Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

28.11.05

Pyramiden eftir Henning Mankell

Kláraði enn eina Mankell-bókina um Wallander í gær. Áður hef ég lýst því fjálglega hversu hundleiður ég er orðinn á Mankell og hans flötu og eintóna frásögnum um Kurt Wallander og félaga hans í Ystad-lögreglunni sérstaklega þegar að maður gæti verið að lesa eitthvað litríkara og betra í staðinn. En nú hef ég fundið hina fullkomnu aðferð til þess að lesa Wallander-bók. Hún er að lesa ekki neitt - en hlusta bara.

Ég tók mér sem sagt fjórtán diska hljóðbók með Wallander-bókinni Pyramiden í upplestri sjálfs Rolfs Lassgårds sem tengist Wallander einstaklega sterkum böndum enda hefur hann farið með hlutverk hans í fjölda sjónvarps- og bíómynda sem gerðar hafa verið eftir bókunum. Og þetta hef ég síðan hlýtt á að undanförnu í fínu þráðlausu heyrnartólunum mínum meðan að ég bý til mat og vaska síðan upp eftir hann. Í leiðinni hef ég uppgötvað að þetta er hin fullkomna tvenna. Glæpasögur eru nefnilega oftar en ekki auðmeltari en ýmislegt annað og krefjast þess vegna ekki endilega hundrað prósent einbeitingar og svo er þetta líka afþreying og hún er ákaflega vel þegin til þess að leiða hugann frá pastasoðningum og diskaskrúbbi.

Pyramiden er eiginlega safn smásagna um Wallander. Allar gerast sögurnar áður en fyrsta sagan um Wallander, Morðingi án andlits, á sér stað og spanna þær tímann frá 1969 til 1989. Í fyrstu sögunni er Wallander ung og óbreytt lögga í Malmö en í þeirri síðustu, og langlengstu, er hann kominn til Ystad og farinn að líkjast sjálfum sér sem sá Wallander sem dyggir lesendur þekkja frá fyrri bókum.

Þetta er allt saman í svipuðum dúr og fyrr - hvorki verra né betra. Mjög fínt við uppvaskið sem sagt og þjónar þar með vel sínum tilgangi. En ekkert til að hrópa ferfalt eða fimmfalt húrra fyrir annars.

22.11.05

Längst därnere eftir Günter Wallraff

Sjálfsagt eru fáir leiðangrar í rannsóknarblaðamennsku frægari en sá sem þýski blaðamaðurinn Günter Wallraff hélt í árin 1983-1985 þegar að hann dulbjó sig sem tyrkneskan verkamann og kynntist því lífi og þeim kjörum sem hið svokallaða gestaverkafólk (Gästarbeiter) bjó við í Þýskalandi. Afrakstur úttektarinnar varð frægur um allan heim í bók Wallraffs, Ganz unten (Niðurlægingin í íslenskri þýðingu frá 1986) þar sem hulunni var svipt af tvöfeldni þýsks þjóðfélags. Gestaverkafólkið þrælaði - og þrælaði er rétta orðið - við ömurlegar aðstæður til þess að halda gangandi glansmyndinni af hinu góða og yndislega Þýskalandi hinum betur settu borgurum til handa.

Bók Wallraffs er fyrir löngu orðið klassískt rit í rannsóknarblaðamennsku og því er ekki óeðlilegt að hugað sé að endurútgáfu hennar fyrir nýja kynslóð lesenda, ekki síst þar sem efni bókarinnar á, ef eitthvað er, jafnvel betur við um nútímann en ástandið fyrir tuttugu árum síðan. Bókin var endurútgefin í kilju á sænsku fyrir tveimur árum síðan og um daginn renndi ég mér í gegnum þá útgáfu.

