Jónsbók eftir Einar Kárason
Ég kom sjálfum mér mikið á óvart með því að sækjast eftir að lesa þessa bók meðan á Íslandsdvölinni stóð og enn meira kom ég sjálfum mér á óvart að ég skyldi halda þennan 500 blaðsíðna doðrant út.
Vart þarf að kynna athafnamanninn Jón Ólafsson fyrir Íslendingum. Eitthvað varð til þess að ég var spenntur fyrir að kynna mér sögu hans og sérstaklega lék mér forvitni á því hvernig establisseraður skáldsagnahöfundur eins og Einar Kárason myndi taka á því verkefni að skrifa ævisögu kappans. Ég var jafnvel að vona að Einar hefði haft hugmyndaflug og skáldgáfu til þess að taka ævisagnaformið nýjum tökum og gæða sögu Jóns stíl og ferskleika hvað textann varðaði. Óhætt er að segja að hvað það varðar þá valdi verk Einars miklum vonbrigðum: skáldsagnahöfundinn færa er hvergi að sjá en þess í stað lækkar Einar sig um tign og gerist óbreyttur skrásetjari.
Yfirbragðið allt er gamaldags og lyktar af sama leiðinda-karlagrobbinu og gert hefur margar íslenskar ævisögur fortíðarinnar að óbærilegum lestri enda virðist tilgangurinn í slíkum sögum vera sá einn að segja fyndnar og skemmtilegar frægðarsögur af söguefninu. Tilgangurinn er þá sá að sýna fram á hversu vel viðkomandi er búinn þeim séríslensku kostum að vera aldrei með neitt helvítis kjaftæði, vinna myrkranna á milli þangað til að maður fær blæðandi magasár og vera útsmoginn og sýna hörku. Gamaldags karlmennska er dýrkuð til skýjanna og engar athugasemdir gerðir við það til dæmis að viðkomandi gefur sér engan tíma til þess að sinna fjölskyldu sinni vegna þess að honum finnst svo gaman í vinnunni.
Sérstaklega lyktar bókin af þessu framan af þar sem reynt er að gera mikið úr nauðaómerkilegri æsku og ungdómsárum Jóns Ólafssonar - ja, lífi sem alla vega er ekkert merkilegra en líf hvers annars ungs Íslendings. Þennan part bókarinnar hefði mátt stytta úr þeim sirka 200-250 blaðsíðum sem hann er niður í 40-50 síður. Raunar á það við um alla bókina að hún hefði haft gott af röskum ritstjóra sem hefði skorið hismið frá kjarnanum, sleppt öllum tilgangslausum frægðarsögum af Jóni sem skotið er inn í bara til að sýna hversu óborganlegur karakter hann Jón Ólafsson er. Öllu hefði vel mátt koma til skila á tæpum 300 blaðsíðum.
Þó er ekki svo að skilja að bókin sé alslæm, langt í frá. Það fer nefnilega að verða meira og meira varið í bókina eftir því sem líður á hana og helgast það af því að þá síaukast umsvif Jóns og þá er athyglisverðast að lesa um alla þá blóðugu baráttu sem á sér stað bak við tjöldin og um þau miklu völd sem í húfi eru í íslensku viðskiptalífi. Menn (þetta er heimur karlmanna!) svíkja bestu vini sína til þess að græða pening og stjórnmálamenn og -flokkar (mest megnis Sjálfstæðisflokkurinn) skiptir sér óhikað af. Mikil orka fer í það meðal valdamanna Sjálfstæðisflokksins að leggja hindranir í götu Jóns en þar á bæ er litið á hann sem óæskilega boðflennu inn í hið þegjandi samkomulag viðskiptalífsins og stjórnmálalífs á hægri kantinum að allt viðskiptalífið eigi að vera þægur þjónn Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu.
Lýsingarnar á þessu valdabrölti öllu bak við tjöldin er vafalaust langskemmtilegasti partur þessarar bókar og varð þess meira að segja valdandi að ég, sem ekki hef snefil af áhuga eða viti á viðskiptalífinu, heillaðist nokkuð af þessu ferli öllu.
Einar Kárason og fleiri lýstu því yfir við útkomu þessarar bókar að bókin væri algjörlega óháð og hlutlaus lýsing sem hvorki hygldi né smæði Jón Ólafsson frekar en aðra. Þetta stemmir þó ekki við lestur bókarinnar. Einar ræðir vissulega um öll mál við flesta þá sem við hann vildu ræða, bæði andstæðinga og samherja Jóns, en niðurstaðan í hverju máli er ætíð Jóni í hag hjá Einari og yfir öllu ríkir hetjublær Jóns sem er í augum Einars bara mjög góður kall þegar allt kemur til alls og allt annað byggir bara á misskilningi og einhverri öfund.
En þrátt fyrir ýmsa annmarka þá var þetta um margt fróðlegur lestur, einkum þegar líða tók á bókina og hún fór að segja sögu sem snerist um fleira en bara Jón sjálfan og hversu afbragðs skemmtilegur og merkilegur maður hann nú virðist vera í alla staði - ef marka má lesturinn.
