky sjálfan.