Svartir englar eftir Ævar Örn Jósepsson
Íslenskar glæpasögur hafa risið upp eins og gorkúlur undanfarin örfá ár og það merkilega er að furðulega margar þeirra eru alveg lausar við að vekja hjá manni sama aulahroll og maður hefði kannski búist við í fyrstu og þekkir svo vel frá þeim bjálfalegu tilraunum sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa til dæmis gert til að búa til trúverðuga íslenska þrillera. Og ekki bara það, margar glæpasagnanna eru bara fjári góðar þó að kannski spili það inn í það hið fornkveðna að hverjum þyki sinn fugl fagur. Jæja, og þó. Tveir glerlyklar til Arnalds og milljón eintök af bókum hans seld í útlöndum hljóta nú að segja eitthvað um það að aðdáun manns á sögum Arnaldar stafi ekki eingöngu af einhverri þjóðrembu í manni.
Ég hélt í það minnsta að ég væri búinn að fá nóg af glæpasögum í bili eftir óverdósið á Mankell síðasta haust en kannski þorstinn komi bara með hækkandi sól aftur. Það er jú eitthvað sem veldur því að maður er einatt í stuði fyrir krimma á sumrin, svona í bland alla vega. Það er auðvitað undarlegt að á þessari árstíð birtu og gleði skuli maður reyna að tóna allt niður með hryllilegum morðum og öðrum óskapnaði. En kannski maður sé bara að leita einhvers jafnvægis í birtunni og lífsorkunni allri fyrir utan gluggann hjá manni - svona eins og maður týnir sér í lýsingum á suðrænum slóðum í svartasta skammdeginu. Gæti verið. Vilji alltaf bara hafa þetta svona hæfilega gott eða hæfilega trist í kringum sig.
Ég renndi mér í gegnum Svarta engla af nokkurri ákefð og það kom á daginn að það er ekki neitt undan Ævari Erni að kvarta sem glæpasagnahöfundi. Engu er líkara en að hann hafi sprottið fram sem fullskapaður höfundur slíkra sagna, því að þetta er aðeins hans önnur bók. Tökin sem hann hefur á glæpasagnarituninni minna þó fremur á þrautreyndan höfund á sinni fimmtándu eða tuttugustu bók. Það er með öðrum orðum eins og hann hafi aldrei gert neitt annað en að skrifa krimma. Ekki ætla ég nú að ganga svo langt að setja hann alveg strax á bekk með Arnaldi en sannarlega fer hann þó upp í brons- eða silfursæti þeirra íslensku glæpasagnahöfunda sem ég hef lesið - líklega deilir hann þar öðru sætinu með Viktori Arnari í bili.
Ævar Örn heldur sig innan hins skandinavíska forms glæpasögunnar, stíllinn raunsær og hversdagslegur og skúrkarnir sem og löggurnar fremur alþýðlegar manngerðir - engar ofurhetjur eða ofurskúrkar svo sem heldur á þessum bænum. Allt sem sagt, samkvæmt hefðinni og ekkert nema gott um það að segja. Það er því óhætt að mæla með þessari við aðdáendur Arnalds, til dæmis. Enginn þeirra ætti að verða fyrir vonbrigðum með hana þessa.
Ævar Örn deilir athyglinni nokkuð jafnt á milli sinni persóna þar sem í fremstu víglínu standa þau Stefán, Katrín og Árni hjá rannsóknarlögreglunni og í ögn meira aukahlutverki eru þeir Guðni og Friðrik. Í Svörtum englum takast þeir á við hvarf konu; virts kerfisfræðings og tveggja barna móður. Eins og vera ber leynast þræðir hvarfsins víða en það er best að láta ekki meira uppi en það.
Eitt af því sem maður er alltaf voðalega viðkvæmur fyrir í glæpasögum, sérstaklega íslenskum - kannski af því að maður er svo vel kunnugur vettvangi þeirra -, er það að þær fari að hljóma ótrúverðugar. Mestan part sleppa Svarti englar við þann dóm frá mér þó að mér finnist ameríska tengingin ef til vill vera óþarflega langsótt og reyfarakennd - þrátt fyrir réttlætingar hennar í eftirmála höfundar. Fannst að Ævar hefði mátt tóna hana miklu meira niður og láta þannig ekki pólitískt réttlætismál sem höfundur brennur fyrir ganga fyrir þjónustu hans við framgang góðrar sögu.
En sem sagt, fantafín glæpasaga. Mankell fékk mig til að fá leið á glæpasögum síðasta haust og Rankin náði ekki að rétta mig af þeirri braut. En Ævari Erni tókst það núna. Kannski þó að bjartar sumarnætur hafi líka hjálpað til.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home