Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

17.12.04

Knots & Crosses eftir Ian Rankin



Ég var búinn að bíða lengi með að lesa Ian Rankin. Hef oft horft á hann laungunaraugum upp í bókahillum og hugsað mér gott til glóðarinnar. Lét svo loks verða af því núna á haustdögum að festa mér eintak af fyrstu bókinni hans um lögreglumanninn John Rebus.

Fyrir þá sem það ekki vita þá er John Rebus jafnskoskur og höfundurinn og jafnmikill Edinborgari líka. Sögurnar um John Rebus gerast, með öðrum orðum, í Edinborg - þeirri niðurringdu og skuggsælu borg. Þannig kemur Edinborg í það minnsta fyrir hjá John Rebus og kollegum hans í löggunni enda fást þeir dagsdaglega við ljótustu atburði sem gerast innan borgarmarkanna og eltast við mest slísí liðið í borginni.

Það má auðvitað ekki segja of mikið um plottið, það er algjört bann við því þegar sagt er frá glæpasögu þar sem uppljóstranir verða á annarri hverri síðu. Eina sem hægt er að segja er að það gengur raðmorðingi laus í Edinborg, af öllum borgum...

Ég verð að segja eins og er að Ian Rankin olli mér nokkuð miklum vonbrigðum með þessari fyrstu bók. Persónusköpunin og framvindan var oft pínulítið klunnaleg svona og ég átti eitthvað voðalega erfitt með að sannfærast um það sem stóð á bókarkápunni að þessi saga væri eftir einn fremsta spennusagnahöfund Evrópu. Varla fer maður þá að leggja sig eftir hinum ef þetta er það skársta, hugsaði ég.

En Ian Rankin til varnar má segja að það er kannski álíka ósanngjarnt að dæma hann af þessu byrjendaverki eins og að afskrifa Laxness sem svona frekar lélegan rithöfund eftir að hafa bara lesið Barn náttúrunnar.

Þannig að kannski maður gefi þeim félögunum Rankin og Rebus annan séns einhvern tíma síðar. Ekki strax samt því að ég er orðinn leiður á spennusögum í bili.

Þannig að tvær og hálf stjarna á Knots & Crosses.

PS. Bendi á geysilega flotta opinbera vefsíðu Rankins með fullt af stöffi um höfundinn og bækurnar hans.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home