Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

30.5.05

Gangandi íkorni eftir Gyrði Elíasson

Það er nú alveg nauðsynlegt fyrir merkikerti með upprennandi mastersgráðu að geta svarað með spekingslegu já-i þegar maður er spurðu hvort maður hafi ekki lesið Gyrði. Svo segir maður ekki meir, t.d. ekki það að maður hafi bara lesið eina bók eftir hann - og hana mjög stutta.

Ég er sem sagt búinn með nóvelluna Gangandi íkorna eftir Gyrði sem kom út 1987. Fer vel á því að byrja á henni þar sem hún er fyrsta skáldsaga hans. Þetta er ákaflega vel skrifuð bók, það hríslaðist um mig sama sælutilfinning yfir stílfegurðinni og orðkynnginni og þegar ég las (eða hlustaði á öllu heldur) Veröld sem var í fyrra.

Bókin skiptist í tvo hluta; fyrst fylgjumst við með drengnum Sigmari sem er í sveit hjá eldri hjónum í afdölum en fyrr en varir færist leikurinn yfir í fantasíuheima íkorna og annarra dýra í umhverfi þar sem ógnin er undirliggjandi.

Þessi fyrsta bók mín eftir Gyrði lofaði góðu og kannski maður grípi bara fljótlega í framhaldssöguna (Næturluktina) um þá Sigmar og íkornann, aðalpersónur í sitt hvorum heiminum.

21.5.05

The Curious Incident of the Dog in the Night-Time eftir Mark Haddon



Það er alltaf sama sagan þegar maður tekur sér í hendur bók sem allir eru búnir að lesa og allir hafa mært upp til skýjanna: Maður verður svolítið hræddur um að verða sjálfur fyrir vonbrigðum. Þannig var það með bókina sem ber hið ógnarlanga nafn The Curious Incident of the Dog in the Night-Time (sem á íslensku nefndist Undarlegt háttalag hunds um nótt ef ég man rétt).

Það er hins vegar skemmst frá því að segja að sagan með einhverfa unglingsdrenginn Christopher í forgrunni grípur mann eiginlega strax frá fyrstu síðu. Þrátt fyrir þá staðreynd að ég þekki lítið sem ekkert til nákvæmra einkenna einhverfu þá leyfi ég mér samt að fullyrða að persónusköpun Marks Haddon, höfundar bókarinnar, á aðalpersónunni Christopher er alveg hreint ótrúlega sannfærandi. Í einhverri grein sem ég las um bókina á sínum tíma minnir mig að fram hafi komið að Haddon hafi starfað töluvert með einhverfum gegnum tíðina. Það kemur ekki á óvart enda er myndin sem hann dregur upp svo trúverðug og heilsteypt að réttast væri að athuga Haddon sjálfan og hvort það geti nokkuð verið að hann hafi kannski óeðlilega mikinn áhuga á stærðfræðiformúlum, lestaráætlunum eða svartholum.

Sagan er í upphafi spæjarasaga Christophers þar sem aðalviðfangsefnið er morðgátan um það hver það var sem drap hund nágrannans með því að reka hann í gegn með sting. Eins og í öllum góðum spæjarasögum vindur hins vegar atburðarásin upp á sig og fyrr en varir verða fyrir Christopher afhjúpanir á hverju horni, þó að leikurinn færist ef til vill nokkuð víðar út um völl en sögumann okkar óraði fyrir í upphafi.

Yfir og allt um kring er svo þessi enski tónn sem fáir aðrir ná en innfæddir: Einhver blanda af kímni og kaldhæðni en líka nærgætni og skilningi - allt í alveg nákvæmlega réttum hlutföllum. Öðrum þjóðum tekst yfirleitt að klúðra svona hlutum með of stórum skammti af væmni eða smekkleysu eða annars konar lítilsvirðingu fyrir viðfangsefninu. En Bretum er treystandi fyrir svona löguðu (í skáldskap alla vega).

Þetta er saga sem á sín Whitbread-verðlaun svo sannarlega skilin og alla sína lofsamlegu dóma. Þannig að um hina frábæru The Curious Incident of the Dog in the Night-Time má með sanni segja: DO believe the hype! Þessa verða allir að lesa.

17.5.05

Två nötcreme och en moviebox eftir Filip Hammar og Fredrik Wikingsson



Tveir strákar setjast niður og ákveða að skrásetja það sem einkenndi æsku þeirra sem ólust upp á níunda áratugnum og voru unglingar í upphafi þess tíunda. Gæti verið skemmtilegt, segir nostalgískur maður á þrítugsaldri við sjálfan sig sem minnist einmitt uppvaxtar á sama tíma. Hefst svo lesturinn:

Þeir Filip og Fredrik segja frá uppvexti sínum og rifja upp með lesendum sínum allt það týpískasta úr þroskaferli, umhverfi og dægurmenningu þeirra sem fæddust á áttunda áratugnum og slitu barnsskónum á þeim níunda og voru á gelgjunni í upphafi þess tíunda. Margt í bókinni er alveg hreint bráðsmellið og greinilegt er að um margar minningar geta sænskir fyrrverandi unglingar sameinast íslenskum stallsystkinum sínum. Í það minnsta man ég líka eftir byltingu vídeótækisins, ofnotkun á rakspíra á ákveðnu tímabili, yfirlegu yfir heimsmetabók Guinness og stórhuga plönum um að komast í þá merku bók, mjög fátæklegu úrvali fjölmiðla,
Fyrirmyndarföður með Bill Cosby og svo mætti áfram telja. Og svo skiptir maður bara sænskum íshokkíminningum út fyrir íslenskar handboltaminningar og rifjar upp B-keppnina '89 og fleira í þeim dúr og þá er þetta bara komið.

