Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

13.1.06

Historien om Sverige: Drömmar och verklighet eftir Herman Lindqvist

Ég sem hélt að þetta væri áframhald á Svíþjóðarsögu þar sem hinni sleppti og ég myndi því fræðast mikið um síðustu áratugi í Svíþjóð. Svo reyndist ekki vera. Þetta var allt saman frá fyrri hluta 20. aldar og mikið til sömu frásagnir og í hljóðbókinni miklu sem ég hlustaði á um daginn - bara í nokkuð lengra máli.

Margt kom nú samt athyglisvert fram. Til dæmis að Svíar voru að mörgu leyti fremstir í flokki þeirra sem stunduðu mannkynbætur og rasíska hugmyndafræði um betrumbætingu síns kynstofns. Þeir hleyptu svo að segja engum Gyðingum inn í landið þó að þeir flýðu neyð heima fyrir og ættu auma tíð og jafnvel dauða fyrir höndum á sínum slóðum.

Mest er nú samt hneykslunarverð sú fyrirlitlega og aumingjalega afstaða sem Svíar tóku í Seinni heimsstyrjöldinni. Framan af stríði voru sænsk stjórnvöld alls ekki fráhverf Hitlers-Þýskalandi og Svíar gerðu nákvæmlega ekkert til þess að koma nágrönnum sínum í Danmörku og Noregi til hjálpar í þeirra þrengingum. Þvert á móti var Svíþjóð meðal þeirra landa sem átti hvað stærstan hlut í því járni sem flutt var til Þýskalands og notað í vopnaframleiðslu þar og þar að auki leyfðu Svíar, án nokkurrar mótstöðu, stöðuga flutninga á herliði nasista í gegnum Svíþjóð til að þeir kæmust til sinna hernumdu svæða í Noregi. Svíar lögðu því drjúga hönd á plóginn við uppgang og viðhald nasismans og sænskir nýnasistar mega í dag vera stolti af sínum mönnum á styrjaldarárunum.

Svo þegar halla fór að taka undan fæti hjá Þjóðverjum í stríðinu og eftir að stríðið tapaðist hjá þeim þá dustuðu Svíar yfir þetta allt saman og fögnuðu rosamikið með samveldunum og þóttust alltaf hafa staðið með þeim. Svipaða sögu mátti segja af Frökkum samkvæmt þeirri sögu sem ég las eitt sinn um þeirra land. Frakkar og Svíar eru minni menn fyrir vikið að hafa bugtað sig fyrir illum öflum og meira að segja grætt vel á þeim (í sænska tilvikinu alla vega) en þykjast síðan ekkert af því vita þegar þeir eru spurðir eftir á.

Og enn eimir eftir af þessari hlutleysisstefnu Svía sem þó í rauninni snýst ekki um annað en að halda með þeim sem best hentar viðskiptahagsmunum og gróðafíkn Svía. Þannig er það nú bara (jæja, kannski ekki alveg - en samt).

7.1.06

Historien om Sverige: Från istid till framtid eftir Herman Lindqvist

Eftir að hafa hlustað á samtals tæpan sólarhring (23 tíma) af Svíþjóðarsögu frá ísöld til seinni heimsstyrjaldar er ég allnokkru fróðari um hitt og þetta (vona ég). Hins vegar kemur upp í huga minn þegar að maður var í Íslandssögutímum hér áður fyrr og dæsti yfir því að aldrei neitt spennandi eða dramatískt hefði gerst í fortíð Íslands - engin almennileg stríð eða neitt svoleiðis. Hins vegar sé ég það núna eftir að hafa hlustað á þessa 23 klukkutíma að ég hefði átt að vera þakklátur. Þessi upptalning á endalausum stríðum gegnum aldirnar með tilheyrandi tímabundnum smátilfæringum í landamæralínum verða að lokum allnokkuð þreytandi og mann fer að þyrsta í fróðleik um það hvernig aðrir borgarar landsins en einhverjir einstaka stríðsóðir kóngar og marskálkar höfðu það.

En samt fannst mér nú svona í heildina gaman að hlusta á þetta. Framsetningin vissulega örlítið gamaldags (með tilheyrandi áherslum á stríðsártöl og upptalningar á kóngum) en maður getur kannski eftir þetta skilið á milli Gústafs Vasa, Gústaf II Adolfs og Gústafs III til dæmis. Hvers vegna reyna kóngar ekki annars að heita svolítið fjölbreyttari nöfnum svo maður rugli þeim ekki alltaf saman?! Er þetta ekki dæmigert fyrir enn einn ógreiðann sem það forréttindaslekti hefur gert almenningi í gegnum aldirnar?

