Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

30.9.05

Shah of Shahs eftir Ryszard Kapuściński

Bandaríkjamenn mega eiga margt ljótt á sinni samvisku varðandi stallbræður út um allan heim sem pína og troða á borgurum sínum með dyggum stuðningi eða í það minnsta þegjandi samþykki stórveldisins í vestri. Hrottar á borð við Pinochet koma fljótlega upp í hugann á listanum yfir þá verstu en við hlið hans á hann svo sannarlega skilið að sitja keisarinn í Íran, Reza Pahlavi sem Bandaríkjamenn gerðu einráðan í Íran í einu ósvífnasta valdaráni sem Bandaríkin skipulögðu á bak við tjöldin í Kalda stríðinu - af þó ansi mörgum viðbjóðslegum.

Þrátt fyrir að ógnarstjórn keisarans Reza Pahlavi hafi ekki verið hótinu skárri en til dæmis áðurnefnd ógnarstjórn félaga Pinochets þá náðu keisarinn og verndarar hans í hinum vestræna heimi á einhvern hátt að draga upp þá mynd af stjórnarfari keisaraveldisins að þar væri allt í blóma og enn þann dag í dag heyrir maður jafnvel jafnvel virtasta fólk bera saman keisaratímann í Íran og klerkaveldið sem síðan tók við sem helberar andstæður þar sem að stókostlegum framförum og frjálsræði var kastað á glæ. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum. Hið sanna er að keisaraveldið og klerkaveldið er sama vínið á ólíkum belgjum.

Bók Ryszard Kapuścińskis, Shah of Shahs, lýsir á einstaklega næman og skilningsríkan hátt þeim tíma og þeim anda sem ríkir á síðustu árum keisaraveldisins sem virðist standa eins og óhagganlegt virki en smám saman læðist inn í atburðarrásina uppreisnarandi meðal fólksins þangað til að er engu líkara en að einn dag uppgötvi stjórnin að virkið óhagganlega er sundurétið og í næstu andrá hrynur allt til grunna eins og spilaborg.

Við tekur skammvinn gleði meðal alþýðu þjóðarinnar sem loksins er laus undan ógnarstjórn með alltumlykjandi öryggislögreglu (með tilheyrandi reglubundum tilviljanakenndum handtökum og móðursjúkum, tilhæfulausum ásökunum að ógleymdum hroðalegum pyndingum) og glórulausri spillingu. Þeir sem héldu sig vera að berjast fyrir réttlátu samfélagi með því að leggja líf sitt og limi að veði í baráttunni gegn keisarastjórninni fá brátt yfir sig klerkastjórn, engu skárri, sem ekki síður stundar ofsóknir gegn almennum borgurum og aftekur allt sem heitir lýðræði eða jafnrétti borgaranna.

Shah of Shahs er einstaklega góð lýsing á vonlausri baráttu vongóðs fólks við öxulveldi illskunnar: harðstjórann innanlands og verndara hans í vestri. Það versta er bara að sagan gæti eins átt sér stað í dag. Til dæmis hinum megin við landamærin...

10.9.05

A Moveable Feast eftir Ernest Hemingway

Ég þarf að hafa mig allan við að halda kúlinu og bresta ekki í botnslausa væmni þegar að ég dreg upp mynd af A moveable Feast (Veislu í farángrinum) eftir Ernest Hemingway. Ég hef gleymt stund og stað við lestur þessarar litlu bókar undanfarna rúmu vikuna eða svo þar sem Hemingway hverfur aftur til mótunarára sinna sem rithöfundur í París þriðja áratugarins. Ekki skemmir fyrir að vera nýkominn frá París sjálfur þar ég gekk um sömu stræti og Hemingway bregður um rómantískum bjarma.

Veisla í farángrinum hefur, eins og fyrr segir, að geyma minningarbrot Hemingways frá Parísarárum hans þegar að hann var að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur. Hann skrifar á kaffihúsunum eins og sönnu Parísarskáldi þessa tíma sæmir og kemst í kynni við marga þekkta og litríka kollega sína. Þau Gertrude Stein og F. Scott Fitzgerald fá mest rými í sögunni en einnig segir Hemingway frá kynnum sínum af James Joyce, Ezra Pound og fleiri mætti nefna.

