Saturday eftir Ian McEwan
Ian McEwan er að verða einn af mínum uppáhaldshöfundum, þrátt fyrir að ég sé nú einungis nýbúinn að ljúka annarri bókinni minni eftir hann. Sjálfsagt felst aðdáunin að miklu leyti í þeim heljartökum sem McEwan hefur á stíl og framvindu sagna sinna en ég er samt sem áður á því að mest dáist ég að því lágstemmda yfirbragði sem einkennir bækur McEwans þar sem margt kraumar þó undir niðri. Ekki ætla ég nú að fara offari í líkingum við uppáhaldshöfund minn á íslensku, Braga Ólafsson, en þó eiga þeir þetta sameiginlegt með lágstemmda yfirbragðið með þunga undirliggjandi öldu.
Saturday vakti sérstaka eftirvæntingu í huga mínum þar sem að bókin er hluti af því sem kalla má ,,eftir 11. september"-list (post-9/11 á ensku) og snýst um viðbrögð listamanna og úrvinnslu á þeim atburðum og þeirri heimssýn sem upp hefur sprottið í kjölfar hryðjuverkanna afdrifaríku haustmorgun einn árið 2001. Lítið hefur farið fyrir slíkum verkum í íslenskum bókmenntum, Eiríkur Norðdahl sagði reyndar að Hugsjónadrusla hans félli í þennan flokk en ég greindi hins vegar allt önnur áhrif í þeirri bók.
,,Post-9/11"-einkenni Saturday felast einkum í þeirri undirliggjandi hræðslu og öryggisleysi sem búið hefur um sig í huga heilaskurðlæknisins Henry Perowne þrátt fyrir að allt gangi honum í haginn, bæði í einkalífi og starfi. Hann hefur einhverja ónotatilfinningu fyrir því að hann lifi við svikalogn og að hvenær sem er geti farið að hvessa allt í kringum hann þannig að allt fjúki um koll.
Saturday lýsir á nostursamlegan hátt laugardegi í lífi heilaskurðlæknisins þar sem McEwan beitir nánast ,,proustískri" nákvæmni til þess að varpa ljósi á hvern atburð dagsins. Og svo að Braga Ólafssyni sé nú aftur blandað í umfjöllunina þá kemur það skýrt fram bærði í Saturday og Hvíldardögum Braga að það getur oft verið mun flóknara að takast á við lífið á frídögum en á öðrum tímum. Dagur Perownes verður nefnilega mun átakanlegri og illviðráðanlegri en hann hafði nokkurn tíma gert sér í hugarlund í bítið þegar að hann reis úr rekkju.
McEwan lýsir viðburðum laugardagsins 15. febrúar 2003. Dagsetningin er fjarri því að vera tilviljunarkennd vegna þess að á þessum degi fóru fram fjölmennustu mótmæli í sögu Bretlands þegar að hundruð þúsunda (eða jafnvel á aðra milljón, alveg eftir því hverjir töldu) göngufólks þrammaði um stræti Lundúna til að mótmæla fyrirhugaðri innrás Bandamanna á Írak. Þrátt fyrir að Perowne telji sig ekki eiga beint erindi í gönguna þá setur hún mikið mark á atburðarás dagsins hjá honum.
Mótmælin verða einnig til þess að koma róti á huga Perownes. Perowne er því (æskilega) marki brenndur að því meira sem hann kynnir sér rökræður þeirra sem mæla með og á móti innrásinni þá vakna einungis fleiri spurningar og efinn eykst um að til sé einhver stóri-sannleikur eða afdráttarlaus afstaða. Hann ver því á mis málstað fylgjenda og andstæðinga innrásarinnar eftir því við hvern hann ræðir og eftir hvaða rökum hann veltir upp hverju sinni.
Kannski er djarft að halda eftirfarandi fram en það er engu að síður freistandi að velta því upp að þessar vangaveltur endurspegli efasemdir höfundarins um að rökræðurnar snúist um rétt gegn röngu, gott gegn illu, svart gegn hvítu. Hvað sem því líður þá er ekki ólíklegt að margir lesendur geti fundið sig í svipaðri aðstöðu. Hann á nefnilega glettilega oft við gamall botn úr íslenskri ferskeytlu: ,,Sá er viss í sinni sök/sá er ekkert skilur". Því meira sem fólk reynir að komast framhjá alhæfingum og slagorðum annarra í afstöðu sinni og reynir í stað að byggja upp eigin afstöðu, því líklegra er að fleiri spurningar vakni á leiðinni en að svör fáist.
Þetta er vel gert hjá McEwan. Það hefði verið lítið mál fyrir hann að búa til einhvern móralskan besserwisseratón þar sem Blair er kallaður bjáni en mótmælendur eru hafðir upp til skýjanna. Þess vegna verður ,,post-9/11"-þáttur bókarinnar á einhvern hátt ábyrgur og marktækur.
Eins og í Amsterdam, þá hefur McEwan greinilega lagt nokkuð á sig til þess að kynnast hugarheimi og vettvangi þeirrar atvinnugreinar sem aðalpersónan stundar. Þó að ég heillist persónulega meira af hugarheimi tónskáldsins í Amsterdam en heilaskurðlæknisins í Saturday þá er lýsingin ekki síðri og til meðmæla skal teljast að höfundi tókst að framkalla klígju hjá mér með mjög svo myndrænum lýsingum af heilauppskurðum.
