Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

31.3.05

Kvenspæjarastofa númer eitt eftir Alexander McCall Smith




Það hefur verið einhver svona Afríkusláttur á mér undanfarið. Ekki nóg með að ég hafi verið að lesa mér til um afrísk dæmi fyrir ritgerðirnar sem ég hef verið að skrifa heldur hef ég líka lengi verið með frásagnir Ryszards Kapuscinskis frá Afríku á náttborðinu. Og nú um páskana renndi ég mér í gegnum Kvenspæjarastofu númer eitt eftir Alexander McCall Smith um spæjarann Precious Ramotswe sem rannsakar dularfull atvik í Botsvana.

Ég man eiginlega ekki lengur hvaða hugmyndir ég var nákvæmlega búinn að gera mér fyrirfram um bókina en hún kom mér í það minnsta nokkuð á óvart. Kannski bjóst ég við meiri glæpasögu, svona í stíl þessara sem maður er alltaf að lesa öðru hvoru. Þess í stað er bókin samsafn stuttra frásagna, þar sem sumar tengjast þó öðrum út alla bókina. Það er meira að segja stundum á mörkunum að það sé hægt að tala um þessa bók sem glæpasögu, spæjarasaga væri sjálfsagt betra heiti og njósna- og ævintýrasögur úr æsku, eins og Enid Blyton-bækurnar og Karls Blómkvist-sögurnar, komu eiginlega oftar upp í hugann en einhverjir realískir krimmar.

Frásagnarmátinn er einfaldur og léttlyndur og svona framan af fannst mér hann jafnvel vera svolítið einfeldningslegur og að mér læddist sá grunur að höfundur hefði ef til vill fallið í þá vesturlensku gryfju að fara að tala niður til Afríkubúa og fara um þá höndum eins og skynlaus börn - sem eru samt alltaf alveg ofsalega glöð. Þrátt fyrir að ég hafi nú svona smám saman komist á þá skoðun að þessu sé nú varla upp á höfundinn trúandi þá hef ég samt ekki alveg losnað við þennan illa grun.

Annars var innsýn inn í botvanska leyndardóma um margt skemmtileg og nýstárleg og ágætis tilbreyting frá klisjukenndum, niðurrigndum strætum Edinborgar, Ystad og Reykjavíkur og þeirra þunglyndu, ófélagslyndu lögreglufulltrúum. Hressilegt fyrir okkur sjálfhverfu Evrópubúana að fá smá innsýn inn í Afríku til þess að slá á þá fordóma okkar að Afríka sé bara ein stór og mikil eymd og auðn og ekkert annað. Skemmtilegt líka sölutrikkið með að láta fyrsta kaflann úr næstu bók fylgja á eftir sögunni. Svona "missið ekki af næsta þætti af Mma Ramotswe...". Snjallt.

Og þýðingin hennar Helgu Soffíu vitanlega skotheld - nema hvað?

18.3.05

Laterna Magica eftir Ingmar Bergman



Það er náttúrlega dálítið gamalmennalegt svona að leggjast yfir ævisögu Ingmars Bergmans þegar ýmislegt annað töluvert meira hipp stendur til boða í flokknum: „Ævisögur frægra Svía“. Sögur um feril ABBA eða Europe hefðu alla vega verið nær í tíma eða hin æsilega saga hinnar stórkostlegu hljómsveitar (NOT!) Ace of Base. En svona er þetta bara og svona er ég bara.

Ingmar Bergmann hefur sem sagt haft ofan af fyrir mér undanfarnar vikurnar með því að rekja ævi sína í bókinni Laterna Magica sem að mig minnir að hafi heitið Töfralampinn í íslenskri þýðingu sem kom út fyrir tæpum tuttugu árum síðan. Þetta er sem betur fer ekki sjálfsævisaga í hinum skelfilega hetjukennda stíl sem sjálfsævisögur detta stundum ofan í þar sem höfundurinn meikar ekki að segja frá öllu því ljóta og lúðalega sem hann hefur gert um dagana.

