Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

12.10.05

Píslarvottar nútímans eftir Magnús Þorkel Bernharðsson

Það má kalla fremur sjaldgæft að íslenskt áhugafólk um alþjóðastjórnmál fái í hendur bók skrifaða á sínu móðurmáli og af íslenskum fræðimanni. Þess vegna er mikil hátíð þegar að slíkar bækur koma út enda er mjög mikilvægt að Íslendingar eigi sínar sjálfstæðu raddir í umræðunni um þá atburði sem eru í deiglunni hverju sinni á alþjóðavettvangi í stað þess að við tökum alltaf upp sjónarmið annars staðar frá - og þá oft fremur gagnrýnislaust.

Ekki er svo verra ef eitthvað er varið í þessar annars sjaldgæfu íslensku fræðibækur en það á svo sannarlega við um bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar, Píslarvottar samtímans, sem kom út í upphafi þessa árs. Magnús Þorkell er sjálfsagt Íslendinga fróðastur um málefni Mið-Austurlanda en hann hefur undanfarin ár kennt og stundað rannsóknir í nútímasögu þessa heimshluta við bandaríska háskóla.

Efni bókarinnar er stjórnmála- og trúarbragðasaga Íraks og Írans í tilefni þeirrar athygli sem beinst hefur að löndunum tveimur undanfarna áratugi og ekki síst undanfarin ár þar sem að þau hafa til dæmis mátt sætta sig við það að lenda á lista Bandaríkjastjórnar yfir ,,Öxulveldi hins illa". Þeir sem sótt hafa vinsæl námskeið Magnúsar Þorkels hjá Endurmenntun Háskóla Íslands undanfarin ár kannast sjálfsagt við þessi efnistök en þar hefur saga þessara landa einmitt verið á dagskrá.

Nemendur hans á þessum sömu endurmenntunarnámskeiðum þekkja á sama hátt hversu vel Magnúsi Þorkatli lætur að setja flókna hluti fram á einfaldan og aðgengilegan hátt, skilja kjarnann frá hisminu auk þess að feta hið þrönga einstigi milli hlutleysis fræðimannsins og þess að koma sinni eigin ígrunduðu skoðun á framfæri. Þessir góðu eiginleikar Magnúsar Þorkels eru allir til staðar í þessari bók og þeir nýtast hvergi betur en einmitt í fræðibók sem ætluð er almenningi.

Bókin er yfirlitsrit með öllum þeim kostum og göllum sem slíkum ritum fylgja, það er aðgengilegt og skýrir vel frá öllum meginatburðum og staðreyndum en lætur öðrum ritum eftir að fara dýpra í efnið. Reyndar veitir Magnús Þorkell lesandanum þá frábæru þjónustu að vera mjög duglegur að vísa til fjölmargra neðanmálsgreina þar sem finna má ítarlegri skýringar og vísanir í frekari heimildir. Það er því hægðarleikur fyrir lesandann að kanna fremur ákveðnar staðreyndir eða staðhæfingar. Þessi góða þjónusta gerir það reyndar að verkum að mikill vill meira og gjarnan hefði mátt bæta atriðisorðaskrá líka svo að enn þá þægilega væri að blaða fram og aftur í bókinni. En það er smáatriði.

Magnús Þorkell leynir ekki afstöðu sinni til ýmissa afskipta Vesturlanda af löndunum tveimur í gegnum tíðina sem í hans augum hefur oftast einkennst af valda- og peningagræðgi og lítilli sem engri virðingu fyrir heimafólki eða aðstæðum á þessu heimssvæði. Satt best að segja á maður oft erfitt með að ímynda sér að hægt sé að vera á annarri skoðun en höfundar vegna þar sem dæmin um yfirgang og ofbeldisfulla hegðun Vesturlanda eru mörg hver hreint og beint hrópandi.

Það grófasta af þeim öllum er vafalaust valdaránið í Íran 1953 sem CIA stóð á bak við þar sem vinsælum forsætisráðherra var steypt af stóli og í stað hans kom hinn illræmdur einvaldur sem ríkti næsta aldarfjórðunginn eða þangað til honum sjálfum var steypt af stóli í írönsku byltingunni 1978-9. Þetta grófa tilfelli endurspeglast í mörgum öðrum dæmum bókarinnar þar sem mynstrið gengur oftar en ekki út á að Vesturveldin koma sínum innlendu peðum til valda - því miður oft á kostnað lýðræðis- og framfaraþróunar í löndunum tveimur.

,,Grand finale" þessarar bókar er síðan umfjöllun Magnúsar Þorkels um aðdraganda og eftirmála innrásarinnar í Írak 2003. Eftir lestur þess kafla er hreinlega útilokað að ímynda sér að það sé til fólk sem studdi stríðsreksturinn í Írak og heldur jafnvel enn fast í þá afstöðu. Rökin gegn stríðinu eru borðleggjandi á öllu stigum málsins og maður sannfærist enn þá frekar um að lagt hafi verið út í vitlausasta og þarflausasta stríð af öllum heimsins vitlausum og þarflausum stríðum.

Og það versta er allt viti borið fólk gerði sér grein fyrir að allt myndi þetta þarflausa stríð verða jafnskelfilegt og tilgangslaust og hefur komið á daginn. Það er því ekki hægt að saka Magnús Þorkel og fleiri skoðanbræður hans um að vera vitur eftir á. Þessu öllu lýsti Magnús Þorkell til dæmis nákvæmlega á námskeiði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í janúar 2003 - nikkru áður en innrásin á Írak hófst.

Raunar lýsir Magnús Þorkell því hvernig hann persónulega dróst inn í ákvarðanatökuferlið í aðdraganda stríðsæsingsins í Bandaríkjunum. Þar hélt hann fyrst um sinn, í góðri trú, að verið væri að leita sérfræðiálits hans á heimshlutanum og að mark yrði tekið á orðum hans og fleiri sérfræðinga. Hins vegar gafst hann fljótlega upp eftir að hafa uppgötvað að í raun var ekki hlustað á neinn því að það var löngu búið að taka allar ákvarðanir og aðeins var verið að athuga hvort hægt væri að hægt væri að splæsa rökum sérfræðinga saman við löngu niðurneglt plan til að allt sýndist íbyggnara í augum almennings.

Því miður bendir margt til þess að hægt væri að skrifa framhaldsrit þessarar bókar eftir nokkra áratugi þar sem nákvæmlega sama þróun heldur áfram með yfirgangi og afskiptasemi utanaðkomandi afla af innanlandsmálum í þessum tveimur löndum. Að minnsta kosti bendir ekkert til annars eins og er.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home