Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

10.5.06

Homage to Catalonia eftir George Orwell

Það getur verið hættulegt að kaupa gagnrýnislaust hina alteknu söguskoðun sigurvegaranna. Í tilviki spænsku borgarastyrjaldarinnar voru það að vísu ekki sigurvegarar styrjaldarinnar sjálfrar sem hlutu góðu eftirmælin en þeir sigurvegarar voru hins vegar hluti af flokki fasískra alræðisafla sem nokkru síðar hlutu sín eilífu og verðskulduðu slæmu eftirmæli.

Í tilviki spænsku borgarastyrjaldarinnar eru það hin svokölluðu lýðræðisöfl sem hafa fengið stimpilinn ,,góðu kallarnir" í söguskoðun undanfarinna áratuga. Slík gagnrýnislaus söguskoðun er hins vegar engum holl, sérstaklega ekki í stríði þar sem reglan er yfirleitt sú að fáir eru jafn göfugir og góðir og þeir láta líta út fyrir eftir á.

Í þessu tilviki er því hressandi að kynnast hlið George Orwells í bók hans Homage to Catalonia þar sem hann segir frá þátttöku sinni í spænsku borgarastyrjöldinni þar sem að hann barðist með POUM-sveitum stjórnleysingja. Orwell gerir afar vel í þessari bók, sérstaklega með hliðsjón af ritunartíma sögunnar (lok 4. áratugarins), þegar að hann sýnir fram á góðar og slæmar hliðar allra fylkinga. Stríðið er því ekki svarthvítt í augum Orwells og lýðræðisöflin eru oft ekki hótinu skárri en fasistarnir í stefnu sinni og baráttuaðferðum.

Það sem dregur úr gæðum þessarar bókar er hin sérbreska kaldhæðni sem oflitar bókina og gefur henni yfirborðskenndan brag þar sem einlæg frásögn hefði átt mun betur við.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home