Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

20.4.06

Salvador eftir Joan Didion

Þegar ég heyrði fyrst minnst á nafn Joan Didion einhvern tíma síðasta haust í bókaumfjöllun morgunþætti sænska sjónvarpsins þá lagði ég strax við hlustir. Ég hafði að vísu lítinn áhuga á þeirri bók sem til umfjöllunar var en þegar að ég heyrði að Didion þessi tilheyrði þeim sem stundum hafa verið kenndir við Nýju blaðamennskuna (New journalism) í sínum bókum og að hún hafi um árið sent frá sér bók um El Salvador, þá varð ég spenntur. Ég hugsaði með mér að hún skrifaði þá kannski eins gott stöff og Kapuscinski minn kæri.

Eftir árangurslausa leit í bókabúðum og á bókasöfnum leysti ég málið með Amazon og bókin barst í janúar síðastliðnum. Og nú er ég loks búinn að hespa henni af - hef svona gripið til hennar af og til.

Didion var í El Salvador 1982 og bókin er frá þeim tíma. Hún segir frá glæpasamfélaginu El Salvador þar sem ómögulegt er að vita hverjir fremja verstu eða mestu glæpina á götum út, böðlar stjórnvalda eða hreinræktaðar glæpaklíkur. Og þetta var að sjálfsögðu hyski sem að Reagan-stjórn þessa tíma studdi dyggilega við bakið á - nema hvað?

Skemmst er frá því að segja að ég komst samt sem áður einhvern veginn aldrei í samband við þessa bók. Þannig að Kapuscinski er enn bestur. En ég keypti mér þó aðra Didion-bók í leiðinni, Miami heitir hún, og kannski maður gefi henni séns einhvern tíma á næstu mánuðum.

Reykjavík - vaxtarbroddur eftir Trausta Valsson

Bók sem ég byrjaði að glugga í síðasta sumar og lauk svo við núna um daginn þegar að ég sá hana aftur á sama stað uppi í bókahillu uppi á Íslandi.

Reykjavík - vaxtarbroddur er skipulagssaga Reykjavíkurborgar - sú eina sem út hefur komið, að því er ég best veit. Bókin kom út 1986 en hefur farið furðu lágt síðan miðað við hversu merkileg hún er í raun og fyrir það hversu fagleg sjónarmið koma fram í henni sem jafnframt eru óþreytandi að benda á allt það endemisklúður sem skipulag Reykjavíkur er frá upphafi til enda. Segja má að bókin sé eitt alls herjar diss á reykvísk yfirvöld á 20. öld þar sem borgaryfirvöld (sjálfstæðismenn utan fjögurra ára) hafa nánast alltaf tekið kolrangar ákvarðanir.
Helst deilir Trausti á dreifðu byggðina upp um holt og hóla í stað þéttrar borgarbyggðar sem ollu því - og valda enn - að kostnaður við samgöngur, lagnakerfi og annað slíkt verður skýjum ofar því sem hann hefði orðið ef eðlilega hefði verið staðið að málum. Þá er óminnst á það borgarsamfélag sem forgörðum fer vegna þessa sveitaskipulags þar sem hver og einn borgarbúi fær sitt óðal með túni í kring.

Trausti birtir líka allar þær tillögur að útliti borgarinnar hér og þar sem uppi voru á sínum tíma. Framan af öld eru þær oft stórbrotnar og góðar en þegar líður á öldina verða þær skelfilegri og skelfilegri. Hryllilegastar eru þær á sjöunda áratugnum þegar að tillögur um niðurrif alls grjótaþorpsins fyrir steinstepykumbalda í anda Morgunblaðshallarinnar þóttu bara alls ekki svo galnar og ekki heldur niðurrif allrar Torfunnar að Stjórnarráðinu og jafnvel gamla MR meðtöldum!

Sumar borgir eins og Stokkhólmur, hleyptu þessari skelfilegu stefnu í framkvæmd og niðurstaðan í dag er eitt skelfilegasta umhverfishryðjuverk sem sést hefur í borgarlandslagi: Sergels torg og umhverfið í kringum það. Til allrar hamingju gekk þetta ekki eftir í Reykjavík og því ber ekki að þakka hyggnum borgaryfirvöldum heldur hópi ungs fólks á áttunda áratugnum sem stóð vörð um gömlu húsin.

Reykjavík - vaxtarbroddur er bók sem alls ekki á skilið að falla í gleymsku. Ég hvet allt fólk sem áhuga hefur á bættri borgarmenningu (já, eða tilkomu borgarmenningar yfirhöfuð) í Reykjavík til þess að ná sér í þessa bók á næsta bókasafni því að hún er varla fáanleg nema kannski þá á fornbókasölum.

Einnig væri ástæða til að hvetja Tryggva til þess að setjast aftur niður nú tuttugu árum síðar og gefa stúdíur sínar út aftur í endurskoðaðri útgáfu þar sem síðustu tuttugu ár eru líka tekin með í reikninginn.

Dutch: A memoir of Ronald Reagan eftir Edmund Morris (stytt útgáfa)

Gaman var að hlýða á þessa mjög svo styttu útgáfu af ævisögu Ronalds Reagans. Yfirleitt er ég mótfallinn slíkum styttingum en í þessu tilviki var hún ágætlega þegin enda algjör óþarfi að þræla öllu lífshlaupi forsetans í smáatriðum í gegnum hlustir sínar.

Það var stiklað á stóru, allt frá því að hann var hönk í starfi strandvarðar, til þess þegar að hann varð kvikmyndastjarna og svo að lokum til þess tíma þegar að hann gerðist stjórnmálamaður - fyrst ríkisstjóri í Kaliforníu og síðan forseti Bandaríkjanna.

Ronald Reagan birtist í þessari bók sem mjög svona söksessfúl gaur. Hann er hluti af fallega fólkinu sem gengur alltaf allt í haginn, fær bestu einkunn á öllum prófum og deitar sætustu stelpurnar. Með öðrum orðum, óþolandi gerpi.

Skemmtilegast var auðvitað að hlusta á kaflana um forsetatíð hans og þá sérstaklega hvernig kalda stríðið stigmagnaðist eftir að hann kom til valda og náði ákveðnum hápunkti 1983 sem sumir hafa síðan nefnt hápunkt alls kalda stríðsins og þann tíma, að Kúbudeilunni hugsanlega undanskilinni, þar sem heimurinn komst næst þriðju heimstyrjöldinni. Samkvæmt þessari bók var hún mun nær en flestir gerðu sér grein fyrir.

Annað enn þá skemmtilegra í forsetahlutanum er hins vegar kaflinn um leiðtogafundinn í Höfða en svo skemmtilega vill til að hann virðist vera óstyttur í þessari hljóðbókarútgáfu. Það kom mér á óvart hversu mikilvægur hann var talinn og hversu mat manna á honum var mikið sem algjörs lykilviðburðar í endalokum kalda stríðsins. Mér hafði hingað til verið talið trú um að þessi fundur hefði verið hálfmislukkaður.

Dutch er því áhugaverð bók um mann sem ég ber þó afar takmarkaða virðingu fyrir.