Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

16.9.04

Hundabókin eftir Þorstein Guðmundsson

[Gagnrýni í samtalsformi sem birtist á Kistunni]

13.11.2002
frá: Úlfhildi Dagsdóttur til Sigurðar Ólafssonar
subject: Hundabókin, Þorsteinn Guðmundsson
Sæll Sigurður. Fyrir tveimur árum sendi Þorsteinn Guðmundsson leikari og fóstbróðir frá sér smásagnasafn sem gladdi okkur bókaverjur all mikið með trúverðugum lýsingum á okkar daglega amstri. Nú hefur drengurinn sent frá sér annað sagnasafn: er jafn mikla ánægju af því að hafa?
bestu kveðjur
úlfhildur

13.11.2002
frá: Sigurðu Ólafssyni til Úlfhildar Dagsdóttur
subject: Hundabókin, Þorsteinn Guðmundsson
Sæl og blessuð Úlfhildur.
Það er skemmtilegt til þess að hugsa hversu oft bókasafnið okkar sáluga í Þingholtsstrætinu hefur ratað inn í ljóð og sögur ýmissa skálda og rithöfunda. Þetta á sér sjálfsagt þá eðlilegu og almennu skýringu að skáld og rithöfundar hafa ætíð verið eins og gráir kettir á bókasöfnum - líkir sækja víst líka heim.
Það var okkur bókavörðunum því talsvert gleðiefni að frétta af því fyrir tveimur árum að grínistinn Þorsteinn Guðmundsson hefði skrifað Klór, heilt smásagnasafn þar sem hann lét sér ekki nægja að gera gamla Esjubergið að hluta sögusviðsins heldur reyndi hann líka að setja sig inn í hugarheim okkar bókavarðanna.
Ég verð nú reyndar að hryggja þig með því, Úlfhildur, að frumraun Þorsteins olli mér vissum vonbrigðum. Hann reyndi þar að drífa sögurnar áfram með svörtum húmor á svipuðum nótum og aðdáendur Fóstbræðraþáttanna þekkja af góðu einu. Hins vegar virðist hann hafa treyst of ríkulega á drifkraft fyndninnar því að sögurnar vantaði í heild einhvers konar undirlag og innsæi. Afleiðingin varð sú að allt varð meira í stíl við sápuóperu en góða og skemmtilega frásögn. En nóg um frumraunina Klór.
Nú kveður Þorsteinn sér hljóðs með Hundabókina, nýtt smásagnasafn. Eins og í Klór tengjast sögurnar á ákveðinn hátt þó að tengingin sé mun fyrirferðarminni í þessari bók. Að þessu sinni felst tengingin helst í því að í öllum sögunum er vísað til hunda. Lesendur þurfa ekki að velkjast í vafa um hverjar vísanirnar eru því að þær eru tíundaðar í stuttu máli fremst í bókinni.
Til að gera langa sögu stutta er óhætt að fullyrða að Hundabókin sé, þegar á heildina er litið, nokkuð stórt framfaraskref hjá rithöfundinum Þorsteini Guðmundssyni. Frásögn Þorsteins er liprari og miklu þéttari. Þrátt fyrir að hann trani húmornum ekki jafnmikið fram er hann samt alltaf undirliggjandi og kemst þannig oftar en ekki betur til skila.
Það er eins og bókin vinni á eftir því sem lengra dregur því að þrjár af síðustu fjórum sögunum finnst mér einna best heppnaðar. Ein þeirra er sögð út frá brenglaðri heimsmynd rónapars sem væflast um götur miðborgar Reykjavíkur. Í annarri segir frá manni sem á hviklyndan bróður, svo ekki sé meira sagt. Í þeirri þriðju fer húmoristinn Þorsteinn síðan á kostum þar sem hann dregur upp mynd af súkkulaðistráknum RabBa (með stóur B-i!) í kostulegum, greinaskilalausum vaðli upp á rúmar tuttugu blaðsíður.
Það er mun meiri ánægju að hafa af Hundabókinni en frumsmíðinni. Þorsteinn er efni í ágætan sagnamann og vonandi sýnir hann sömu framfarir í næstu bók og hann gerir í þessari.
Bestu kveðjur,
Sigurður

frá Úlfhildi Dagsdóttir
subject: Hundabókin, Þorsteinn Guðmundsson
ein spurning sem mig blóðlangar að koma á framfæri: eru eingin bókasöfn í þessari bók og afhverju hundar? (þetta eru reyndar tvær spurningar sé ég, sem mætti ummorða í eina, hefur bókasöfnum verið skipt út fyrir hunda og hversvegna? (eru enn tvær reyndar))
bestu kveðjur
úlfhildur

frá: Sigurði Ólafssyni
Já, það ber ekki á öðru en því að bókasöfnum hafi verið skipt út fyrir hunda. Ég sé ekki aðra skýringu á því í fljótu bragði en þá að Þorsteinn hafi viljað vegsama hæsta stig menningar með því að fjalla um Borgarbókasafnið, bæði stofnunina sem slíka og starfsmenn hennar, í fyrri bókinni. Nú vilji hann hins vegar venda kvæði sínu í kross og fara yfir í lágkúrulegra þema en hundar eru, eins allt upplýst fólk veit, ekki einu sinni alvöru dýr heldur uppræktuð tegund skoffína, eins og eldislaxar og sitthvað fleira. Eina tenging milli hunda og bókasafna sem við mér blasir er kona sem skrifar dónalegar bækur og fær skáldaleyfi til þess að koma með ýmsar skepnur, m.a. hunda, inn á háheilagt bókasafnið.
S

(Birtist á Kistunni í nóvember 2002)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home