Tónn bókarinnar er strax gefinn í formála kiljuútgáfunnar þar sem rakið er dæmi frá Svíþjóð sama ár og bókin kom út í kilju (2003). Það dæmi líkist um flestallt því sem Wallraff lýsir sjálfur í öðru Evrópulandi tuttugu árum áður. Þetta er til þess að minna okkur á að efni bókarinnar er tímalaust og þó að annað fólk og önnur fyrirtæki leiki ef til vill hlutverkin í dag eru tímarnir þeir sömu að þessu leyti. Útlend vinnuafl í lægstu stöðum er enn þá jafnréttlaust, enn þá er jafn grimmilega komið fram við það og enn þá ríkir sama algera sinnuleysið gagnvart öllu sem heitir mannréttindi og virðing við náungann. Meira að segja líf hins erlenda vinnuafl er einskis metið. Það hefur heldur ekkert breyst.

Dæmin um hið algjöra virðingarleysi fyrir lífi og heilsu hins erlenda vinnuafls eru á hverri síðu bókar Wallraffs. Tyrknesku gestaverkamennirnir eru neyddir til að vinna sleitulaust allt upp í 70 klukkustundir í einni lotu, þeir starfa við aðstæður sem þeir halda ekki út nema í örfá ár þangað til að þeir annað hvort hníga niður örendir eða eru farlama fyrir lífstíð. Slík afföll fólks eru ráðgerð í öllum plönum vinnuveitendanna (í flestum tilvikum starfsmannaleiga) sem vita að í mörgum vinnum lifir fólk bara af í nokkur ár. Þeir þurfa hins vegar ekki að hafa neinar áhyggjur því að alltaf er stöðugur straumur fólks í nauð sem þeir geta misnotað og fengið sem mest út úr með lágmarkskostnaði en miklum gróða.


Á einum stað í bókinni vitnar Wallraff í veggjakrot á einu klósettanna þar sem hann tók að sér störf dulbúinn sem Tyrki. Þar stóð „Stöðvum tilraunir á dýrum! - notum Tyrki“. Það er merkilegt hversu bókstaflega hægt er að taka þetta slagorð í tilviki efnis bókarinnar og satt best að segja er hreint ekki ótrúlegt að oft fái skepnur í sláturhúsi mannúðlegri meðferð og njóti meiri virðingar en hið erlenda vinnuafl sem við sögu kemur í lýsingum Wallraffs. Ekki bara er þeim pískað út heldur komst Wallraff einnig að því, einnig af eigin raun, að lyfjaframleiðendur notuðu gestaverkafólkið til þess að prófa lyf á tilraunastigi - líklega vegna þess að tilraunir á rottum voru bannaðar. Afleiðingarnar voru skelfilegar, miklar líkamlegar aukaverkanir sem jafnvel leiddu til dauða. Eins notuðu kjarnorkuver sama hóp fólks til þess að vinna störf þar sem hætta var á geislun óralangt yfir heilsusamlegum mörkum án þess að gera verkafólkinu grein fyrir hættunni. Afleiðingarnar sýndu sig eftir á í grunsamlegum fjölda krabbameinstilvika hjá viðkomandi verkafólki.

Myndin sem maður fær af þessu öllu saman minnir einna helst á ófagrar lýsingar sem lesa má í sögubókum frá fyrstu árum iðnbyltingarinnar í námunum á Englandi þar sem réttlausu fólki var pískað út við nákvæmlega sömu ólífvænlegu aðstæðurnar. Það er hreint og beint sláandi að sjá þessa ljótustu mynd kapítalismans svona ljóslifandi fyrir sér tæpum tveimur öldum síðar og það í landi sem á yfirborðinu státar sig af því að vera þróað og vant að virðingu sinni. Ekki síst er það sláandi vegna þess að maður veit af því að svona lagað á sér ekki stað í minna mæli um heiminn allan nú í upphafi 21. aldarinnar. Þannig hefur iðnvæðingin í rauninni staðið í stað hvað siðalögmál og réttindi snertir þó að henni hafi fleygt fram á öðrum sviðum. Ekki er að minnta kosti hægt að halda öðru fram meðan að við látum það viðgangast að við lifum í vellystingum á beinan kostnað þeirra sem þræla þurfa við skelfileg kjör til þess að halda fjöri í veislun

