Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

13.1.06

Historien om Sverige: Drömmar och verklighet eftir Herman Lindqvist

Ég sem hélt að þetta væri áframhald á Svíþjóðarsögu þar sem hinni sleppti og ég myndi því fræðast mikið um síðustu áratugi í Svíþjóð. Svo reyndist ekki vera. Þetta var allt saman frá fyrri hluta 20. aldar og mikið til sömu frásagnir og í hljóðbókinni miklu sem ég hlustaði á um daginn - bara í nokkuð lengra máli.

Margt kom nú samt athyglisvert fram. Til dæmis að Svíar voru að mörgu leyti fremstir í flokki þeirra sem stunduðu mannkynbætur og rasíska hugmyndafræði um betrumbætingu síns kynstofns. Þeir hleyptu svo að segja engum Gyðingum inn í landið þó að þeir flýðu neyð heima fyrir og ættu auma tíð og jafnvel dauða fyrir höndum á sínum slóðum.

Mest er nú samt hneykslunarverð sú fyrirlitlega og aumingjalega afstaða sem Svíar tóku í Seinni heimsstyrjöldinni. Framan af stríði voru sænsk stjórnvöld alls ekki fráhverf Hitlers-Þýskalandi og Svíar gerðu nákvæmlega ekkert til þess að koma nágrönnum sínum í Danmörku og Noregi til hjálpar í þeirra þrengingum. Þvert á móti var Svíþjóð meðal þeirra landa sem átti hvað stærstan hlut í því járni sem flutt var til Þýskalands og notað í vopnaframleiðslu þar og þar að auki leyfðu Svíar, án nokkurrar mótstöðu, stöðuga flutninga á herliði nasista í gegnum Svíþjóð til að þeir kæmust til sinna hernumdu svæða í Noregi. Svíar lögðu því drjúga hönd á plóginn við uppgang og viðhald nasismans og sænskir nýnasistar mega í dag vera stolti af sínum mönnum á styrjaldarárunum.

Svo þegar halla fór að taka undan fæti hjá Þjóðverjum í stríðinu og eftir að stríðið tapaðist hjá þeim þá dustuðu Svíar yfir þetta allt saman og fögnuðu rosamikið með samveldunum og þóttust alltaf hafa staðið með þeim. Svipaða sögu mátti segja af Frökkum samkvæmt þeirri sögu sem ég las eitt sinn um þeirra land. Frakkar og Svíar eru minni menn fyrir vikið að hafa bugtað sig fyrir illum öflum og meira að segja grætt vel á þeim (í sænska tilvikinu alla vega) en þykjast síðan ekkert af því vita þegar þeir eru spurðir eftir á.

Og enn eimir eftir af þessari hlutleysisstefnu Svía sem þó í rauninni snýst ekki um annað en að halda með þeim sem best hentar viðskiptahagsmunum og gróðafíkn Svía. Þannig er það nú bara (jæja, kannski ekki alveg - en samt).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home