Skemmtilega fræðandi, sem sagt

2.1.06

Völundarhús valdsins eftir Guðna Th. Jóhannesson

Fyrir íslenska stjórnmála- og sagnfræðinga er áttundi áratugurinn í íslenskum stjórnmálum afskaplega „girnilegur“ tími. Íslendingar stóðu ekki bara í tveimur Þorskastríðslotum, svæsnustu milliríkjadeilum sínum um áratuga- og jafnvel aldabil, heldur má líka með sanni segja að með reglulegu millibili hafi allt logað stafnanna á milli í íslenskri flokkapólitík. Átökin náðu meira að segja inn í flokkanna, sérstaklega Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk sem báðir háðu erfið innri uppgjör á þessum örlagaríka áratug.

Það var því ekki laust við að hjá manni bærðist nokkur tilhlökkun þegar á haustdögum fréttist af útkomu bókar sagnfræðingsins Guðna Th. Jóhannessonar um stjórnarmyndanir og stjórnarslit og þátt Kristjáns Eldjárns forseta í þeim hildarleikjum öllum. Guðni hefur á undanförnum árum nokkuð sinnt áttunda áratugnum þar sem hann hefur meðal annars fjallað um Þorskastríðin út frá löngu tímabærum sjónarhóli - þ.e. án þeirrar þjóðrembu og þess hlutdræga stríðsæsings sem því miður einkennir mörg fyrri verk íslenskra fræðimanna og rithöfunda um átökin á Íslandsmiðum. Það má því, með vissri einföldun, segja að umfjöllun Guðna um Þorskastríðin sé meðal fyrstu tæku heimildanna á sviði sagnfræðilegra rannsókna á þeim.

Fyrri hugmyndum um Kristján kollvarpað
Trompið sem Guðni hafði í höndunum fyrir ritun þessarar bókar var aðgangur að einstökum heimildum; dagbókarfærslum forsetans frá embættistíð sinni. Mikið hefur verið rætt og ritað um efni bókar Guðna á liðnum haustmánuðum og því þarf vart að geta þess hér enn einu sinni að bókin varpar um margt nýju ljósi á forsetatíð Dr. Kristjáns Eldjárns og kollvarpar um leið að nokkru leyti þeirri ríkjandi hugmynd að Kristján Eldjárn sé eins konar táknmynd hins hlutlausa forseta sem fjarlægur er hinu pólitíska amstri á allan mögulega hátt.

Örlögin höguðu því þannig að Kristján neyddist, þvert á það sem áður hefur verið haldið fram, til þess að verða virkur þátttakandi í hinu pólitíska tafli um völdin og það verður ekki séð af efni þessarar bókar að hann hafi skort vilja eða getu til þeirrar þátttöku þegar að á reyndi. Það sést best á einbeittum ásetningi hans til þess að mynda utanþingsstjórnir bæði haustið 1979 og í ársbyrjun 1980 sem, ef af hefði orðið, hefði vafalaust gert hann, að dómi sögunnar, að pólitískasta forseta af öllum sem setið hafa. Þá má ekki vanmeta umdeildar ákvarðanir sem hann tók, eins og undirskrift við þingrofið 1974 og ákvörðun hans um að veita Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, stjórnarmyndunarumboð 1978.

Sanngirni eða ósanngirni?
Varðandi síðara atvikið þá er erfitt fyrir ungan mann eins og þann sem þetta ritar (og sem fæddist sama ár og Lúðvík fékk umboðið) að gera sér grein fyrir þvílíkri hneykslun það mætti meðal hinna borgaralegu afla þjóðfélagsins, einkum inni á ritstjórn Moggans, að formanni sósíalistaflokks skyldi veitt umboð til stjórnarmyndunar. Maður spyr sig, í einfeldni sinni, hvort að það sé ekki að sama skapi merkilegt að forsetanum hafi fundist ástæða til þess fresta því í lengstu lög að veita Lúðvík umboðið og ráðfæra sig sérstaklega við sína persónulegu ráðgjafa og vini áður en hann steig það skref?

Má ekki eins segja að það lýsi ekki beint hlutlausum forseta að hann bíði með það eins lengi og hann telur sér stætt að veita Alþýðubandalaginu umboð til stjórnarmyndunar og þurfi þá meira að segja að láta sannfæra sig sérstaklega um að það sé forsvaranlegt? Hefði Kristján fylgt algjöru hlutleysi hefði átt að koma að Alþýðubandalaginu á undan Alþýðuflokknum í stjórnarmyndunar-goggunarröðinni í kjölfar kosninganna 1978 þar sem flokkurinn hafði meira fylgi á bakvið sig í kosningunum nýafstöðnu. Þannig má alveg eins færa rök fyrir því að forsetinn hafi ekki að öllu hundsað viðvaranir Moggaveldisins heldur líka að mörgu leyti tekið tillit til þeirra og farið eftir þeim með því að fresta því ef til vill óeðlilega lengi að veita Lúðvík Jósepssyni stjórnarmyndunarumboð 1978.

