Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

10.9.05

A Moveable Feast eftir Ernest Hemingway

Ég þarf að hafa mig allan við að halda kúlinu og bresta ekki í botnslausa væmni þegar að ég dreg upp mynd af A moveable Feast (Veislu í farángrinum) eftir Ernest Hemingway. Ég hef gleymt stund og stað við lestur þessarar litlu bókar undanfarna rúmu vikuna eða svo þar sem Hemingway hverfur aftur til mótunarára sinna sem rithöfundur í París þriðja áratugarins. Ekki skemmir fyrir að vera nýkominn frá París sjálfur þar ég gekk um sömu stræti og Hemingway bregður um rómantískum bjarma.

Veisla í farángrinum hefur, eins og fyrr segir, að geyma minningarbrot Hemingways frá Parísarárum hans þegar að hann var að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur. Hann skrifar á kaffihúsunum eins og sönnu Parísarskáldi þessa tíma sæmir og kemst í kynni við marga þekkta og litríka kollega sína. Þau Gertrude Stein og F. Scott Fitzgerald fá mest rými í sögunni en einnig segir Hemingway frá kynnum sínum af James Joyce, Ezra Pound og fleiri mætti nefna.

Stíll og frásagnarmáti Hemingways helst vel í hendur, frásögnin hreinskiptin og stíllinn einfaldur og blátt-áfram. Samferðarfólki sínu lýsir hann ávallt af umhyggju þó að ekki dragi hann undan lesti hverrar manneskju. Til dæmis er athyglisverð sú miður spennandi mynd sem hann dregur upp af Fitzgerald sem helst birtist sem hálfgert ræfilsgrey í lýsingum Hemingways.

Lýsingar Hemingways á samtímamönnum sínum blikna þó í samanburði við þær heillandi myndir sem hann dregur upp af umhverfinu í París hvort sem er í óupphituðum risíbúðum í Latínuhverfinu, á kaffihúsunum, meðal dorgara niður við Signu, í bókabúðum og svo mætti áfram halda. Að auki heldur Hemingway með lesandann upp í Alpa í lok bókarinnar og þar tekur ekki síður heillandi lýsing við.

Allt hefur yfir sér bjarma nostalgíu yndislegrar veraldar sem var sem horfin er höfundinum þegar að hann setur sína minnispunkta niður á blað - bæði hafa utanaðkomandi öfl svift þeim tíðaranda á braut og svo ekki síður hin eyðandi öfl innra með höfundinum. Vegna þessa ber frásögnin öll með sér ljúfsáran trega þess sem einu sinni var.

Veisla í farángrinum var dýrðleg lesning og einhvern tíma ætla ég í nördaferð til Parísar og lesa bókina aftur og vera menningarlegur og rölta um söguslóðir hennar. Spurning hvort einhver myndi nenna með?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home