Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

21.5.05

The Curious Incident of the Dog in the Night-Time eftir Mark Haddon



Það er alltaf sama sagan þegar maður tekur sér í hendur bók sem allir eru búnir að lesa og allir hafa mært upp til skýjanna: Maður verður svolítið hræddur um að verða sjálfur fyrir vonbrigðum. Þannig var það með bókina sem ber hið ógnarlanga nafn The Curious Incident of the Dog in the Night-Time (sem á íslensku nefndist Undarlegt háttalag hunds um nótt ef ég man rétt).

Það er hins vegar skemmst frá því að segja að sagan með einhverfa unglingsdrenginn Christopher í forgrunni grípur mann eiginlega strax frá fyrstu síðu. Þrátt fyrir þá staðreynd að ég þekki lítið sem ekkert til nákvæmra einkenna einhverfu þá leyfi ég mér samt að fullyrða að persónusköpun Marks Haddon, höfundar bókarinnar, á aðalpersónunni Christopher er alveg hreint ótrúlega sannfærandi. Í einhverri grein sem ég las um bókina á sínum tíma minnir mig að fram hafi komið að Haddon hafi starfað töluvert með einhverfum gegnum tíðina. Það kemur ekki á óvart enda er myndin sem hann dregur upp svo trúverðug og heilsteypt að réttast væri að athuga Haddon sjálfan og hvort það geti nokkuð verið að hann hafi kannski óeðlilega mikinn áhuga á stærðfræðiformúlum, lestaráætlunum eða svartholum.

Sagan er í upphafi spæjarasaga Christophers þar sem aðalviðfangsefnið er morðgátan um það hver það var sem drap hund nágrannans með því að reka hann í gegn með sting. Eins og í öllum góðum spæjarasögum vindur hins vegar atburðarásin upp á sig og fyrr en varir verða fyrir Christopher afhjúpanir á hverju horni, þó að leikurinn færist ef til vill nokkuð víðar út um völl en sögumann okkar óraði fyrir í upphafi.

Yfir og allt um kring er svo þessi enski tónn sem fáir aðrir ná en innfæddir: Einhver blanda af kímni og kaldhæðni en líka nærgætni og skilningi - allt í alveg nákvæmlega réttum hlutföllum. Öðrum þjóðum tekst yfirleitt að klúðra svona hlutum með of stórum skammti af væmni eða smekkleysu eða annars konar lítilsvirðingu fyrir viðfangsefninu. En Bretum er treystandi fyrir svona löguðu (í skáldskap alla vega).

Þetta er saga sem á sín Whitbread-verðlaun svo sannarlega skilin og alla sína lofsamlegu dóma. Þannig að um hina frábæru The Curious Incident of the Dog in the Night-Time má með sanni segja: DO believe the hype! Þessa verða allir að lesa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home