14.11.05

Until Death Do Us Apart eftir Ingrid Betancourt

Ýmsar alls konar alþjóðamælingar um spillingu í stjórnmálum hér og þar sýna ævinlega fram á það að Ísland sé meðal minnst spilltu ríkja heims. Þó þykir nú flestum nóg um samt og þurfa þá ekki annað en að líta til allra bankastjóraráðninga, bankasala, byggðastyrkja og svo mætti áfram telja. Þeir flestu sem óar yfir hinni þó hlutfallslega litlu spillingu á Íslandiog spyrja sig ef til vill hvernig þetta sé þá aftast á ásnum fyrst þetta er skárst hjá okkur.

Svarið fæst til dæmis í Kólumbíu. Kólumbía er eitt af þessum löndum sem yfirleitt skipar sér sæti meðal hinna efstu yfir mestu spillingarbæli veraldarinnar. Í Kólumbíu ráða glæpahringir og eiturlyfjabarónar öllu sem þeir vilja ráða og kaupa stjórnmálamenn auðveldlega til fylgis við sig og halda þjóðinni allri í heljargreipum sínum. Sé einhver svo djarfur að rísa gegn valdi glæpalýðsins er sá hinn sami fljótlega tekinn úr endanlega úr umferð - með öðrum orðum, drepinn. Þá skiptir engu máli hvort um fátækan bónda að ræða sem neitar að gefa eftir hluta skika síns til glæpahyskisins eða forsetaframbjóðanda sem talar fyrir opnari stjórnháttum og minni vettlingatökum á glæpahringjum landsins. Niðurstaðan er sú að allt stjórnkerfið spilar með og valdhafar bæði hins opinbera og undirheima gera með sér samkomulög bak við tjöldin um að skapa einhvers konar vopnaðan frið.

Hins vegar er auðvitað til fólk í Kólumbíu sem bæði neitar að taka þátt í spillingarleiknum og láta hræðsluna við grimmd glæpaklíkanna aftra sér frá því að skera upp herör gegn spillingunni og glæpaöldunni. Það er hins vegar meira en að segja það í jafn gjörspilltu landi og Kólumbía er. Ein af þeim sem þó hefur ekki látið hindranirnar aftra sér er kólumbíska stjórnmálakonan Ingrid Betancourt.

Ingrid Betancourt er komin af kólumbísku fyrirfólki og ólst upp víðs vegar um heiminn við bestu mögulegu kjör. Foreldrar hennar voru báðir stjórnmálamenn og gegndu um tíma ráðherra- og þingmannsstöðum í heimalandinu og sendiherrastöðum utanlands. Þegar Ingrid var komin ofarlega á þrítugsaldur bjó hún enn mestmegnis erlendis en var þá farin að finna fyrir það ríkri köllun að snúa aftur til Kólumbíu og þjóna heimalandi sínu að hún flutti loks alkomin til Kólumbíu og fór fljótlega að láta til sína taka innan stjórnmálalífsins. Rúmlega þrítug bauð hún sig fram til þings þar sem hún hafði á oddinum baráttu fyrir heiðarlegum stjórnháttum í landinu og gegn tengslum glæpamanna við stjórnmálamenn.

Hún náði kjöri og hélt inni á þingi áfram baráttu sinni við gjörspillt stjórnvöld og af lýsingum hennar sjálfrar að dæma virðist hún oft hafa staðið svo gott sem algjörlega ein í þeirri baráttu enda þykist hún hafa sannanir fyrir því að flestallir þingmenn þjóðarinnar séu á mála hjá einhverjum eiturlyfjabarónanna um það að vera ekki að vasast í ,,því sem þeim kemur ekki við". Fjórum árum síðar býður hún sig síðan fram til öldungardeildarsætis og kemst þar einnig sína leið.

