Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.9.04

Næturstaður eftir Sigurð Pálsson

[Gagnrýni í samtalsformi sem birtist á Kistunni]

Góðan daginn Sigurður. Nafni þinn Pálsson er best þekktur sem ljóðskáld, en hefur einnig starfað við leikhús og er menntaður í kvikmyndum. Fyrir nokkrum árum sneri hann sér svo að skáldsagnaskrifum og er Næturstaður hans þriðja skáldsaga. Og nú langar mig að vita hverskona saga þetta er, ber hún merki ljóð- og leikskáldsins? bestu kveðjur úlfhildur

Halló Úlfhildur.
Jú, það er ekki laust við að hún beri að minnsta kosti merki ljóðskáldsins. Að minnsta kosti er ljóðrænan áberandi í textanum. Reyndar verð ég að viðurkenna að Sigurði tókst að rugla mig svolítið, ómenntaðan manninn í bókmenntafræðum. Það var nefnilega þannig að mér fannst eiginlega nóg um ljóðrænuna, a.m.k. á köflum. Stundum er nefnilega talað um að ljóðskáld eigi svolítið erfitt með að svissa yfir í skáldsöguformið og þar af leiðandi hefur jafnvel bestu ljóðskáldum ekkert endilega tekist að búa til góðan prósa. Stundum finnst manni að Sigurður glími við þennan vanda, honum hætti til þess að tefja frásögnina með óþarfa textaflúri.
En nafna mínum Pálssyni er hins vegar ekki alls varnað því að þegar líða tók á lesturinn fannst mér eiginlega að hann hefði vippað þessum skreytingum öllum yfir á aðalpersónuna, þýðandann Reyni, sem á raun í mestu vandræðum með að þýða allt sitt líf yfir á einfalt og skiljanlegt mál. Ég er nú samt eiginlega farinn að gera höfundinn sjálfan ábyrgan aftur, sérstaklega eftir að ég gluggaði aftur í fyrstu skáldsögu Sigurðar, Parísarhjól, sem ég las fyrir nokkrum árum, mér bara til talsverðrar skemmtunar, ef ég man rétt. Þar er stíllinn nefnilega svipaður, þessi ljóðræna. Og þó. Ég veit það ekki.
En ég get að minnsta kosti sagt þér örlítið frá þessari bók. Við fáum að fylgjast með aðalpersónunni Reyni, sem fær tilefni til að vitja æskuslóða sinna eftir áralanga útlegð frá æskuslóðunum; hann er "farinn", eins og svo margir aðrir frá sögusviðinu, hálfgerðu eyðiþorpi einhvers staðar á Norðausturlandi. Fráfall föður hans kallar hann aftur til staðarins og hann fær kærkomið tækifæri til að glíma við fornar fylgjur sem hann flúði á sínum tíma.
Þrátt fyrir að hann hafi flúið sögusviðið hefur honum ekki tekist að flýja fortíðina. Sú mikla áhersla hans á að firra sig fortíðinni án þess að takast á við hana gerir það að verkum að hún stendur í stað; er sínálæg.
Hann er rótlaus frá upphafi, hefur ekki síður verið það í hinni smækkuðu heimsmynd þorpsins en í stórborginni á meginlandi Evrópu, þangað sem hann flúði. Hann er tökubarn, óviss um uppruna sinn og fannst hann þess vegna alltaf vera hálfvegis utangarðs í þorpssamfélaginu þar sem allir aðrir, eða flestir skulum við segja, gátu tengt sig einhverju og einhverjum.
Það er kannski best að segja að aðalpersónan, og um leið sögumaður, sé haldinn óró sem þjakar hann allt þar til að það verða nokkur hvörf með því að honum finnst að honum hafi tekist að loka hring sem hann hafði áður skilið eftir hálfopinn. Hins vegar er hætt við því að sú spennulosun reynist skammgóður vermir því að þó að við skiljum við sögumanninn í allnokkuð betra standi við lok sögunnar en í upphafi hennar er hætt við því að flest fari aftur í fyrra horf enda ótal önnur mál óleyst og meira að segja er vafamál að sú lausn sem fékkst hafi verið nokkur lausn.
Ætli ég segji þetta ekki bara gott af Næturstað. Þú segjir þá bara til ef þú vilt vita meira.
En nafni minn Pálsson virðist alla vega vera búinn að ryðja sína skáldsagnabraut án teljanlegra vandræða og héðan í frá leikur lítill vafi á því að honum er formið tamt þegar á heildina litið, raunar svo tamt að hann er þegar kominn í allra fremstu röð íslenskra skáldsagnahöfunda þó að hann sé væntanlega bara rétt að byrja.

(Birtist á Kistunni í nóvember 2002)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home