Stíll og frásagnarmáti Hemingways helst vel í hendur, frásögnin hreinskiptin og stíllinn einfaldur og blátt-áfram. Samferðarfólki sínu lýsir hann ávallt af umhyggju þó að ekki dragi hann undan lesti hverrar manneskju. Til dæmis er athyglisverð sú miður spennandi mynd sem hann dregur upp af Fitzgerald sem helst birtist sem hálfgert ræfilsgrey í lýsingum Hemingways.

Lýsingar Hemingways á samtímamönnum sínum blikna þó í samanburði við þær heillandi myndir sem hann dregur upp af umhverfinu í París hvort sem er í óupphituðum risíbúðum í Latínuhverfinu, á kaffihúsunum, meðal dorgara niður við Signu, í bókabúðum og svo mætti áfram halda. Að auki heldur Hemingway með lesandann upp í Alpa í lok bókarinnar og þar tekur ekki síður heillandi lýsing við.

Allt hefur yfir sér bjarma nostalgíu yndislegrar veraldar sem var sem horfin er höfundinum þegar að hann setur sína minnispunkta niður á blað - bæði hafa utanaðkomandi öfl svift þeim tíðaranda á braut og svo ekki síður hin eyðandi öfl innra með höfundinum. Vegna þessa ber frásögnin öll með sér ljúfsáran trega þess sem einu sinni var.

Veisla í farángrinum var dýrðleg lesning og einhvern tíma ætla ég í nördaferð til Parísar og lesa bókina aftur og vera menningarlegur og rölta um söguslóðir hennar. Spurning hvort einhver myndi nenna með?

Harry Potter and the Chamber of Secrets eftir JK Rowling

Varúð: Nú ætla ég að vera með leiðindi.

Eitt af því sem maður verður að hafa á hreinu til þess að teljast umræðuhæfur meðal málsmetandi manna er að hafa lesið allar Harry Potter-bækurnar upp til agna og það helst daginn sem þær koma út. Lengi vel var ég meðal hinna örfáu sem áttu þetta algerlega eftir og því var ég algjörlega útskúfaður úr lotningarfullum samræðum fólks á milli um snilli þessara bóka og það hvernig þeim tækist að brúa bilið á milli fullorðinsbóka og barnabóka þannig að þær höfðuðu ekki síður til fullorðinna en barna.

Fór svo að lokum að ég lét tilleiðast og hlustaði á fyrstu Harry Potter-bókina í upplestri einhvers bresks leikara. Jújú, ágætt svo sem fyrir sinn hatt en einhvern veginn kviknaði nú samt enginn sérstakur neisti innra með mér, hvað þá að mér fyndist þessi barnabók höfða eitthvað meira til fullorðinna en bara Fimm-bækurnar eða Ronja Ræningjadóttir. Bara svona krakkar að lenda í ýmsum ævintýrum.

Eftir þessa reynslu hugðist ég leggja Harry Potter alveg á hilluna - eða alla vega þangað til ég eignast sjálfur börn og fer að lesa fyrir þau barnabækur. Þegar ég fór hins vegar að lýsa þessu áhugaleysi mínu yfir við sannfærða Harry Potter-aðdáendur þá fór ég að heyra það að svona væri bara fyrsta bókin - strax í annarri bókinni yrði þetta allt miklu fullorðinslegra og margslungnara.

Þannig að nú í ágúst tók ég til við að hlusta á bók númer tvö um Harry Potter. Stytti mér ágætlega stundir við heimilisþrif og rölt milli staða en mikið fannst mér standa á öllu þessu margslungna og flókna plotti sem önnur bókin átti að færa mér. Enn þá datt mér helst í hug bara Karl Blómkvist eða eitthvað svoleiðis.

Niðurstaðan er því að ég mun taka því mátulega alvarlega þegar að einhver segir við mig að allt verði miklu betra og fullorðinslegra í þriðju bókinni. Harry Potter er fyrir börn - ekki ,,börn á öllum aldri". Alla vega á það við um fyrstu tvær bækurnar.