Margt fleira gott væri hægt að segja um Saturday, bæði atburðarásina, uppbyggingu og bakland bókarinnar. Hér verður þó látið staðar numið en látið nægja að mæla mjög með Saturday. McEwan leggur hér fram mjög mikilvægt og gott framlag skáldsögunnar til umræðunnar um hina hröðu og oft miskunnarlausa atburðarás sem árásin á Tvíburaturnana hefur leyst úr læðingi.
Saturday vakti sérstaka eftirvæntingu í huga mínum þar sem að bókin er hluti af því sem kalla má ,,eftir 11. september"-list (post-9/11 á ensku) og snýst um viðbrögð listamanna og úrvinnslu á þeim atburðum og þeirri heimssýn sem upp hefur sprottið í kjölfar hryðjuverkanna afdrifaríku haustmorgun einn árið 2001. Lítið hefur farið fyrir slíkum verkum í íslenskum bókmenntum, Eiríkur Norðdahl sagði reyndar að Hugsjónadrusla hans félli í þennan flokk en ég greindi hins vegar allt önnur áhrif í þeirri bók.
,,Post-9/11"-einkenni Saturday felast einkum í þeirri undirliggjandi hræðslu og öryggisleysi sem búið hefur um sig í huga heilaskurðlæknisins Henry Perowne þrátt fyrir að allt gangi honum í haginn, bæði í einkalífi og starfi. Hann hefur einhverja ónotatilfinningu fyrir því að hann lifi við svikalogn og að hvenær sem er geti farið að hvessa allt í kringum hann þannig að allt fjúki um koll.
Saturday lýsir á nostursamlegan hátt laugardegi í lífi heilaskurðlæknisins þar sem McEwan beitir nánast ,,proustískri" nákvæmni til þess að varpa ljósi á hvern atburð dagsins. Og svo að Braga Ólafssyni sé nú aftur blandað í umfjöllunina þá kemur það skýrt fram bærði í Saturday og Hvíldardögum Braga að það getur oft verið mun flóknara að takast á við lífið á frídögum en á öðrum tímum. Dagur Perownes verður nefnilega mun átakanlegri og illviðráðanlegri en hann hafði nokkurn tíma gert sér í hugarlund í bítið þegar að hann reis úr rekkju.
McEwan lýsir viðburðum laugardagsins 15. febrúar 2003. Dagsetningin er fjarri því að vera tilviljunarkennd vegna þess að á þessum degi fóru fram fjölmennustu mótmæli í sögu Bretlands þegar að hundruð þúsunda (eða jafnvel á aðra milljón, alveg eftir því hverjir töldu) göngufólks þrammaði um stræti Lundúna til að mótmæla fyrirhugaðri innrás Bandamanna á Írak. Þrátt fyrir að Perowne telji sig ekki eiga beint erindi í gönguna þá setur hún mikið mark á atburðarás dagsins hjá honum.
Mótmælin verða einnig til þess að koma róti á huga Perownes. Perowne er því (æskilega) marki brenndur að því meira sem hann kynnir sér rökræður þeirra sem mæla með og á móti innrásinni þá vakna einungis fleiri spurningar og efinn eykst um að til sé einhver stóri-sannleikur eða afdráttarlaus afstaða. Hann ver því á mis málstað fylgjenda og andstæðinga innrásarinnar eftir því við hvern hann ræðir og eftir hvaða rökum hann veltir upp hverju sinni.
Kannski er djarft að halda eftirfarandi fram en það er engu að síður freistandi að velta því upp að þessar vangaveltur endurspegli efasemdir höfundarins um að rökræðurnar snúist um rétt gegn röngu, gott gegn illu, svart gegn hvítu. Hvað sem því líður þá er ekki ólíklegt að margir lesendur geti fundið sig í svipaðri aðstöðu. Hann á nefnilega glettilega oft við gamall botn úr íslenskri ferskeytlu: ,,Sá er viss í sinni sök/sá er ekkert skilur". Því meira sem fólk reynir að komast framhjá alhæfingum og slagorðum annarra í afstöðu sinni og reynir í stað að byggja upp eigin afstöðu, því líklegra er að fleiri spurningar vakni á leiðinni en að svör fáist.
Þetta er vel gert hjá McEwan. Það hefði verið lítið mál fyrir hann að búa til einhvern móralskan besserwisseratón þar sem Blair er kallaður bjáni en mótmælendur eru hafðir upp til skýjanna. Þess vegna verður ,,post-9/11"-þáttur bókarinnar á einhvern hátt ábyrgur og marktækur.
Eins og í Amsterdam, þá hefur McEwan greinilega lagt nokkuð á sig til þess að kynnast hugarheimi og vettvangi þeirrar atvinnugreinar sem aðalpersónan stundar. Þó að ég heillist persónulega meira af hugarheimi tónskáldsins í Amsterdam en heilaskurðlæknisins í Saturday þá er lýsingin ekki síðri og til meðmæla skal teljast að höfundi tókst að framkalla klígju hjá mér með mjög svo myndrænum lýsingum af heilauppskurðum.
Margt fleira gott væri hægt að segja um Saturday, bæði atburðarásina, uppbyggingu og bakland bókarinnar. Hér verður þó látið staðar numið en látið nægja að mæla mjög með Saturday. McEwan leggur hér fram mjög mikilvægt og gott framlag skáldsögunnar til umræðunnar um hina hröðu og oft miskunnarlausa atburðarás sem árásin á Tvíburaturnana hefur leyst úr læðingi.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home