Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

14.5.05

Hugsjónadruslan eftir Eirík Örn Norðdahl



Hvað skal segja um Hugsjónadrusluna hans Eiríks? Það er alltaf dálítið pínlegt að tjá sig um verk fólks sem maður þekkir dálítið, sérstaklega ef maður ætlar sér að reyna að segja eins og er í stað þess að smjaðra bara. Þá er alla vega gott að hafa fyrir framan sig bók sem virkilega er fín án þess að maður þurfi að hvítljúga því.

Það eina sem ég hafði lesið eftir Eirík fram að þessu (fyrir utan bloggið hans) voru stílæfingar sem hann seldi manni fyrir bjór fyrir nokkrum árum síðan og svo einhverja svona kerouacska upplestra á háskólakvöldum í Hlaðvarpanum og á viðlíka stöðum. Margt af því var allt í lagi svona en síðan þá hefur greinilega mikið vatn runnið út í Skutulsfjörð (haha!) því að Hugsjónadruslan, frumsmíð hans meðal establiseraðra skáldverka, er stórgóð bók.

Ekki það að ég skilji beint tenginguna við þau vatnaskil sem 11. september á að hafa valdið í þankagangi og heimssýn sögupersóna - mér hefur alltaf þótt sá viðburður vera mjög svo ofmetinn sem orsakavaldur nýrra tíma. Ég held með öðrum orðum að fátt í heimsmynd sögunnar hefði verið öðruvísi þó að flugvélarnar hefðu haldið sig á fyrirframákveðinni flugleið þarna um árið. Mér þætti alveg eins viðeigandi, og jafnvel miklu frekar, að nefna til sögunnar félagsfræðilegar pælingar undanfarinna ára, eins og Bowling Alone-stúdíu Putnams þar sem einangrun og firring nútímasamfélags er til umræðu. Eða þá bækur Houellebeqs og fleiri slíkra þar sem umfjöllunarefnið er flótti frá raunheimum yfir í einhvers konar sæberheima og hversu óhöndlanlegur og óhentugur raunveruleikinn getur verið og hversu hæfileikar okkar til mannlegra samskipta virðast um margt hafa hnignað.

Þannig mætti alla vega kannski túlka örlög Þrándar sem höndlar samrúnk á netinu mun betur en allsgáð samskipti í raunveruleikanum. En nú er ég algjörlega kominn fram úr sjálfum mér í fræðilegu besservissi.

En það er samt ýmislegt í þessa veru sem gerir bókina góða. Það er eitthvað hreinskiptið og aktúellt við hana. Stundum finnst manni sannleikur best höndlaður í skáldskap af því að þar leyfist fólki að kafa dýpra og vera gagnorðara í skjóli skáldskapar. Það finnst mér þessari bók líka takast.

Hugsjónadruslan fær ekki alls ekki fullt hús. Hún er auðvitað mistæk. En það er á einhvern hátt ágætt því samkvæmt minni heimasmíðuðu kenningu þýðir það að Eiríkur er enn þá með horn sem hann hefur ekki enn hlaupið af sér. Megi það bíða sem lengst að Eiríkur verði miðaldra og hornin verði orðin að vel rúnnuðum brjósknöbbum og hann fari að skrifa sögulegar skáldsögur um galdrakarla á miðöldum fyrir vestan í þremur bindum - eins og allir hinir.

Þannig að Hugsjónadruslan er á einhvern hátt afar kærkomið og langþráð framlag til íslenskra bókmennta - svei mér þá ef ekki bara lífsnauðsynleg. Meira af svo góðu - og frá fleirum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home