Þeir félagarnir tala í léttum dúr um Svíþjóð æsku sinnar sem DDR-Sverige, frumstætt land hafta og forsjárhyggju með klunnalega tækni og mikinn ríkisbúskap. Kannski ekki alveg galið - á sama hátt mætti þá tala um Sovét-Ísland á sama tíma: Bjórinn var jú bannaður, bara ein sjónvarpsstöð sem sendi ekki út á fimmtudögum og ekki í júlí, bannað að hafa matvöruverslanir opnar á kvöldin í Reykjavík (sem þýddi straum borgarbúa í Vegamót á Nesvegi, Seltjarnarnessmegin við bæjarmörkin) og svo mætti áfram telja.

Þetta nostalgíukast sænsku tvímenninganna hjálpar manni við að rifja upp ýmislegt stórskrýtið og skemmtilegt og alveg ótrúlega eitís sem maður var löngu búinn að gleyma og sumir kaflanna eru bráðsmellnir hjá þeim. En öllu má nú of gera og 269 blaðsíðna nostalgíukast er einum of mikið af því góða, sérstaklega þegar að höfundana skortir nokkuð mikið upp á rithöfundarhæfileika sína. Þannig að þetta varð leiðinlegt til lengdar og manni var farið að líða eins og þegar maður þarf að þola framhleypinn egóista heila kvöldstund tala um sjálfan sig í stanslausum vaðli án þess að hleypa nokkrum öðrum að.

Þannig að þrátt fyrir einstaka skemmtilegar og hnyttnar upprifjanir úr nálægri fortíð okkar uppeldissystkina níunda áratugarins þá skuluð þið nú alveg endilega sleppa því að leggja á ykkur kúrsa og framhaldskúrsa í sænsku til þess að ná því markmiði að renna ykkur í gegnum bókina Två nötcreme och en moviebox. Finnið frekar bara til gömul ABC og Æskublöð og látið ósvikna nostalgíu hríslast um ykkur yfir Æskuvanda eða viðtali við Einar Vilhjálmsson spjótkastara.

14.5.05

Hugsjónadruslan eftir Eirík Örn Norðdahl



Hvað skal segja um Hugsjónadrusluna hans Eiríks? Það er alltaf dálítið pínlegt að tjá sig um verk fólks sem maður þekkir dálítið, sérstaklega ef maður ætlar sér að reyna að segja eins og er í stað þess að smjaðra bara. Þá er alla vega gott að hafa fyrir framan sig bók sem virkilega er fín án þess að maður þurfi að hvítljúga því.

Það eina sem ég hafði lesið eftir Eirík fram að þessu (fyrir utan bloggið hans) voru stílæfingar sem hann seldi manni fyrir bjór fyrir nokkrum árum síðan og svo einhverja svona kerouacska upplestra á háskólakvöldum í Hlaðvarpanum og á viðlíka stöðum. Margt af því var allt í lagi svona en síðan þá hefur greinilega mikið vatn runnið út í Skutulsfjörð (haha!) því að Hugsjónadruslan, frumsmíð hans meðal establiseraðra skáldverka, er stórgóð bók.

Ekki það að ég skilji beint tenginguna við þau vatnaskil sem 11. september á að hafa valdið í þankagangi og heimssýn sögupersóna - mér hefur alltaf þótt sá viðburður vera mjög svo ofmetinn sem orsakavaldur nýrra tíma. Ég held með öðrum orðum að fátt í heimsmynd sögunnar hefði verið öðruvísi þó að flugvélarnar hefðu haldið sig á fyrirframákveðinni flugleið þarna um árið. Mér þætti alveg eins viðeigandi, og jafnvel miklu frekar, að nefna til sögunnar félagsfræðilegar pælingar undanfarinna ára, eins og Bowling Alone-stúdíu Putnams þar sem einangrun og firring nútímasamfélags er til umræðu. Eða þá bækur Houellebeqs og fleiri slíkra þar sem umfjöllunarefnið er flótti frá raunheimum yfir í einhvers konar sæberheima og hversu óhöndlanlegur og óhentugur raunveruleikinn getur verið og hversu hæfileikar okkar til mannlegra samskipta virðast um margt hafa hnignað.

Þannig mætti alla vega kannski túlka örlög Þrándar sem höndlar samrúnk á netinu mun betur en allsgáð samskipti í raunveruleikanum. En nú er ég algjörlega kominn fram úr sjálfum mér í fræðilegu besservissi.

En það er samt ýmislegt í þessa veru sem gerir bókina góða. Það er eitthvað hreinskiptið og aktúellt við hana. Stundum finnst manni sannleikur best höndlaður í skáldskap af því að þar leyfist fólki að kafa dýpra og vera gagnorðara í skjóli skáldskapar. Það finnst mér þessari bók líka takast.

Hugsjónadruslan fær ekki alls ekki fullt hús. Hún er auðvitað mistæk. En það er á einhvern hátt ágætt því samkvæmt minni heimasmíðuðu kenningu þýðir það að Eiríkur er enn þá með horn sem hann hefur ekki enn hlaupið af sér. Megi það bíða sem lengst að Eiríkur verði miðaldra og hornin verði orðin að vel rúnnuðum brjósknöbbum og hann fari að skrifa sögulegar skáldsögur um galdrakarla á miðöldum fyrir vestan í þremur bindum - eins og allir hinir.

Þannig að Hugsjónadruslan er á einhvern hátt afar kærkomið og langþráð framlag til íslenskra bókmennta - svei mér þá ef ekki bara lífsnauðsynleg. Meira af svo góðu - og frá fleirum.