Þvert á móti á hún svo sannarlega við um þessa bók, klisja útgefandans, um að í þessari bók „dragi hann sko ekkert undan“. Líf hans kemur manni mestan part fyrir sjónir sem ömurlegt. Einkalíf hans er ávallt í rúst, hann er varla búinn að giftast einni konu og eignast með henni tvö, þrjú börn áður en hann leitar á náðir einhverrar annarrar og eignast með henni álíka skara. Og engum þeirra sinnir hann hið minnsta - egósentríski listamaðurinn hefur ekki tíma fyrir slíkt! Ég held að ég hafi talið það saman að um 32 ára aldur hafi hann átt sex börn með fjórum konum og byrjaður með þeirri fimmtu. Um það leyti hætti ég að telja en að vísu virðist hann um það leyti hafa uppgötvað að til væri eitthvað sem héti smokkur því að barneignum fækkar nokkuð eftir þetta.

Hann velur að lokum þá klassísku og árangursríku lausn hins norræna karlmanns að besta lausnin við tilfinningaflækjum, vanlíðan og vandræðum sé að loka allt saman rækilega inni og læsa vel og kirfilega á eftir. Hann velur meðvitað að bæla allt saman niður með því að vinna bara og vinna frá því að hann vaknar á morgnana þangað til hann sofnar seint á kvöldin til að þurfa ekki að horfast í augu við heimili sitt eða einkalíf nema rétt yfir blánóttina.

Bergman er vissulega þekktastur alþjóðlega fyrir kvikmyndir sínar en af bókinni að dæma virðist hann hafa varið nokkuð meiri tíma í leikhúsinu við leikstjórn, þá ekki síst á Dramaten hér í Stokkhólmi. Hann eyðir töluverðu púðri í að ræða uppfærslur sínar frá ýmsum tímum og er ýmist sáttur við þær eða ósáttur. Oftar ósáttur þó. Miklu oftar raunar. Sama gildir um myndirnar hans, þar sér hann alltaf eitthvað sem eftir á hefði mátt betur fara og hvaða myndir hann hefði fremur átt að sleppa að gera.

Þrátt fyrir að Bergman dragi upp mynd af sjálfum sér sem fremur ósympatískum og sérlunda manni þá fer maður samt sem áður fljótlega að sympatísera með honum, af einhverjum undarlegum orsökum. Kannski einmitt vegna þess að dregur ekkert undan, er með nagandi samviskubit yfir ýmsu og hefur ávallt miklar efasemdir um eigið ágæti og innræti. Frásögnin er því fremur lítillát og einlæg, hvorki uppfull af hroka og stærilátum né hinum gjörsamlega óþolandi séríslenska eiginleika kaldhæðnu uppgerðarhógværðarinnar (Davíð Oddsson, Halldór Laxness ...já og fleiri).

Ég gæti slegið um mig með því að segja að framvindan minni um margt á klippistíl kvikmyndanna (ef ég hefði ekki lesið það aftan á kápunni á bókinni). Það er kannski eitthvað til í því. Frásögnin er vissulega í minningabrotastíl þar sem hoppað er fram og til baka frá einni senu til annarrar, jafnvel með áratugamillibili. Maður sér þetta vissulega stundum fyrir sér myndrænt og stundum gengur þetta jafnvel frábærlega upp. Dæmi er falleg sena í lok bókarinnar þegar hann lýsir banalegu föður síns og klippir inn í frásögnina hér og þar æskuminningu af þeim feðgunum í litlu ferðalagi um sumar í sænskri sveit þar sem skyndilega skellur á þrumuveður og þeir skýla sér undir stóru eikartré og hinn annars fjarlægi og strangi faðir sýnir syni sínum á sér sjaldsæðar hliðar blíðu og nærgætni.

En ævisaga Ingmars Bergmans er annars listaverk út af fyrir sig og ætti að höfða til allra sem kunna að meta vel skrifaðar og trúverðugar sjálfsævigsögur, alveg óháð því hvort fólk er mikið fyrir kvikmyndir Ingmars Bergmans eða ekki.

Og þá er það bara Saga Ace of Base næst. Ætli hún sé til? Nja, andskotinn - vonandi ekki.