Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

2.11.05

Imperium eftir Ryszard Kapuściński

Sjálfsagt er fátt jafnt spennandi fyrir sagnfræðinga samtímans sem rannsóknarefni og Sovétríkin - heilt heimsveldi sem að miklu leyti var lokuð bók fyrir umheiminum allt þar til skjalasöfnin voru opnuð upp á nýtt og málfrelsi komst á að nýju eftir fall kommúnismans. Sagnfræðingar hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og allt frá endalokum Sovétríkjanna hefur heill hafsjór verka litið dagsins ljós þar sem ýmislegt innan heimsveldisins kommúníska er greint í ljósi nýtilkominna upplýsinga. Smám saman hefur fólki orðið ljóst að Sovétríkin voru jafnvel enn verri og mannfjandsamlegri en meira að segja heittrúuðustu andkommúnistar þorðu að halda fram á árum áður. Munurinn á Stalín og Hitler verður óræðari með hverri nýrri sagnfræðilegri uppgötvun um voðaverk sovéska leiðtogans og eins færast Sovétríkin sjálf æ ofar á listann yfir illræmdustu ríki seinni tíma.

Þess var ekki að vænta að Pólverjinn Ryszard Kapuscinski ysi sérstöku lofi á Sovétríkin - heimsveldið sem landsmenn hans lifðu í skugganum á í hálfa öld - þegar að hann lagði upp í heljarmikla för um Sovétríkin þver og endilöng til að verða vitni að endalokum veldisins mikla. Og það þarf svo sem ekki andkommúnista til til að lýsa skömm á þeim samfélagslegu brúnarústum sem alls staðar blasa við.

Kapuscinski fer norður í Síberíu, vestur til Úkraínu og Hvíta-Rússlands, til Mosku og Pétursborgar, suður til Armeníu og mið-Asíuríkjanna. Munurinn milli þessara svæða innan Sovétveldisins er eins og munurinn á milli fjarlægustu heimsálfa. Allir eiga þeir þó eitt sameiginleg - alræðisveldi Ráðstjórnarríkjanna hefur náð að skilja eftir sig sömu eyðilegginguna alls staðar og ekkert svæði innan heimsveldisins mikla mun geta jafnað sig og risið upp á afturlappirnar fyrr en eftir talsverðan tíma.

Þessi bók á það sameiginlegt með öðrum bókum Kapuscinski að hún er ekki full af staðreyndum og tölfræði. Hans bækur miðla fremur því andrúmslofti sem ríkir við ákveðnar aðstæður á ákveðnu svæði. Þessi bók miðlar andrúmslofti vonleysis og allsleysis meðal þegnanna sjálfra en jafnframt óvissu um það sem koma skal og hvernig beri að haga sér við hinar breyttu aðstæður. Örbirgð þegnanna er átakanleg og að sama skapi firring og skeytingarleysi valdhafa kerfisins sem í upphafi hafði hið yfirlýsta markmið að enginn ætti að líða skort og að allir yrðu jafnir.

Þetta er ef til vill persónulegasta bók Kapuscinski. Höfundurinn er að gera upp stjórnmálakerfi og heimsveldi sem hélt hans þjóð í skefjum. Í upphafi bókarinnar kynnist hann heimsveldinu sem barn í austurhluta Póllands þegar að hermenn Sovétmanna hertaka heimabæ hans og hafa á brott fullorðna og börn og senda austur í buskann. Þá virðist heimsveldið voldugt og ógnandi. Undir lok veldisins er það hins vegar orðið farlama og hangir á sjálfsblekkingu elítunnar einni saman um að líkið sé enn á lífi. En þegar elítan hættir líka að trúa þá hrynur allt undir eins og allt í einu hlustar fólk ekki lengur á Gorbatsjov, leiðtoga sinn - einn góðan veðurdag uppgötvar fólkið að hann stendur einn eftir á meðan allt valdið hefur flust annað.

Við tekur sjálfstæði margra Sovétlýðvelda og svokallað lýðræði í Rússlandi. Þróunin í Rússlandi er svo efni í aðra sorgarsögu sem ekki sér enn fyrir endann á. Pútín er þó smám saman að tryggja það þessa dagana að rússnesk alþýða hefur svo sannarlega ekki séð það síðasta af alræðisstjórnarháttum og kúgun þeirra sem sitja í Kremlarköstulum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home