Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

11.3.06

Lasermannen: En berättelse om Sverige eftir Gellert Tamas

Patrick Bateman, aðalsöguhetja bókarinnar (og kvikmyndarinnar) American Psycho er einhver ógeðfelldasta persóna sem ég man eftir að hafa orðið vitni að í veröld skáldskaparins. Kannski var það vegna þess vegna hrottalega líkur hann var raunverulegum uppum á allan hátt. Ég nefni þetta vegna þess að morðóðir uppar eru ekki bara til í skáldskaparheimum. Einn slíkur var af holdi og blóði og gekk til myrkraverka sinna í Stokkhólmi, af öllum stöðum, veturinn 1991-2.

Maðurinn sá hét John Ausonius. Hann hafði þénað vel af verðbréfaviðskiptum í uppsveiflu níunda áratugarins og lifði góðu lífi sem einn af þessum nýríku uppum sem spruttu upp eins og gorkúlur á þessum tíma. Einn dag var hins vegar ævintýrið á enda: verðbréf á markaði hrundu í verði - góðæri níunda áratugarins hafði náð hámarki sínu. Ausonius tapaði miklum fúlgum eins og aðrir en var orðinn háður því að hafa mikið fé umleikis. Hann greip því stöðugt til örvæntingarfyllri aðgerða til þess að græða fljótt, byrjaði á fjárhættuspilum en áður en hann vissi af var hann farinn að fremja bankarán til þess að halda við lífsstíl sínum.

Í upphafi tíunda áratugarins var allt góðæri á bak og brott og í hennar stað var komin djúp efnahagskreppa í Svíþjóð. Svíar fylltust mikilli óvissu við þessar kringumstæður og, eins og þekkt er víðar í slíkum tilvikum, þá hófu popúlísk öfl að birtast á sjónarsviðinu og bjóða upp á skyndilausnir við vandanum. Og hver er besta leið popúlískra afla til vinsælda og hverjum kenna þau öllum vandanum um? Svar: innflytjendum, auðvitað!

Nýnasísk og þjóðernissinnuð öfl náðu því gríðarlegu fylgi meðal sænsku þjóðarinnar og loftið var vægast sagt læfi blandið enda kom til ofbeldisfullra átaka víða um Svíþjóð sem fullmannað lið lögreglu átti í mesta vanda við að ráða við og í sumum tilfellum datt mönnum helst í hug að kalla út herlið (sem vafalaust hefði verið gert, stríddi það ekki gegn sænskum lögum að nota herlið við borgaralegar aðstæður).

Smitaður af þessu andrúmslofti og langsóttri röksemdafærslu (sem þó gekk upp) ákvað Ausonius að ganga til verks, fá sér byssu með laser-miði og fara að skjóta innflytjendur. Ástæðurnar voru fyrst og fremst tvær: 1. Hann vildi fækka innflytjendum sem hann leit á sem einhvers konar meindýr í samfélaginu 2. Hann skaut fólk til að beina athygli lögreglunnar frá bankaránum sem hann framdi reglulega og hélt sér uppi á.

Ausonius náði að skjóta ellefu innflytjendur í Stokkhólmi og nágrenni veturinn 1991-2 áður en lögreglan náði loks að hafa hendur í hári hans. Til allrar hamingju leiddu árásirnar aðeins til dauða eins fórnarlambanna en þrátt fyrir það skapaðist ástand fullkominnar örvinglunar í sænsku höfuðborginni þennan vetur vegna skotárásanna síendurteknu sem lögreglunni tókst svona illa að bregðast við. Allt í einu var Stokkhólmur orðinn að Lundúnum Kobba kviðristu eða New York á sumri Sams - vettvangur fjöldamorðingja sem gekk laus. Enginn vissi hver yrði næstur.

Gellert Tamas, höfundi bókarinnar um þessa atburði, tekst á aðdáunarverðan hátt að draga upp spennandi og lifandi mynd af ástandinu. Tamas nýtir sér stíl glæpasögunnar við ritun bókarinnar og það er því ekki skrýtið að maður rífi innihald hennar í sig eins og um eðalkrimma væri að ræða. Lykilatriði bókarinnar eru þó einstök og ítarleg viðtöl sem Tamas átti við sjálfan fjöldamorðingjann sem nú situr á bak við lás og slá í sænsku fangelsi (og fer ekki þaðan í bráð). Tamas varð þar með eini blaðamaðurinn sem Ausonius hefur nokkru sinni fallist á að ræða við.

Árangur þessara samtala er einkar ítarleg mynd af morðingjanum, allt frá barnæsku hans og til þess dags þegar að lögreglan náði loks að handsama hann vorið 1992. Lesandinn fær meðal annars nákvæmar lýsingar morðingjans á voðaverkunum sjálfum.

Inn í allt þetta fléttar Tamas svo heildstæða og skilmerkilega mynd af sænsku aldarfari í upphafi tíunda áratugarins - tíma sem Svíar vilja helst sem minnst vita af í dag. Á þessum tíma grasseruðu útlendingahatur, öfgafull þjóðernisleg viðhorf og lýðskrum í sænsku þjóðfélagi. Viðhorfin náðu sem betur fer aldrei eins langt og sjá má í Danmörku í dag en þó voru þau að sumu leyti verri. Til dæmis grasseraði ofbeldi nýnasista á sænskum götum úti mun meira í Svíþjóð þessa tíma en heyrst hefur af í Danmörku á síðustu misserum.

Lasermannen skipar sér auðveldlega í hóp þess allra besta sem skrifað hefur verið undir merkjum hinnar svokölluðu Nýju blaðamennsku - þar sem að stílbrögðum skáldsögunnar er beitt til þess að varpa ljósi á raunverulega atburði. Lasermannen er skyldulesning allra sem gaman hafa af slíkum verkum og einnig þeirra sem vita vilja meira um afar nálæga fortíð í Svíþjóð - slæma tíma sem Svíar hafa lagt sig sérstaklega fram við að sópa sem mest og best yfir.


PS. Fyrir áhugasama má benda á að sýnd var leikin sjónvarpsþáttaröð, ásamt heimildarmynd, í Sænska ríkissjónvarpinu í haust sem byggir á bókinni og atburðum henni tengdri. Efni tengt þáttunum má finna á þessari vefslóð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home