Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

11.4.05

Ebenholts eftir Ryszard Kapuściński



Það er ekki lítið sem maður hneykslast þegar maður heyrir Bandaríkjamann verða vísan að annarri eins fávísi og að kunna ekki skil á hverju einasta ríki Evrópu en tala í staðinn bara um „Júróp“ sem einn stóran samnefnara. Ekki síður hneykslast maður þegar sú grundvallarstaðreynd hefur skolast til hjá þeim sömu um hvar hið stóra og merka og mjög-svo-áberandi Ísland er nákvæmlega niðurkomið á jarðkringlunni og hvað höfuðborgin heitir og helstu ár og firðir. En hvað er maður betri sjálfur?

Ég minnist þess til að mynda að hafa eitt sinn setið í hópi Chíleana þegar að stúlka frá Kólumbíu bættist í hópinn. Ég stóð mig þá að því, og gott ef ég hafði ekki orð á því líka, að finnast það skrýtið að hreimurinn á spænskunni var allt annar hjá kólumbísku stelpunni en hjá þeim chíleönsku. Í kjölfarið áttaði ég mig á því að ég var ekkert betri en Kanarnir. Suður-Ameríka var í mínum huga ekkert annað en einhver fjarskakennd, óskilgreind heild sem ég hafði fram að því ekki haft mikið fyrir að deila niður í samfélög, þjóðir og óteljandi menningarsvæði og -hópa.

Sama er að segja um önnur svæði heimsins utan Evrópu. Bandaríkjamenn afgreiðir maður sem vitleysinga, bara sisvona, Eyjaálfubúa sem svona Paul-Hogana-einhverja og Asíubúa sem fólk sem borðar hrísgrjón með prjónum. En fátt er þó óskilgreindara en Afríka þar sem upp í hugann kemur fyrst og fremst eymd og volæði.

Þess vegna veitti nú ekki af að glugga í bókina Ebenholts (sem myndi sjálfsagt þýðast sem Íbenholt á íslensku eða Myrkviður kannski) eftir pólska blaðamanninn Ryszard Kapuściński. Kapuściński þessi er sjálfsagt einn þekktasti stríðsfréttablaðamaður síðustu áratuga og frægð hans nær langt út fyrir heimaland sitt og bækur hans hafa verið þýddar á fjöldamörg tungumál og njóta víða mikilla vinsælda. Kapuściński er nú kominn á áttræðisaldur og er því farinn að hægja á sér en á rúmlega þriggja áratuga tímabili var varla gerð sú uppreisn eða borgarastyrjöld háð að Kapuściński væri ekki mættur á staðinn til þess að lýsa aðstæðum og fólkinu sem lifði og hrærðist í hörmungunum miðjum. Þess á milli dvaldist hann svo í löndunum sem aldrei eru auglýst í ferðabæklingum og greindi frá því sem fyrir augu bar.

Mestum hluta starfsævi sinnar varði hann í Afríku og sú álfa er í brennidepli í bókinni Ebenholts sem er safn valinna greinaskrifa og frásagna frá ólíkustu kimum Afríku. Frásagnirnar spanna tímann frá því þegar hann kom fyrst til Afríku 1959, þá ungur blaðamaður, og til tíunda áratugarins þar sem hann roskinn og reynslumikill lýsir atburðum og aðstæðum í álfunni af innsæi og skilningi. Hann mætir upphaflega til Afríku til þess að verða vitni að þeirri sjálfstæðisbylgju sem þá var að fara af stað þegar ríki Afríku voru að brjótast undan oki heimsveldanna og mikil bjartsýni og tilhlökkun ríkti um álfuna alla.

Hann ber fyrst niður í Ghana og fylgir eftir sjálfstæðishetjunni Kwame Nkrumah. Eftir það berst sagan fram og til baka um Afríku þvera og endilanga, bæði í tíma og rúmi. Við fylgjumst með viðureign höfundar við malaríu í Úganda, flótta frá stríðsátökum á Sansíbar á báti í skjóli nætur, blóðugri uppreisn í Nígeríu, þorsta og hita á Sahara-svæðinu, lýsingu á einræðisherranum Idi Amin, hirðingjum í Sómalíu, aðdraganda þjóðarmorðsins í Rúanda, sögum af anda- og örlagatrú, flóttamannabúðum í Eþíópíu, daglegu lífi í Abdallah Wallo, heiftarlegu borgarastríði í Líberíu, lestarferð með Mme. Diouf í Senegal, bláfátækum gullgröfurum í Níger og svo mætti lengi telja.

Flestallar einkennast frásagnirnar af því að víkja að dæmisögu úr reynsluheimi höfundar sem síðan er útfærð yfir á ástand ríkisins eða svæðisins í heild. Saga af konu sem á bara pottinn sem hún selur grautinn í við aðalgötuna er þá til dæmis inngangurinn inn í stærri sögu, sögu heillar þjóðar og örlaga hennar og, yfirleitt bágra, aðstæðna. Höfundurinn dregur því upp nærtæka og persónulega mynd áður en hann víkkar út sögusviðið og lýsir hinni stóru sögu hlutanna, sem síðan vitanlega getur oft falist í minnstu atvikum og afdrifum einstakra manneskja.

Maður skynjar í þessari bók undarlega tilfinningu hvíta mannsins sem kemur til þess að fylgjast með og verða þá var við það mikla rót og þá eyðileggingu sem aðkomumenn úr norðri hafa valdið í Afríku um aldabil. Einhvers konar hugmynd um erfðasynd Evrópubúans skýtur upp kollinum í huga höfundar sem gerir það að verkum að hann lítur þannig á, með réttu að hans mati, að hann sé deili ábyrgð með forfeðrum sínum sem á undan komu og rændu og rupluðu. Kapuściński reynir sem best hann getur að bregðast við þessu með því að sýna auðmýkt og vera stöðugt með opinn huga. Reyna eins mikið og evrópskur maður getur að láta sig hverfa inn í fjöldann og lifa lífinu meðal heimafólks á jafnlíkum forsendum og það og hann telur sér vera unnt að gera. Segja sem minnst og predika ekkert. Hlusta bara og lýsa því svo sem fyrir augu ber.

Það má mikið læra af þessari bók og raunar er mér það til efs að til séu mikið betri bækur til þess að veita innsýn inn í veröld þessarar heimsálfu sem við vitum flest svo ógnarlítið um. Þar kraumar vitanlega allt af menningarstraumum, mikilli sögu og gríðarlega breiðri mannlífsflóru. Andstæðurnar eru miklar, bæði milli landsvæða en einnig milli þjóðfélagshópa þar sem annars vegar er gríðarleg fátækt og hins vegar syndumspillt ríkidæmi.

Í lok ferðar yfir fjóra áratugi í skyndimyndum frá Afríku er niðurstaðan því miður sú að betri tímar í kjölfar sjálfstæðisbylgjunnar á sjöunda áratugnum reyndust oftast tálsýn. Miklir erfiðleikar voma enn yfir álfunni og hafa í mörgu fremur aukist en minnkað. Lestur á bók Ryszards Kapuściński sýnir það hins vegar að það að duga engar skyndireddingar eða heildarlausnir til að færa hluti til betra horfs í Afríku þar sem fjölbreytileikinn krefst ólíkra nálgana í hvert skiptið fyrir sig. Að halda öðru fram væri álíka hroki og heimska og að leggja að jöfnu Ísland lengst uppi í hánorðri og Aserbaídsjan suðaustur við Kaspíhaf, bara af því að bæði rúmast þau innan sömu heimsálfunnar samkvæmt kortabókum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home