The New York Trilogy eftir Paul Auster

Forvitninni var því í raun engan veginn svalað og í vor smellti ég mér loks á New York-þríleikinn (City of Glass, Ghosts og The Locked Room) sem hugsanlega er hans þekktasta verk til þessa. New York-þríleikurinn kom raunar út í þremur bókum á íslensku hjá Bjarti fyrir 10-15 árum síðan. Um er að ræða þrjár sögur, hver um það bil 100 blaðsíður, sem mynda eina heild. Í fyrstu kunna rofin á milli sagnanna að virðast það mikil að réttast sé að tala um þrjár aðskildar sögur með þó svipaðan útgangspunkt en eftir því sem lengra líður á þríleikinn verður manni ljóst að í rauninni er um eina sögu að ræða - í þremur hlutum.
Paul Auster leikur sér að klassíska spæjarasöguforminu í þríleiknum þar sem New York - mekka spæjarasögunnar - er auðvitað sjálfkjörið sögusvið. Allar bera sögurnar sterk einkenni spæjarasögunnar klassísku en eru þó allar um leið mjög óhefðbundnar sem slíkar. Hvorki spæjararnir eða viðfangsefnin eru hefðbundins eðlis og allir eiga spæjararnir sameiginlegt að vera hálfgerðar andhetjur sem ekki herðast við hverja raun heldur - þvert á móti - lyppast niður þar til verkefnið svo gott sem ríður þeim að fullu.
Fyrsta sagan á sér stað nálægt samtímanum: New York á 9. áratugnum þar sem glæpasagnahöfundur lendir óvænt í hlutverki spæjara og Paul Auster sjálfur kemur meðal annars fyrir sem aukapersóna. Í næstu sögu er farið aftur til fimmta áratugarins og ungur spæjari sem illa veldur starfi sínu er í aðalhlutverki. Í síðustu sögunni er það svo maður sem lifir lífi sínu í skugga annars manns sem þó týndur og tröllum gefinn.
Þríleiknum vex ásmegin eftir því sem á hann líður og mér þótti síðasti hlutinn áberandi bestur enda gegnir hann lykilhlutverki í heildarmyndinni, annar hlutinn þótti mér hins vegar sístur. Auster olli mér ekki vonbrigðum í þessu þekkta verki sínu - afar svöl bók og afar flottur höfundur sem ég held örugglega áfram að lesa eftir þessa mjög svo jákvæðu lestrarreynslu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home