Íslenski draumurinn eftir Guðmund Andra Thorsson

Íslenski draumurinn er mjög karlkyns skáldsaga. Miðpunkturinn er menntaskólaárin, kunnuglegt stef úr skáldsögum '68 kynslóðarinnar, en Guðmundur Andri tilheyrir hins vegar næstu kynslóð á eftir - þeirri sem útskrifast tíu árum síðar - og dregur upp mynd af henni og það er í fyrsta lagi nokkuð forvitnilegt frávik frá skáldsögum kynslóðarinnar á undan. Annað sem mér þykir Guðmundi Andra takast með miklum sóma í þessari bók er að ljá menntaskólaárunum þann lúðalega blæ sem þau eiga skilið í stað hinnar ósannfærandi hetjukenndu fortíðarglýju sem oft einkennir menntaskólaárin í skáldsögum yfirleitt. Það rímar alla vega ágætlega við mína reynslu að fá ár séu jafn lúðaleg og menntaskólaárin.
Tónninn og talandinn er líka skemmtilega bjálfalegur og í snjallri mótsögn við hátíðleik eða þá hástemmdar áætlanir sögupersóna. Þá eru sömuleiðis dregnar upp skýrar andstæður á milli menntaskólakynslóðar áttunda áratugarins og kynslóðar foreldra þeirra og vonir þeirra og skipbrot.
Sem sagt í heild bara nokkuð fín bók á að hlýða svona á röltinu upp og niður öngstræti hundraðogeins.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home