5.9.05

Another Day of Life eftir Ryszard Kapuściński

Um Ryszard Kapuściński má kannski segja að hann sé maðurinn sem mætir á staðinn þegar allir aðrir flýja. Þetta á til að mynda vel við í tilviki borgarastríðsins í Angóla árið 1975 en um það fjallar ein frægasta bók Kapuścińskis Another Day of Life (sem kannski mætti þýða Enn einn dagur lífs).

Þegar Kapuściński nauðaði í portúgölskum flugmönnum í Lissabon um að fá að fljóta með í einni af síðustu ferðunum sem farnar voru til að ná í evrópskt-ættað fyrirfólk í Angóla var landið að losna úr aldalöngu helsi Portúgala. Í mörghundruð ár höfðu Portúgalar stýrt landinu með sérlega harðri hendi, farið langt með að hreinsa það af innfæddum í þrælasölu til Suður- og Mið-Ameríku og pískað svo áfram þeim sem eftir voru. Til að bæta gráu ofan á svart hafði Angóla verið eins konar ,,Djöflaeyja" í portúgalska heimsveldinu; þangað voru verstu glæpamenn og aðrir sístu synir herraþjóðarinnar sendir sem gerði það að verkum að hin ráðandi stétt í landinu hafði í röðum sínum ógnvænlega hátt hlutfall af óhæfum hrottum.

Þegar herforingjastjórnin í Portúgal féll 1974 og lýðræðisleg stjórnvöld tóku við var loks komið að langþráðu sjálfstæði Angóla undan portúgalskri stjórn. Því miður átti Angóla það hins vegar sameiginlegt með ýmsum öðrum nýfrjálsum ríkjum álfunnar að í kjölfar loforða um sjálfstæði fylgdu átök milli afla innanlands um hver ætti að taka við. Í Angóla voru það einkum sameiginleg öfl FNLA og UNITA sem studd voru af Vesturveldunum og Suður-Afríku sem börðust í blóðugu stríði við MPLA-hreyfinguna sem naut stuðnings Sovétblokkarinnar og Kúbu. Einu sinni sem oftar voru það sem sagt stórveldi Kalda stríðsins sem stóðu baksviðs í borgarastyrjöld í nýfrjálsu ríki þriðja heimsins í endalausum hrókeringum sínum um lykilstöðu í taflinu um tangarhaldið á veröldinni gervallri.

Eins og svo oft áður hættir Kapuściński lífi og limum til þess að fara þangað sem enginn kollegi hans þorir til þess að fá sem raunhæfasta mynd af atburðum í stríði þar sem slík ringulreið ríkir að liðsmenn hvorrar fylkingar fyrir sig vita stundum vart með hvorri þeirra þeim er ætlað að berjast. Við þennan manngerða hrylling allan bætast síðan við náttúrufar óvinveitt Evrópubúanum; miklir hitar og þurrkar og dimm frumskógabelti. Þá gerir stríðið það að verkum að matar- og vatnslaust verður dögum saman þegar að heilu héruðin eru í herkví stríðandi afla.

Stríðsfréttaritarinn Kapuściński er í essinu sínu í þessari bók. Maður verður vel áskynja þessarar gríðarlegu ástríðu stríðsfréttaritarans að fórna jafnvel eigin lífi til þess að miðla til umheimsins voðalegustu aðstæðum hins manngerða harmleiks sem stríð eru. Þörfin til þess að miðla skelfingunni þannig að hún deyi ekki bara og gleymist með þeim sem fyrir henni verður kemur vel fram hjá Kapuściński. Símritinn verður eins konar mark að lokinni langri og erfiðri þraut - allt streðið og allur lífsháskinn öðlast sinn tilgang þegar að skeyti hefur verið sent fréttastofum úti í hinum friðsæla heimi þar sem sagan er sögð.

Fyrir okkur sem ekki einu sinni vorum fædd þegar að versta óöldin gekk yfir Angóla er síðan einkar gagnlegur kafli í lok bókarinnar þar sem farið er í stuttu máli yfir sögu lands og þjóðar og aðdraganda þess sem varð og síðar fylgdi á eftir þeim hörmungum sem bókin lýsir. Því miður verður ekki sagt að sá lestur geri mann sérstaklega vongóðan þar sem margar þjóðir Suðursins virðast enn pikkfastar í sama hjólfari og þá var - í stjórnlausu stríði allra á móti öllum.