Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

8.8.05

Fotbollskriget eftir Ryszard Kapuściński

Fótboltastríðið er titill á einu greinasafna pólska blaðamannsins Ryszard Kapuściński sem upphaflega kom út á frummálinu 1988 þegar höfundurinn hafði fyrir nokkru skipað sér í flokk frægustu og virtustu stríðsfréttablaðamanna heimsins. Titillinn vísar í hið skammvinna stríð sem braust út milli Hondúras og El Salvador 1969 þar sem knattspyrnuleik milli þjóðanna var kennt um að vera dropinn sem fyllti mælinn í stríðsæsingi ríkjanna á milli. Raunar er hálfmisvísandi að velja þessari bók þennan titil vegna þess að sögusvið þessarar bókar er, eins og flestra verka Kapuścińskis, einkum Afríka. Mér sýnist raunar, þegar ég renni yfir það svona eftir á, að einungis tveir af um það bil tuttugu köflum bókarinnar víki atburðum utan Afríku. En hvað um það.

Ryszard Kapuściński skýrir hér frá atburðum og aðstæðum í stríðshrjáðum ríkjum þriðja heimsins á jafnsannfærandi og myndrænan hátt og í greinasafninu Íbenholt sem ég tók hér til umfjöllunar fyrir skemmstu. Munurinn á bókunum liggur fyrst og fremst í því að Kapuściński er mun fremur í hlutverki stríðsfréttaritarans í þessari bók en í Íbenholti þar sem meira var um mannlífslýsingar og svona umhverfisstemmur einhvers konar. Í Fótboltastríðinu skeytir Kapuściński síðan haganlega inn hugleiðingum hér og þar í búningi „uppkasti bókar sem hefði mátt skrifa“.

Meðal þess sem Kapuściński er skýrir frá í þessari bók er baksaga Kwames Nkrumas, sjálfstæðishetju Ghana og í raun Afríku allrar, frásögn af Lumumba í Kongó, fangelsi og dauðadómur höfundar í sama landi, kvenréttindabarátta í Tanganyíku, grimm aðskilnaðarstefna í Suður-Afríku, valdarán í Alsír, tvískipting Kýpur, prjál í Suður-Ameríku og vitanlega - fótboltastríðið í El Salvador og Hondúras.

Alls staðar er Kapuściński sjónarvottur heimsviðburða og lýsir þeim oft úr kvalafullri nálægð þar sem særðir líkamar og örvæntingarfull fórnarlömb blasa við honum fremur en loftmyndir af sundursprengdu umhverfi, eins og sjónarpsáhorfendur eru vanir. Hann í miðri hringiðu þar sem allt einkennist af örvinglun og máttleysi yfir eyðandi öflum allt í kring og hann er oft ekki síður í hættu en aðrir í kringum hann.

En þrátt fyrir hinar hryllilegu lýsingar Kapuścińskis af aðstæðum hér og þar um þá hluta heimsins sem verst eru leiknir af stríðum og stöðuga baráttu höfundarins sjálfs við að halda lífi við tvísýnar aðstæður á hverjum degi þá er þær kannski merkilegastar í þessari bók lýsingar Kapuścińskis á ofurþránni til þess að snúa þó alltaf aftur í þessar verstu hugsanlegu aðstæður. Lýsingarnar á því ólæknandi óþoli og dauflyndi sem Kapuściński fyllist þegar að hann er heima í Póllandi og þráir ekki heitar en að komast aftur í hættu og tvísýnu á stríðshrjáðum svæðum til að skýra frá því sem fyrir augu ber eru kunnuglegar frá öðrum stríðsfréttariturum sem erfitt eiga með að venjast fásinninu heima við eftir á. Þær eru þó samt sem áður sjálfsagt framandi flestum lífhræddum Vesturlandabúum sem unna örygginu heima við betur en óöryggi og lífshættu á stríðshrjáðum slóðum.

Kapuściński og öðrum ofurhugum eigum við Vesturlandabúar hins vegar það að þakka að vera tilbúnir til þess að leggja það á sig að stefna lífi sínu svo til daglega í voða til þess eins að miðla okkur hinum þeim sársauka og þeirri ringulreið sem ríkir á þeim svæðum heimsins sem ekki njóta þeirra forréttinda að búa yfir þeim stöðugleika og ríkidæmi sem við gerum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home