Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

10.8.05

Chronicles: Volume One eftir Bob Dylan

Hvað er svalara en Sean Penn að lesa endurminningar Bob Dylans? Ýmislegt, svosum - en ansi svalt er það nú samt sem áður. Undanfarið hef ég einmitt verið að hlýða á Sean lesa upp fyrsta bindi Krónika Bob Dylans sem komu út í bókarformi síðasta haust.

Ég minnist þess að hafa í upphafi verið tortrygginn á endurminningar Bob Dylans skrifaðar af honum sjálfum. Hann hefur verið æði misjafnur svona á síðari tímum, karluglan, og mínir fordómar gerðu ráð fyrir því að ef til vill væri hann orðinn einum of sósaður í hausnum eftir allt hassið gegnum tíðina til þess að hann gæti haldið almennilega þræði og hvað þá verið góður sögumaður. En lengi lifir í gömlum glæðum.

Krónikan fannst mér nefnilega þrælskemmtileg á að hlýða og Bob Dylan er þar aldeilis í essinu sínu - gott ef hann er ekki bara á betri sprett sem rithöfundur en tónlistarmaður um þessar mundir ef eitthvað er að marka þessa bók. Dylan sviptir lesandanum fram og aftur í tíma en dvelur þó einkum við þau ár sín í bransanum þegar hann er að hasla sér völl sem tónlistarmaður.

Af minningum hans frá öðrum tímabilum er sérstaklega skemmtilegt að lesa um hversu illa honum virðist hafa verið við að vera gerður að einhvers konar boðbera hippakynslóðarinnar en honum finnst hann vera alveg hryllilega á skjön við þann hóp og vill ekkert af honum vita - vill bara fá að vera í friði að gera sína tónlist og sinna sinni fjölskyldu. Reyndar verð ég að vera smá fýlupúki og segja það að ég kaupi ekki alveg þessa síðari tíma lýsingu Dylans á sjálfum sér. Mér finnst ekki ólíklegt að honum þyki þessi tími ef til vill eitthvað kjánalegur svona eftir á og vilji þess vegna gera sem minnst úr þátttöku sinni í tíðarandanum. En sjálfsagt stenst þetta þó að mestu leyti hjá kallinum.

Þannig að fyrsta bindi Krónikanna kom mér skemmtilega á óvart og lesturinn hans Seans Penn var ansi flottur. Eina sem ég lét fara í taugarnar á mér er að þetta er stytt útgáfa - óþolandi að fá ekki bara alla bókina heldur einhverja klippta útgáfu. Geri nú samt ráð fyrir að litlu hafi verið sleppt, svona þegar ég ber saman bókarþykktina og þann tíma sem hún tók í lestri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home