Två nötcreme och en moviebox eftir Filip Hammar og Fredrik Wikingsson
Tveir strákar setjast niður og ákveða að skrásetja það sem einkenndi æsku þeirra sem ólust upp á níunda áratugnum og voru unglingar í upphafi þess tíunda. Gæti verið skemmtilegt, segir nostalgískur maður á þrítugsaldri við sjálfan sig sem minnist einmitt uppvaxtar á sama tíma. Hefst svo lesturinn:
Þeir Filip og Fredrik segja frá uppvexti sínum og rifja upp með lesendum sínum allt það týpískasta úr þroskaferli, umhverfi og dægurmenningu þeirra sem fæddust á áttunda áratugnum og slitu barnsskónum á þeim níunda og voru á gelgjunni í upphafi þess tíunda. Margt í bókinni er alveg hreint bráðsmellið og greinilegt er að um margar minningar geta sænskir fyrrverandi unglingar sameinast íslenskum stallsystkinum sínum. Í það minnsta man ég líka eftir byltingu vídeótækisins, ofnotkun á rakspíra á ákveðnu tímabili, yfirlegu yfir heimsmetabók Guinness og stórhuga plönum um að komast í þá merku bók, mjög fátæklegu úrvali fjölmiðla,
Fyrirmyndarföður með Bill Cosby og svo mætti áfram telja. Og svo skiptir maður bara sænskum íshokkíminningum út fyrir íslenskar handboltaminningar og rifjar upp B-keppnina '89 og fleira í þeim dúr og þá er þetta bara komið.
Þeir félagarnir tala í léttum dúr um Svíþjóð æsku sinnar sem DDR-Sverige, frumstætt land hafta og forsjárhyggju með klunnalega tækni og mikinn ríkisbúskap. Kannski ekki alveg galið - á sama hátt mætti þá tala um Sovét-Ísland á sama tíma: Bjórinn var jú bannaður, bara ein sjónvarpsstöð sem sendi ekki út á fimmtudögum og ekki í júlí, bannað að hafa matvöruverslanir opnar á kvöldin í Reykjavík (sem þýddi straum borgarbúa í Vegamót á Nesvegi, Seltjarnarnessmegin við bæjarmörkin) og svo mætti áfram telja.
Þetta nostalgíukast sænsku tvímenninganna hjálpar manni við að rifja upp ýmislegt stórskrýtið og skemmtilegt og alveg ótrúlega eitís sem maður var löngu búinn að gleyma og sumir kaflanna eru bráðsmellnir hjá þeim. En öllu má nú of gera og 269 blaðsíðna nostalgíukast er einum of mikið af því góða, sérstaklega þegar að höfundana skortir nokkuð mikið upp á rithöfundarhæfileika sína. Þannig að þetta varð leiðinlegt til lengdar og manni var farið að líða eins og þegar maður þarf að þola framhleypinn egóista heila kvöldstund tala um sjálfan sig í stanslausum vaðli án þess að hleypa nokkrum öðrum að.
Þannig að þrátt fyrir einstaka skemmtilegar og hnyttnar upprifjanir úr nálægri fortíð okkar uppeldissystkina níunda áratugarins þá skuluð þið nú alveg endilega sleppa því að leggja á ykkur kúrsa og framhaldskúrsa í sænsku til þess að ná því markmiði að renna ykkur í gegnum bókina Två nötcreme och en moviebox. Finnið frekar bara til gömul ABC og Æskublöð og látið ósvikna nostalgíu hríslast um ykkur yfir Æskuvanda eða viðtali við Einar Vilhjálmsson spjótkastara.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home