Sú bók sem hér er lýst er skrifuð af Ingrid Betancourt sjálfri og lýsir lífi hennar og pólitískum málstað. Þetta er því eins konar pólitísk ævisaga: pólitískt testamenti og málsvari með ævisögulegum þræði. Bókin kom út árið 2001 og efni hennar nær eðlilega ekki lengra en það. Það er í raun mikil synd vegna þess að frá og með sögulokum má eiginlega segja að dramatíkin í lífi Ingrid Betancourt hafi byrjað fyrir alvöru (og var hún þó búin að lifa af fjölda alvarlegra morðhótana- og tilrauna fram að því).

Ingrid Betancourt ákvað nefnilega að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2002 og boðaði sem fyrr upprætingu spillingar og pólitískra tengsla við glæpahringi í stefnu sinni. Glæpalýðurinn gat auðvitað ekki umborið slíkt nema að mjög takmörkuðu leyti og í lok febrúar 2002 rændu FARC skæruliðasamtökin Ingrid Betancourt og enn þann dag í dag er hún í haldi samtakanna einhvers staðar í frumskógum Kólumbíu. Þrátt fyrir þetta er nafni hennar haldið mjög vel á lofti og sérstakur þrýstihópur hefur frá mannráninu barist mjög ötullega fyrir lausn Ingridar og fleiri fanga kólumbísku glæpahringjanna (ein helsta tekjulind slíkra hringja - utan eiturlyfjasölu - er einmitt lausnargjöld fyrir fólk sem þeir ræna og hóta lífláti sé ákveðin svimandi há upphæð ekki reidd fram). Sérstaklega hefur baráttan fyrir lausn Ingridar verið áberandi í Frakklandi sem skýrist að miklu leyti af því að Ingrid hefur franskt ríkisfang auk þess kólumbíska og ólst upp í Frakklandi að miklu leyti.

Until Death Do Us Part er reyndar mörgum þeim annmörkum háð sem svona pólitísk testamenti stjórnmálamanna eru oft. Þau lýsa auðvitað aðeins frá einni hlið - skoðunum viðkomandi - á ríkjandi ástandi og við það bætist að það á við þessa bók eins og svo margar aðrar af líkum toga að það á ekki endilega alltaf saman að vera dugandi stjórnmálamaður og góður rithöfundur. Bókin er reyndar ágætlega skrifuð en kannski hefði Ingrid samt ekki veitt af svo sem eins og einni góðri hjálparhellu/meðhöfundi við skrifin eða enn þá betri editor. Það hefði gert ágæta bók enn betri.

Eftir stendur hins vegar sagan um hina vonlitlu baráttu sem stundum minnir á þrotlaust en tilgangslaust strit Sýsifusar. Dropinn holar þó steininn smám saman og sú síaukna svörun sem Ingrid Betancourt fær með hverri baráttunni frá kólumbísku þjóðinni er henni mikils virði og verður henni hvati til að halda áfram og sækjast eftir umboði þjóðar sinni til æðri og æðri embætta. Sú vegferð varð hins vegar endalepp frá og með febrúardeginum árið 2002 þegar að Ingrid var numin á brott af mannræningjum.

Ef marka má lýsingar bókarinnar má kannski segja að kólumbíska þjóðin sé fíkill í klóm eiturlyfjanna sem vill - líkt og raunverulegir eiturlyfjafíklar - gjarnan hafa sig upp úr ástandinu en skortir ef til vill kraftinn og meðölin til þess. Framlag einnar manneskju nægir ekki til að sporna gegn því ástandi sem ríkir í Kólumbíu og líkast til ræður kólumbíska ríkið ekki einu sinni við það eitt og sér - jafnvel þó að allt heiðarlegt fólk legðist á eitt. Líklega er samstillt alþjóðlegt langtímaátak það eina sem gæti orðið til þess að Kólumbía kæmist upp úr hjólförum efstu sætanna á ásnum yfir spilltustu ríki heimsins.

