Valdatafl í Valhöll eftir Anders Hansen og Hrein Loftsson
Hversu margir ætli séu með hugann núna í sumarbyrjun við klofning sjálfstæðismanna í gunnars- og geirsmenn sem að lokum leiddi til lokauppgjörs hópanna tveggja í frægri stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens snemma árs 1980? Vonandi fáir. Það er þó spennandi að rifja þessa atburði upp og til þess gefst manni gott tækifæri með lestri bókarinnar Valdatafl í Valhöll sem út kom á haustmánuðum þetta örlagaríka ár 1980.
Höfundarnir Anders Hansen og Hreinn Loftsson, þá ungir blaðamenn og innanbúðarmenn í Sjálfstæðisflokknum, hafa þarna gefið sér nokkra mánuði til þess að rifja upp deilur þessara tveggja meginfylkinga innan Sjálfstæðisflokksins og komast að rótum þeirra áratugi aftur í tímann.
Á kápu er bókin sögð vönduð og hún lofuð fyrir ítrasta hlutleysi. Að báðu má þó finna. Víða sér þess stað í þessari bók að hún er unnin í miklu hendingskasti og eins fer það ekki á milli mála að höfundar hennar eru ungir sjálfstæðismenn sem yfirleitt finnst mun meira til þess koma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áorkað en aðrir flokkar. Þá ætla ég að leyfa mér að setja fram þá ágiskun að höfundarnir hafi báðir staðið geirsmegin í átökum flokksfylkinganna. Hef svo sem ekki annað fyrir mér í því en að þykja tónninn vera svona yfirleitt Geir í hag fremur en Gunnari. Kannski ég hafi þó hrapallega rangt fyrir mér og þeir hafi báðir verið alveg hreint stækir gunnarsmenn. Hver veit?
Þrátt fyrir að nokkur hroðvirkni einkenni bókina hér og þar er þó ekki þar með sagt að ekki sé um mjög athyglisverða lesningu að ræða. Deilur gunnars- og geirsarma flokksins eru raktar allt aftur til forsetakosninganna 1952 þegar að Gunnar reis upp gegn flokksmaskínunni og studdi Ásgeir Ásgeirsson tengdaföður sinn í slag um forsetaembættið við Sr. Bjarna Jónsson, þann frambjóðanda sem sjálfstæðismönnum „bar skylda til“ að kjósa. Þá strax lenti Gunnar upp á kant við marga samflokksmenn sína sem aldrei fyrirgáfu honum undanhlaupið, jafnvel þó að áratugir liðu.
Allt frá þessari stundu má segja að Gunnar og hans stuðningsfólk innan flokksins sé í eins konar uppreisnarhlutverki gegn flokksforystunni. Gunnar leikur þannig aftur einleik þegar að hann krefst sendiherrastöðu í Kaupmannahöfn 1965 og heldur þangað til þess að undirbúa forsetaframboð sitt 1968. Þetta olli miklu uppnámi innan flokks en Gunnar fékk þó á endanum sitt í gegn.
Forsetaframboð Gunnars vakti blendnar tilfinningar hjá sjálfstæðismönnum. Þrátt fyrir að flokksblöðin Morgunblaðið og Vísir lýstu að lokum stuðningi yfir framboð hans, sem og flokkurinn sem slíkur, þá var langt í frá að Gunnar ætti stuðning þorra sjálfstæðismanna vísan. Sumum voru enn í fersku minni „svik“ hans við flokkinn frá því í forsetakosningunum 1952 en öðrum leist einfaldlega betur á aðalkeppinaut hans, dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, jafnvel þó að sá væri stimplaður sem fulltrúi vinstri aflanna í kosningunum. Svo fór að Gunnar beið lægri hlut.
Hann var þó ekki af baki dottinn og allan áttunda áratuginn gerði hann, ásamt stuðningsfólki sínu, síendurteknar tilraunir til þess að ná völdum innan flokksins og var sitjandi valdhöfum að flestu leyti óþægur ljár í þúfu. Á endanum varð hann þó undir í slagnum um leiðtogastöðuna við Geir Hallgrímsson en náði samt að komast í embætti varaformanns sem mörgum fannst vel af sér vikið enda höfðu margir þá verið búnir að margafskrifa stjórnmálaferil Gunnars Thoroddsen enda var hann, fyrir utan sín fjölmörgu hliðarskref frá stjórnmálastörfum á undanförnum árum, farinn að reskjast þegar þarna var komið sögu.
Þrátt fyrir að flestum væri ljóst þegar að síga tók að lokum áttunda áratugarins að nánast óbærileg spenna ríkti í samskiptum formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins kom hún þó ekki endanlega upp á yfirborðið fyrr en í stjórnarkreppunni miklu sem ríkti í kjölfar desemberkosninga til Alþingis 1979. Að loknu tveggja mánaða þófi ákvað Gunnar að leika enn einn einleikinn og fór, í trássi við vilja Sjálfstæðisflokksins, upp á sitt einsdæmi í stjórnarmyndunarviðræður við forystumenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks.
Á þeirri stundu má segja að allt hafi að lokum sprungið innan Sjálfstæðisflokksins og bæði flokkurinn sjálfur og málgögn hans sáu enga ástæðu lengur til þess að dylja þann mikla klofning sem þarna komst loks upp á yfirborðið af fullum krafti. Skýr afstaða var tekin gegn Gunnari Thoroddsen en það breytti því þó ekki að Gunnar náði, með stuðningi þriggja úr þingliði sjálfstæðismanna og loforði um vörn gegn vantrausti frá þeim fjórða, að mynda ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokknum og verða sjálfur forsætisráðherra.
Bókinni lýkur á fundi flokksráðs Sjálfstæðismanna þegar ljóst er að Gunnar hyggst gera alvöru úr stjórnarmyndun sinni. Allt er í háaloft og flestir virðast sammála um að fordæma gjörning Gunnars og félaga hans. Við skrif bókarinnar, seinna sama ár, ríkir enn sami djúpi klofningurinn innan Sjálfstæðisflokksins og ekki er ofmælt að segja að allt virðist í uppnámi innan stærsta stjórnmálaflokks landsins. Flokkurinn hafði fram að þessu litið á sjálfan sig sem burðarás íslenskra stjórnmála en var nú lítið annað en klofið spýtnabrak sem litla stjórn virtist hafa á rás atburða í eigin ranni.
Ég er ekki nógu gamall til þess að vita hvað síðan gerðist nákvæmlega en þó er ljóst að það tók flokkinn í það minnsta heilan áratug að jafna sig á þessari innanborðsúlfúð. Í því sambandi má nefna klofningsframboð Alberts Guðmundssonar (sem hallur var undir gunnarsarminn) 1987 með tilkomu Borgaraflokksins í alþingiskosningum það ár þar sem Albert náði að stela svo miklu fylgi af fyrrum flokksfélögum sínum að Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að sætta sig við sína verstu útkomu í alþingiskosningum, bæði fyrr og síðar. Stöðugleikinn innanflokks komst því ef til vill fyrst á með formannstíð Davíðs Oddssonar en sáralítill órói hefur verið merkjanlegur innan Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár, í það minnsta þannig að rekja megi hann allt aftur til gunnar- og geirsfylkinganna sem börðust á banaspjótum í bardaga sem hámarki náði á örlagaríkum janúardögum 1980.