Vart þarf að kynna athafnamanninn Jón Ólafsson fyrir Íslendingum. Eitthvað varð til þess að ég var spenntur fyrir að kynna mér sögu hans og sérstaklega lék mér forvitni á því hvernig establisseraður skáldsagnahöfundur eins og Einar Kárason myndi taka á því verkefni að skrifa ævisögu kappans. Ég var jafnvel að vona að Einar hefði haft hugmyndaflug og skáldgáfu til þess að taka ævisagnaformið nýjum tökum og gæða sögu Jóns stíl og ferskleika hvað textann varðaði. Óhætt er að segja að hvað það varðar þá valdi verk Einars miklum vonbrigðum: skáldsagnahöfundinn færa er hvergi að sjá en þess í stað lækkar Einar sig um tign og gerist óbreyttur skrásetjari.
Yfirbragðið allt er gamaldags og lyktar af sama leiðinda-karlagrobbinu og gert hefur margar íslenskar ævisögur fortíðarinnar að óbærilegum lestri enda virðist tilgangurinn í slíkum sögum vera sá einn að segja fyndnar og skemmtilegar frægðarsögur af söguefninu. Tilgangurinn er þá sá að sýna fram á hversu vel viðkomandi er búinn þeim séríslensku kostum að vera aldrei með neitt helvítis kjaftæði, vinna myrkranna á milli þangað til að maður fær blæðandi magasár og vera útsmoginn og sýna hörku. Gamaldags karlmennska er dýrkuð til skýjanna og engar athugasemdir gerðir við það til dæmis að viðkomandi gefur sér engan tíma til þess að sinna fjölskyldu sinni vegna þess að honum finnst svo gaman í vinnunni.
Sérstaklega lyktar bókin af þessu framan af þar sem reynt er að gera mikið úr nauðaómerkilegri æsku og ungdómsárum Jóns Ólafssonar - ja, lífi sem alla vega er ekkert merkilegra en líf hvers annars ungs Íslendings. Þennan part bókarinnar hefði mátt stytta úr þeim sirka 200-250 blaðsíðum sem hann er niður í 40-50 síður. Raunar á það við um alla bókina að hún hefði haft gott af röskum ritstjóra sem hefði skorið hismið frá kjarnanum, sleppt öllum tilgangslausum frægðarsögum af Jóni sem skotið er inn í bara til að sýna hversu óborganlegur karakter hann Jón Ólafsson er. Öllu hefði vel mátt koma til skila á tæpum 300 blaðsíðum.
Þó er ekki svo að skilja að bókin sé alslæm, langt í frá. Það fer nefnilega að verða meira og meira varið í bókina eftir því sem líður á hana og helgast það af því að þá síaukast umsvif Jóns og þá er athyglisverðast að lesa um alla þá blóðugu baráttu sem á sér stað bak við tjöldin og um þau miklu völd sem í húfi eru í íslensku viðskiptalífi. Menn (þetta er heimur karlmanna!) svíkja bestu vini sína til þess að græða pening og stjórnmálamenn og -flokkar (mest megnis Sjálfstæðisflokkurinn) skiptir sér óhikað af. Mikil orka fer í það meðal valdamanna Sjálfstæðisflokksins að leggja hindranir í götu Jóns en þar á bæ er litið á hann sem óæskilega boðflennu inn í hið þegjandi samkomulag viðskiptalífsins og stjórnmálalífs á hægri kantinum að allt viðskiptalífið eigi að vera þægur þjónn Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu.
Lýsingarnar á þessu valdabrölti öllu bak við tjöldin er vafalaust langskemmtilegasti partur þessarar bókar og varð þess meira að segja valdandi að ég, sem ekki hef snefil af áhuga eða viti á viðskiptalífinu, heillaðist nokkuð af þessu ferli öllu.
Einar Kárason og fleiri lýstu því yfir við útkomu þessarar bókar að bókin væri algjörlega óháð og hlutlaus lýsing sem hvorki hygldi né smæði Jón Ólafsson frekar en aðra. Þetta stemmir þó ekki við lestur bókarinnar. Einar ræðir vissulega um öll mál við flesta þá sem við hann vildu ræða, bæði andstæðinga og samherja Jóns, en niðurstaðan í hverju máli er ætíð Jóni í hag hjá Einari og yfir öllu ríkir hetjublær Jóns sem er í augum Einars bara mjög góður kall þegar allt kemur til alls og allt annað byggir bara á misskilningi og einhverri öfund.
En þrátt fyrir ýmsa annmarka þá var þetta um margt fróðlegur lestur, einkum þegar líða tók á bókina og hún fór að segja sögu sem snerist um fleira en bara Jón sjálfan og hversu afbragðs skemmtilegur og merkilegur maður hann nú virðist vera í alla staði - ef marka má lesturinn.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home