Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

8.1.05

Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson



Mig langaði bara í eina bók fyrir þessi jól, Samkvæmisleiki eftir Braga Ólafsson. Bragi hefur verið uppáhalds íslenski rithöfundurinn minn, í það minnsta af þeim sem eru lifandi og sparkandi, alveg síðan að ég las Hvíldardaga fyrir þremur árum síðan. Ég hlakkaði því mikið til að lesa Samkvæmisleiki, bókina sem átti að koma út í fyrra en var frestað, og ekki minnkaði spenningurinn við allan góða róminn sem gerður var að henni.

Flest er á sínum stað hjá Braga. Enn og aftur er aðalpersóna Braga fremur álappalegur og óframfærinn einstaklingur sem einhverra hluta vegna tekst að koma sér í klandur vegna eigin vandræðagangs þó að vandræðagangurinn sé nú ef til vill síður sjálfskapaður í þessari sögu en hjá aðalpersónum fyrri skáldsagna Braga. Stíllinn hans Braga er á sínum stað og sagan lullar áfram á sama hátt og fyrri skáldsögur Braga. Persónur og persónulýsingar eru svipaðs eðlis og áður og smásmuguleg dvöl höfundar við smáatriði hér og þar er söm við sig. Stríðnislegar vísanir líka á sínum stað, að þessu sinni skýtur Þórbergur meðal annars upp kollinum hér og þar. Allt sem sagt jafngott og áður hjá Braga.

Ýmislegt er líka nýtt og gott. Sérstaklega það hvernig hin saklausa og friðsama hula sögunnar er hægt og sígandi dregin af henni. Þar nýtur hinn mínímalíski og hljóði stíll sem einkennir skáldsögur Braga sín til fullnustu.

Það er samt sem áður alltaf jafndjöfullegt að heyra svona mikla lofsöngva um listaverk eða listviðburð sem maður á eftir að gefa gaum. Fyrir vikið er maður búinn að keyra vonirnar svoleiðis upp úr öllu hófi að maður býst ekki við neinu minna en einhverjum lævseiver eða tímamótasnilld. Og ef verkið er eitthvað minna, verður maður fyrir vonbrigðum.

Þetta kom fyrir mig þegar að ég las Samkvæmisleiki. Fannst hún góð en samt ekki best. Finnst Hvíldardagar enn þá best. Var jafnvel pínulítið vonsvikinn. Núna er ég örlítið búinn að jafna mig og endurmeta hlutina og er því tilbúinn að segja að Samkvæmisleikir er þrælfín bók og Bragi er áfram bestur. Lengra geng ég hins vegar ekki í bili. Kannski Samkvæmisleikir haldi hins vegar áfram að vinna á í huga mér, það er raunar ekki ólíklegt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home