Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

31.3.05

Kvenspæjarastofa númer eitt eftir Alexander McCall Smith




Það hefur verið einhver svona Afríkusláttur á mér undanfarið. Ekki nóg með að ég hafi verið að lesa mér til um afrísk dæmi fyrir ritgerðirnar sem ég hef verið að skrifa heldur hef ég líka lengi verið með frásagnir Ryszards Kapuscinskis frá Afríku á náttborðinu. Og nú um páskana renndi ég mér í gegnum Kvenspæjarastofu númer eitt eftir Alexander McCall Smith um spæjarann Precious Ramotswe sem rannsakar dularfull atvik í Botsvana.

Ég man eiginlega ekki lengur hvaða hugmyndir ég var nákvæmlega búinn að gera mér fyrirfram um bókina en hún kom mér í það minnsta nokkuð á óvart. Kannski bjóst ég við meiri glæpasögu, svona í stíl þessara sem maður er alltaf að lesa öðru hvoru. Þess í stað er bókin samsafn stuttra frásagna, þar sem sumar tengjast þó öðrum út alla bókina. Það er meira að segja stundum á mörkunum að það sé hægt að tala um þessa bók sem glæpasögu, spæjarasaga væri sjálfsagt betra heiti og njósna- og ævintýrasögur úr æsku, eins og Enid Blyton-bækurnar og Karls Blómkvist-sögurnar, komu eiginlega oftar upp í hugann en einhverjir realískir krimmar.

Frásagnarmátinn er einfaldur og léttlyndur og svona framan af fannst mér hann jafnvel vera svolítið einfeldningslegur og að mér læddist sá grunur að höfundur hefði ef til vill fallið í þá vesturlensku gryfju að fara að tala niður til Afríkubúa og fara um þá höndum eins og skynlaus börn - sem eru samt alltaf alveg ofsalega glöð. Þrátt fyrir að ég hafi nú svona smám saman komist á þá skoðun að þessu sé nú varla upp á höfundinn trúandi þá hef ég samt ekki alveg losnað við þennan illa grun.

Annars var innsýn inn í botvanska leyndardóma um margt skemmtileg og nýstárleg og ágætis tilbreyting frá klisjukenndum, niðurrigndum strætum Edinborgar, Ystad og Reykjavíkur og þeirra þunglyndu, ófélagslyndu lögreglufulltrúum. Hressilegt fyrir okkur sjálfhverfu Evrópubúana að fá smá innsýn inn í Afríku til þess að slá á þá fordóma okkar að Afríka sé bara ein stór og mikil eymd og auðn og ekkert annað. Skemmtilegt líka sölutrikkið með að láta fyrsta kaflann úr næstu bók fylgja á eftir sögunni. Svona "missið ekki af næsta þætti af Mma Ramotswe...". Snjallt.

Og þýðingin hennar Helgu Soffíu vitanlega skotheld - nema hvað?

4 Comments:

  • At 3:05 e.h., Blogger HelgaSoffia said…

    Sigurður, ég trúi því ekki að þú sért að falla í þá sænsku gryfju að trúa því að það sé endilega verið að tala niður til fólks þótt það sé ekki allt þvælt og flækt og æ, men... hehehe, svo bendi ég á að maðurinn sjálfur er afríkani þótt hann sé hvítur á litinn.
    Hættu svo sjálfur að tala niður til hennar Auðar minnar. ;)

     
  • At 6:57 e.h., Blogger Króinn said…

    Þabbara sona! Maður er bæði sakaður um að vera Svíi og að tala niður til fólks. See you in court, hérna!

    Ég vona annars að ég leggi ekki sérstaklega í vana minn að tala niður til fólks og vissi ekki til þess að ég hefði talað niður til Auðar þegar ég sagði hvað mér fannst um bókina hennar. Finnst það alla vega svolítið ósanngjörn túlkun svona, verð nú að segja það. En það verður svo sem bara að fara eftir áliti hvers og eins.

    Nei, varðandi hana Mma Ramotswe þá var ég nú bara að lýsa því sem um huga minn fór meðan á lestri stóð, sé nú reyndar ekkert sérstaklega sænskt við það. En ég bætti því nú reyndar líka við að ég tryði því varla upp á manninn að hann hafi fallið í þá gryfju. Kannski kom það ekki nógu skýrt fram hjá mér, ég veit ekki.

    Bestu annars til Edinborgar og kveðjur til kaaallsins.

     
  • At 6:25 e.h., Blogger HelgaSoffia said…

    Hahaha, æ, ég var nú bara að stríða þér svolítið Siggi minn, sorrí...

     
  • At 8:32 e.h., Blogger Króinn said…

    Já, við Svíarnir tökum ekki gríni sko! Nei, annars hefði verið flott að halda þessu svolítið áfram: Fyrsta ritdeila bókabloggsins. Pældu í því.

     

Skrifa ummæli

<< Home