Alþýðubandalagið og Afganistan
Þessu tengt þá er það auðvitað líka merkilegt, og að mörgu leyti hjákátlegt, fyrir kynslóð ungs fólks í dag að lesa um það hversu öfgafull og æsingaróð andstæð öfl á hinum pólitíska ási voru og hversu ómálefnalegur og langsóttur stríðsæsingur litaður af kalda stríðinu fékk að vaða uppi. Vegna efni þessarar bókar eru flest dæmin um slík dæmalaus upphlaup úr röðum sjálfstæðismanna og af síðum Morgunblaðsins. Maður veit til að mynda ekki hvort maður á að nota lýsingarorðið hlægilegt eða sorglegt í sambandi við þær tengingar sem borgaralegu öflin gera á milli þátttöku Alþýðubandalagsins í stjórnarmyndun uppi á Íslandi annars vegar og innrásar Sovétríkjanna í Afganistan og handtöku Sovétmanna á mannréttindafrömuðinum Andrej Sakharov hins vegar í árslok 1979.

Það verður þó að nefna í þessu samhengi að engin ástæða er til að halda að hin sósíalísku öfl eða Þjóðviljinn hafi stundað málefnalegri eða jarðbundnari málatilbúnað. Þá má vera að erfitt sé fyrir ungt fólk sem ekki upplifði þessa tíma að gera sér grein fyrir því andrúmslofti sem allt umlék á tímum stigmögnunar í kalda stríðinu, eins og þeirrar sem hófst með innrásinni í Afganistan og kjöri Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta rétt í kjölfairð. Það kann því að vera að kaldastríðsæsinginn megi skýra á marga lund en erfiðara er hins vegar að ætla sér að réttlæta hann sem vitræna samræðu pólitískra andstæðinga á milli. Þar standa orð Matthíasar Johannessens sem sagði að afloknu kalda stríðinu að það stríð „hefði gert okkur öll að verri mönnum“.

Að ganga óbundinn til kosninga
Margan lærdóm má draga af lestri þessarar bókar. Kannski hann þó helstan hversu varasamt það getur verið fyrir flokka og leiðtoga þeirra að vera búnir að lýsa því yfir í aðdraganda kosninga að þeir útiloki samstarf við ákveðna flokka. Slíkar yfirlýsingar bökuðu öllum flokkum mikil vandræði, sérstaklega á árunum 1978-80, þegar að nánast samfelld stjórnarkreppa ríkti á Íslandi.

Hana hefði ef til vill mátt leysa með auðveldari hætti ef ekki hefðu staðið í vegi yfirlýsingar og upphrópanir um að aðeins einn vegur sé fær og allir aðrir útilokaðir. Þetta ættu forystur stjórnmálaflokkanna að hafa í huga nú bæði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor og alþingiskosninga á næsta ári því það er aldrei að vita í hvaða vanda valdamenn rata, til að mynda þegar að óviðbúin niðurstaða kemur upp úr kjörkössunum.

Það að „ganga óbundinn til þessara kosninga“ er því ef til vill fremur vottur um skynsamlega afstöðu og yfirlýsing um vilja til ábyrgðar og áhrifa en að þar sé um að ræða tækifærismennsku. Það er nefnilega rétt sem Guðni segir í niðurlagi bókar sinnar að þó að Íslendingar hafi upplifað stöðugleika í íslenskri landsmálapólitík undanfarinn hálfan annan áratuginn (og höfuðborgarbúar hafi átt skýra kosti í borgarstjórnarkosningum undanfarinn áratug eða svo) þá er ekkert sem bendir til þess að ringulreið sé að eilífu búin að kveðja íslensk stjórnmál.

Hápólitískt embætti
Að sama skapi er Völundarhús valdsins áminning um það að forsetaembættið er hápólitískt embætti sem ekki einu sinni Kristján Eldjárn, seinni tíma táknmynd og fyrirmynd hins „ópólitíska forseta“, fór varhluta af. Völundarhús valdsins mun eflaust eiga sinn þátt í því að kollvarpa þeim misskilningi síðari ára að forseti Íslands sé einungis puntudúkka á Bessastöðum sem ekkert geti sagt eða gert sem raunveruleg áhrif hefur á íslensk stjórnmál.

Raunar má halda því fram að rannsóknir Guðna gætu allt eins lagt lóð á þær vogarskálar að staða forsetaembættisins breytist og að næstu forsetakosningar taki ef til vill á sig svipaðan blæ og þekktist fyrir tíma Kristjáns Eldjárns, áður en misskilningurinn um hlutleysi og afskiptaleysi forseta Íslands af íslenskum stjórnmálum fór að gerast rótgróinn í þjóðmálaumræðunni á Íslandi.

Skýrir og eyðir misskilningi
Hið mikla og góða verk Guðna Th. Jóhannessonar skýrir því ekki aðeins til mikilla muna liðna atburði í íslenskum stjórnmálum. Völundarhús valdsins dregur einnig fram mikilvægar grundvallarstaðreyndir um sögulega hefð íslenskrar stjórnskipunar, eyðir misskilningi og hjálpar okkur við að greina samtíma okkar með skírskotun til nálægrar fortíðar.