Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

14.11.05

Until Death Do Us Apart eftir Ingrid Betancourt

Ýmsar alls konar alþjóðamælingar um spillingu í stjórnmálum hér og þar sýna ævinlega fram á það að Ísland sé meðal minnst spilltu ríkja heims. Þó þykir nú flestum nóg um samt og þurfa þá ekki annað en að líta til allra bankastjóraráðninga, bankasala, byggðastyrkja og svo mætti áfram telja. Þeir flestu sem óar yfir hinni þó hlutfallslega litlu spillingu á Íslandiog spyrja sig ef til vill hvernig þetta sé þá aftast á ásnum fyrst þetta er skárst hjá okkur.

Svarið fæst til dæmis í Kólumbíu. Kólumbía er eitt af þessum löndum sem yfirleitt skipar sér sæti meðal hinna efstu yfir mestu spillingarbæli veraldarinnar. Í Kólumbíu ráða glæpahringir og eiturlyfjabarónar öllu sem þeir vilja ráða og kaupa stjórnmálamenn auðveldlega til fylgis við sig og halda þjóðinni allri í heljargreipum sínum. Sé einhver svo djarfur að rísa gegn valdi glæpalýðsins er sá hinn sami fljótlega tekinn úr endanlega úr umferð - með öðrum orðum, drepinn. Þá skiptir engu máli hvort um fátækan bónda að ræða sem neitar að gefa eftir hluta skika síns til glæpahyskisins eða forsetaframbjóðanda sem talar fyrir opnari stjórnháttum og minni vettlingatökum á glæpahringjum landsins. Niðurstaðan er sú að allt stjórnkerfið spilar með og valdhafar bæði hins opinbera og undirheima gera með sér samkomulög bak við tjöldin um að skapa einhvers konar vopnaðan frið.

Hins vegar er auðvitað til fólk í Kólumbíu sem bæði neitar að taka þátt í spillingarleiknum og láta hræðsluna við grimmd glæpaklíkanna aftra sér frá því að skera upp herör gegn spillingunni og glæpaöldunni. Það er hins vegar meira en að segja það í jafn gjörspilltu landi og Kólumbía er. Ein af þeim sem þó hefur ekki látið hindranirnar aftra sér er kólumbíska stjórnmálakonan Ingrid Betancourt.

Ingrid Betancourt er komin af kólumbísku fyrirfólki og ólst upp víðs vegar um heiminn við bestu mögulegu kjör. Foreldrar hennar voru báðir stjórnmálamenn og gegndu um tíma ráðherra- og þingmannsstöðum í heimalandinu og sendiherrastöðum utanlands. Þegar Ingrid var komin ofarlega á þrítugsaldur bjó hún enn mestmegnis erlendis en var þá farin að finna fyrir það ríkri köllun að snúa aftur til Kólumbíu og þjóna heimalandi sínu að hún flutti loks alkomin til Kólumbíu og fór fljótlega að láta til sína taka innan stjórnmálalífsins. Rúmlega þrítug bauð hún sig fram til þings þar sem hún hafði á oddinum baráttu fyrir heiðarlegum stjórnháttum í landinu og gegn tengslum glæpamanna við stjórnmálamenn.

Hún náði kjöri og hélt inni á þingi áfram baráttu sinni við gjörspillt stjórnvöld og af lýsingum hennar sjálfrar að dæma virðist hún oft hafa staðið svo gott sem algjörlega ein í þeirri baráttu enda þykist hún hafa sannanir fyrir því að flestallir þingmenn þjóðarinnar séu á mála hjá einhverjum eiturlyfjabarónanna um það að vera ekki að vasast í ,,því sem þeim kemur ekki við". Fjórum árum síðar býður hún sig síðan fram til öldungardeildarsætis og kemst þar einnig sína leið.

Sú bók sem hér er lýst er skrifuð af Ingrid Betancourt sjálfri og lýsir lífi hennar og pólitískum málstað. Þetta er því eins konar pólitísk ævisaga: pólitískt testamenti og málsvari með ævisögulegum þræði. Bókin kom út árið 2001 og efni hennar nær eðlilega ekki lengra en það. Það er í raun mikil synd vegna þess að frá og með sögulokum má eiginlega segja að dramatíkin í lífi Ingrid Betancourt hafi byrjað fyrir alvöru (og var hún þó búin að lifa af fjölda alvarlegra morðhótana- og tilrauna fram að því).

Ingrid Betancourt ákvað nefnilega að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2002 og boðaði sem fyrr upprætingu spillingar og pólitískra tengsla við glæpahringi í stefnu sinni. Glæpalýðurinn gat auðvitað ekki umborið slíkt nema að mjög takmörkuðu leyti og í lok febrúar 2002 rændu FARC skæruliðasamtökin Ingrid Betancourt og enn þann dag í dag er hún í haldi samtakanna einhvers staðar í frumskógum Kólumbíu. Þrátt fyrir þetta er nafni hennar haldið mjög vel á lofti og sérstakur þrýstihópur hefur frá mannráninu barist mjög ötullega fyrir lausn Ingridar og fleiri fanga kólumbísku glæpahringjanna (ein helsta tekjulind slíkra hringja - utan eiturlyfjasölu - er einmitt lausnargjöld fyrir fólk sem þeir ræna og hóta lífláti sé ákveðin svimandi há upphæð ekki reidd fram). Sérstaklega hefur baráttan fyrir lausn Ingridar verið áberandi í Frakklandi sem skýrist að miklu leyti af því að Ingrid hefur franskt ríkisfang auk þess kólumbíska og ólst upp í Frakklandi að miklu leyti.

Until Death Do Us Part er reyndar mörgum þeim annmörkum háð sem svona pólitísk testamenti stjórnmálamanna eru oft. Þau lýsa auðvitað aðeins frá einni hlið - skoðunum viðkomandi - á ríkjandi ástandi og við það bætist að það á við þessa bók eins og svo margar aðrar af líkum toga að það á ekki endilega alltaf saman að vera dugandi stjórnmálamaður og góður rithöfundur. Bókin er reyndar ágætlega skrifuð en kannski hefði Ingrid samt ekki veitt af svo sem eins og einni góðri hjálparhellu/meðhöfundi við skrifin eða enn þá betri editor. Það hefði gert ágæta bók enn betri.

Eftir stendur hins vegar sagan um hina vonlitlu baráttu sem stundum minnir á þrotlaust en tilgangslaust strit Sýsifusar. Dropinn holar þó steininn smám saman og sú síaukna svörun sem Ingrid Betancourt fær með hverri baráttunni frá kólumbísku þjóðinni er henni mikils virði og verður henni hvati til að halda áfram og sækjast eftir umboði þjóðar sinni til æðri og æðri embætta. Sú vegferð varð hins vegar endalepp frá og með febrúardeginum árið 2002 þegar að Ingrid var numin á brott af mannræningjum.

Ef marka má lýsingar bókarinnar má kannski segja að kólumbíska þjóðin sé fíkill í klóm eiturlyfjanna sem vill - líkt og raunverulegir eiturlyfjafíklar - gjarnan hafa sig upp úr ástandinu en skortir ef til vill kraftinn og meðölin til þess. Framlag einnar manneskju nægir ekki til að sporna gegn því ástandi sem ríkir í Kólumbíu og líkast til ræður kólumbíska ríkið ekki einu sinni við það eitt og sér - jafnvel þó að allt heiðarlegt fólk legðist á eitt. Líklega er samstillt alþjóðlegt langtímaátak það eina sem gæti orðið til þess að Kólumbía kæmist upp úr hjólförum efstu sætanna á ásnum yfir spilltustu ríki heimsins.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home