2.11.05

Imperium eftir Ryszard Kapuściński

Sjálfsagt er fátt jafnt spennandi fyrir sagnfræðinga samtímans sem rannsóknarefni og Sovétríkin - heilt heimsveldi sem að miklu leyti var lokuð bók fyrir umheiminum allt þar til skjalasöfnin voru opnuð upp á nýtt og málfrelsi komst á að nýju eftir fall kommúnismans. Sagnfræðingar hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og allt frá endalokum Sovétríkjanna hefur heill hafsjór verka litið dagsins ljós þar sem ýmislegt innan heimsveldisins kommúníska er greint í ljósi nýtilkominna upplýsinga. Smám saman hefur fólki orðið ljóst að Sovétríkin voru jafnvel enn verri og mannfjandsamlegri en meira að segja heittrúuðustu andkommúnistar þorðu að halda fram á árum áður. Munurinn á Stalín og Hitler verður óræðari með hverri nýrri sagnfræðilegri uppgötvun um voðaverk sovéska leiðtogans og eins færast Sovétríkin sjálf æ ofar á listann yfir illræmdustu ríki seinni tíma.

Þess var ekki að vænta að Pólverjinn Ryszard Kapuscinski ysi sérstöku lofi á Sovétríkin - heimsveldið sem landsmenn hans lifðu í skugganum á í hálfa öld - þegar að hann lagði upp í heljarmikla för um Sovétríkin þver og endilöng til að verða vitni að endalokum veldisins mikla. Og það þarf svo sem ekki andkommúnista til til að lýsa skömm á þeim samfélagslegu brúnarústum sem alls staðar blasa við.

Kapuscinski fer norður í Síberíu, vestur til Úkraínu og Hvíta-Rússlands, til Mosku og Pétursborgar, suður til Armeníu og mið-Asíuríkjanna. Munurinn milli þessara svæða innan Sovétveldisins er eins og munurinn á milli fjarlægustu heimsálfa. Allir eiga þeir þó eitt sameiginleg - alræðisveldi Ráðstjórnarríkjanna hefur náð að skilja eftir sig sömu eyðilegginguna alls staðar og ekkert svæði innan heimsveldisins mikla mun geta jafnað sig og risið upp á afturlappirnar fyrr en eftir talsverðan tíma.

Þessi bók á það sameiginlegt með öðrum bókum Kapuscinski að hún er ekki full af staðreyndum og tölfræði. Hans bækur miðla fremur því andrúmslofti sem ríkir við ákveðnar aðstæður á ákveðnu svæði. Þessi bók miðlar andrúmslofti vonleysis og allsleysis meðal þegnanna sjálfra en jafnframt óvissu um það sem koma skal og hvernig beri að haga sér við hinar breyttu aðstæður. Örbirgð þegnanna er átakanleg og að sama skapi firring og skeytingarleysi valdhafa kerfisins sem í upphafi hafði hið yfirlýsta markmið að enginn ætti að líða skort og að allir yrðu jafnir.

Þetta er ef til vill persónulegasta bók Kapuscinski. Höfundurinn er að gera upp stjórnmálakerfi og heimsveldi sem hélt hans þjóð í skefjum. Í upphafi bókarinnar kynnist hann heimsveldinu sem barn í austurhluta Póllands þegar að hermenn Sovétmanna hertaka heimabæ hans og hafa á brott fullorðna og börn og senda austur í buskann. Þá virðist heimsveldið voldugt og ógnandi. Undir lok veldisins er það hins vegar orðið farlama og hangir á sjálfsblekkingu elítunnar einni saman um að líkið sé enn á lífi. En þegar elítan hættir líka að trúa þá hrynur allt undir eins og allt í einu hlustar fólk ekki lengur á Gorbatsjov, leiðtoga sinn - einn góðan veðurdag uppgötvar fólkið að hann stendur einn eftir á meðan allt valdið hefur flust annað.

Við tekur sjálfstæði margra Sovétlýðvelda og svokallað lýðræði í Rússlandi. Þróunin í Rússlandi er svo efni í aðra sorgarsögu sem ekki sér enn fyrir endann á. Pútín er þó smám saman að tryggja það þessa dagana að rússnesk alþýða hefur svo sannarlega ekki séð það síðasta af alræðisstjórnarháttum og kúgun þeirra sem sitja í Kremlarköstulum.