Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.8.06

On the Road eftir Jack Kerouac

Ég man ekki hvenær að ég heyrði fyrst minnst á On the Road, hina frægu vegasögu Jack Kerouacs en ég man hins vegar eftir mörgum tilvikum þar sem maður hefur hlustað á stórkarlalegar lýsingar á efni bókarinnar og ekki síður á höfundinum og öllu ruglinu og vitleysunni sem hann tók upp á á sinni viðburðaríku ævi.

Satt best að segja varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum með On the Road. Kannski hún hefði virkað betur á mig ef ég hefði lesið hana en ekki hlustað á hana lesna upp en þó vil ég halda það að góðar bækur ættu ekki að tapa svo miklu á milli tveggja forma sem til eru til þess að njóta bókmennta. Ég bjóst við flottri framvindu og glæsilegri frásögn þessarar háklassísku töffarabókar en í staðinn fannst mér þetta oft og tíðum vera lítið meira en eintóna fyllerísröfl og frægðarsögur af alls konar sniðugu og skemmtilegu flippi í ungu fólki sem finnst gaman að rasa út.

Kannski hefði ég haft meiri þolinmæði fyrir þessu á þeim tíma sem að maður var einmitt að hlusta á frægðarsögur af þessari miklu bók, svona í kringum rúmlega tvítugt þegar að maður var líka alltaf úti á lífinu og fannst rosa gaman að heyra um og segja sjálfur sögur sem byrja á setningunni: ,,Djöfull var ég fullur, maður!"

En hvort sem það er það eða eitthvað annað, þá alla vega mátti ég hafa mig allan við að hlusta til enda á allar ,,djöfull var ég fullur, maður"-sögurnar af Kerouac og félögum hans. En kannski er málið bara líka það að allt þetta í bókinni sem hneykslaði rosalega á sínum tíma hljómar eins og úr sunnudagaskólastund miðað við það sem úir og grúir af út um allt í bókmenntum nútímans. Þannig að sú ögrun sem í efni bókarinnar fólst hér áður fyrr er löngu horfin og þá stendur restin kannski svolítið fátækleg eftir.

On the Road voru sem sagt vonbrigði. En ég ætla samt að reyna mig við Big Sur líka og sjá hvort mér finnst það skárra.

2 Comments:

  • At 1:40 f.h., Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said…

    Big Sur er - að mínu mati - betri.

    Það sem er/var ögrandi við On the Road var alls ekki söguefnið, fylleríið eða þvíumlíkt - þar höfðu margir gengið miklu lengra löngum fyrr. Formið hins vegar, þetta losaralega uppbyggingarleysi - eða þematíska uppbygging - þótti og þykir gera bókina sérstaka.

    Ég get vel ímyndað mér að slæmur lesari geti eyðilagt upplestur. Listin er auðvitað ekki sú sama, og ekki sama hvernig gengið er frá hljóðbók. Ég get ekki ímyndað mér neinn sem ég myndi vilja láta lesa bókina fyrir mig - hef hlustað á byrjunina á upplestri Kerouacs sjálfs og leist lítið á. Gott ef einhver sagði mér ekki að Johnny Depp hefði lesið hana líka - sem er arfaslæm hugmynd.

    Svo skiptir sjálfsagt líka miklu máli á hvaða aldri maður kynnist bókinni fyrst - og á ekki bara við þessa bók heldur allar. Ég er ekki viss um að Salka Valka orki jafn sterkt á miðaldra konur og hún gerir á menntaskólastúlkur. Bækur eru ekki verri fyrir það.

     
  • At 9:28 e.h., Blogger Króinn said…

    Já, það er viðeigandi að fá komment frá þér Eiríkur enda átti ég nú mestmegnis við sögur sem þú sagði hér á sínum tíma meðan að við vorum báðir ungir og fallegri menn.
    En þetta held ég að sé rétt hjá þér: þ.e. að það virka ekki allar bækur í upplestri. Bestar finnst mér glæpasögur og álíka léttmeti sem krefjast engrar hugsunar eða einbeitingar.
    Þannig að ég ætti náttúrlega að kaupa mér skrudduna einhvern tíma líka og lesa hana í stað þess að láta lesa hana fyrir mig. Upplesarinn var reyndar alveg ágætur. Man ekki nafnið á honum.
    En ég ætla samt að prófa Big Sur líka í upplestri. Vona að það eyðileggi ekki of mikið stemninguna.
    Bestu kveðjur vestur.

    PS. Gaman að fá komment á Bókabloggið. Ég var farinn að halda að ekki nokkur maður læsi þetta.

     

Skrifa ummæli

<< Home