Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

30.8.06

Den femte kvinnan eftir Henning Mankell

Ein af þessum alveg hreint ágætu glæpasögum Mankells. Hlustaði á góðan upplestur sögunnar og ítreka ég hér með enn og aftur hversu hentugt það form er til inntöku glæpasagna sem maður hefði ómögulega nennt að eyða tíma í að lesa en er ágætt að hlýða á meðan maður bardúsar eitthvað annað.

Svosem ekki mikið meira um málið að segja. Bara fínt hjá Mankell.

29.8.06

The Brooklyn Follies eftir Paul Auster

Paul Auster sagði í viðtali vegna bókar sinnar Brooklyn Follies að hann skrifaði kómedíur þegar að hann væri illa stemmdur en tragedíur þegar að hann væri vel stemmdur. Og þar sem að Paul Auster hefur lýst því hversu hryðjuverkin 11. september 2001 og aðgerðir Bandaríkjastjórnar í kjölfarið hafi skilið hann eftir í losti og djúpu þunglyndi þá lá það beinast við fyrir hann að skrifa kómedíu til þess að lyfta sér upp.

Afraksturinn er Brooklyn Follies. Einhver útgefenda Austers reyndi að auglýsa bókina með því að segja: ,,Auster goes Woody Allen" og mér finnst það bara nokkuð vel til fundið. Brooklyn Follies minnir nefnilega ekki lítið á glettnar New York-sögur Allens þegar að hann var upp á sitt besta. Svona virkilega vel skrifaðar fíl-gúdd-sögur.

Sagan segir frá Nathan sem er kominn á ,,early retirement" eins og það heitir á ensku. Hann er í byrjun mjög í stíl aðalsöguhetja margra bóka Austers; einfari sem á nógan pening til þess að hafa efni á því að gera ekkert annað en að loka sig af frá umheiminum og sinna sínu grúski. Hann er búinn að fá leið á lífinu og sest að í Brooklyn til þess að fá að hrörna þar í friði, fýldur og kaldhæðinn.

Hann rekst síðan af tilviljun á Tom, systurson sinn á förnum vegi. Systursonurinn hefur lent á hálfgerðu blindskeri í lífinu eftir að hafa verið vel á veg kominn með sinn akademíska feril. Nú er hann hins vegar farinn að keyra leigubíl í New York og síðan í framhaldinu standa vaktina í bókabúð. Þeir taka að bralla ýmislegt saman og í lið þeirra bætist síðan systurdóttir Toms, hin ellefu ára gamla Lucy.

Sumir eru viðkvæmir fyrir því að atburðarás sagna sé rakin of nákvæmlega áður en þeir lesa hana sjálfir og því skal hér staðar numið í frásögn plottsins. Þó skal því bætt við að, og það verður þá bara að hafa það að ég upplýsi það, að allt endar í miklum blóma og veröldin brosir við Nathan á síðustu blaðsíðu bókarinnar - að morgni fagurs haustdags í New York: 11. september 2001. Ekki þarf hálærðan bókmenntafræðing til að sjá hvaða andstæður Auster er þar að draga fram: Lífið var gott þangað til þarna um miðbik morguns hins örlagaríka 11. september en eftir það fór allt til fjandans og sú staða ríkir enn óbreytt á ritunartíma þessarar bókar (útg. 2005).

Bush fær sínar sneiðar í bókinni. Allar vitibornar persónur bókarinnar standa með Al Gore (eða jafnvel Ralph Nader) í forsetakosningunum haustið 2000 en fulltrúi síkópatanna hans Bush er frelsaður öfgakristinn suðurríkjahillíbillí sem læsir systur Toms inni mánuðum saman á heimili þeirra vegna þess hversu illa gengur að fá hana til þess að gerast leiðitöm stjörnuklikkuðum sértrúarsöfnuði sem að frelsinginn tilheyrir.

Hér er því um rammpólitíska bók að ræða og drungalegur botnstraumurinn undir ljúfri kómedíunni er þungur og kraftmikill. Hæglega má setja hana í flokk með svokölluðum eftir-11. september-bókum (post-9/11 literature) en fleiri bækur mætti gjarnan bætast í þann flokk enda er fáar raddir mikilvægari á slíkum umbrotatímum sem nú ríkja í heiminum en raddir rithöfunda sem geta, þegar vel tekst til, hrist ærlega upp í lesendum sínum með úthugsuðum sjónarhornum og vel orðuðum nálgunum.

Brooklyn Follies fer hiklaust í hæsta klassa meðal bóka Austers (af þeim fáu sem ég hef lesið raunar). Vonandi gefa bandarísk stjórnmál Auster síðan tækifæri til þess að skrifa tragedíu næst. Það bendir nú reyndar fátt til þess í augnablikinu.

16.8.06

On the Road eftir Jack Kerouac

Ég man ekki hvenær að ég heyrði fyrst minnst á On the Road, hina frægu vegasögu Jack Kerouacs en ég man hins vegar eftir mörgum tilvikum þar sem maður hefur hlustað á stórkarlalegar lýsingar á efni bókarinnar og ekki síður á höfundinum og öllu ruglinu og vitleysunni sem hann tók upp á á sinni viðburðaríku ævi.

Satt best að segja varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum með On the Road. Kannski hún hefði virkað betur á mig ef ég hefði lesið hana en ekki hlustað á hana lesna upp en þó vil ég halda það að góðar bækur ættu ekki að tapa svo miklu á milli tveggja forma sem til eru til þess að njóta bókmennta. Ég bjóst við flottri framvindu og glæsilegri frásögn þessarar háklassísku töffarabókar en í staðinn fannst mér þetta oft og tíðum vera lítið meira en eintóna fyllerísröfl og frægðarsögur af alls konar sniðugu og skemmtilegu flippi í ungu fólki sem finnst gaman að rasa út.

Kannski hefði ég haft meiri þolinmæði fyrir þessu á þeim tíma sem að maður var einmitt að hlusta á frægðarsögur af þessari miklu bók, svona í kringum rúmlega tvítugt þegar að maður var líka alltaf úti á lífinu og fannst rosa gaman að heyra um og segja sjálfur sögur sem byrja á setningunni: ,,Djöfull var ég fullur, maður!"

En hvort sem það er það eða eitthvað annað, þá alla vega mátti ég hafa mig allan við að hlusta til enda á allar ,,djöfull var ég fullur, maður"-sögurnar af Kerouac og félögum hans. En kannski er málið bara líka það að allt þetta í bókinni sem hneykslaði rosalega á sínum tíma hljómar eins og úr sunnudagaskólastund miðað við það sem úir og grúir af út um allt í bókmenntum nútímans. Þannig að sú ögrun sem í efni bókarinnar fólst hér áður fyrr er löngu horfin og þá stendur restin kannski svolítið fátækleg eftir.

On the Road voru sem sagt vonbrigði. En ég ætla samt að reyna mig við Big Sur líka og sjá hvort mér finnst það skárra.