Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

25.12.05

Gleðileikurinn djöfullegi eftir Sölva Björn Sigurðsson

Ég er auðvitað algjörlega ófær til þess að fjalla um Gleðileikinn djöfullega á hlutlausan hátt. Þetta verður því stutt en ítarlegri greinargerð getur höfundur svo bara fengið í eigin persónu ef hann vill. Fékk hana senda frá höfundi sjálfum í jólagjöf og gat ekki beðið lengi með að renna mér í gegnum hana. Ekki minnkaði spenningurinn við yfirlestur á karakterslistanum í upphafi bókarinnar þar sem Kerlingasjarmör nokkur, kóni sem ég kannast lítillega við, var meðal týpna. Sá skrýtni fugl heillaði aldrei kvenmann undir fertugu en hins vegar allar þar yfir, þrátt fyrir að vera helmingi yngri að árum sjálfur. Ekki orð um það meir.

Ég las bókina í gegn á jólanótt meðan ég drakk bjór með súkkulaðibragði (geri það ekki aftur!) og niðurstaðan er sú að Sölvi er þarna á sínum heimavelli. Þetta er afar snjöll bók og klárlega hans besta til þessa.

Takk fyrir mig, Sölvi.

21.12.05

Ett år i Provence eftir Peter Mayle

Allt frá því í aðdraganda mánaðanna minna í Frakklandi hér um árið og allt upp frá því hef ég litið bækur Peters Mayle um Próvens hýru auga. Peter Mayle er, fyrir þá sem ekki vita, Breti sem á miðjum aldri reif sig upp ásamt eiginkonu sinni og hóf nýtt líf í Próvens-héraði í Suður-Frakklandi og skrifaði um það bækur þar sem sú fyrsta, A Year in Provence, er þekktust. Og það er einmitt bókin sem ég hef verið að hlýða á í sænskum upplestri undanfarna daga.

Peter Mayle lýsir sem sagt í þessari bók fyrsta ári þeirra hjóna í Próvens - hvernig miðaldra fólki í ævintýraleit gengur að hefja nýtt líf í ókunnu landi. Þau kaupa sér hús í sveitinni í Próvens og hefja í raun líf sem franskt sveitafólk. Bókin öll einkennist af ekta breskum írónískum og lágtstemmdum, en þó alltumlykjandi, húmor. Oft skemmtilegum en stundum líka ansi þreytandi og gamaldags.

Bókin hefur þann kost að draga upp sannfærandi og lifandi mynd af hversdagslífinu í Próvens. Hún hefur að geyma alveg hreint ómótstæðilegar lýsingar af lífsnautnum, einkum í mat og drykk sem auðveldlega framkalla vatn í munni. En hún dregur líka upp mynd af basli og vetrarkuldum í kjölfar Mistral-vindsins alræmda og vandræðagangi við það að koma sér inn í tilveruna á nýjum stað. Til dæmis er skemmtileg lýsing af öllum þeim skilríkjum og pappírum úr öllum áttum sem þarf að hafa til reiðu við minnstu viðvik. Rifjar upp fyrir mér eigin reynslu við það að komast inn í kerfið í Frakklandi. Frakkland er landið þar sem maður þarf heimasímanúmer til þess að fá að skrá sig inn í landið en til þess að skrá sig inn í landið - þá þarf maður heimasímanúmer!

Mest þótti mér auðvitað vert um þær fáu slóðir sem fjallað er um í bókinni og ég þekki af eigin raun. Skemmtilegast þar auðvitað að lesa kaflann um Aix-en-Provence og skemmtilega lýsingu af aðalbreiðstrætinu Court Mirabeau þar sem bankar og fasteignasölur og aðrar gróðastofnanir standa skuggamegin götunnar en kaffihús og barir sólarmegin. Mikið langaði mig aftur til Aix við það að hlusta á þann kafla.

Lýsingar Peters Mayle á fyrsta árinu í Próvens voru sem sagt prýðilegar að hlýða á og það má meira en vera að maður taki sér framhaldið Toujours Provence einhver tíma í hendur til þess að fylgjast með áframhaldandi ævintýrum Bretans í Próvens.

15.12.05

Livläkarens besök eftir Per Olov Enquist

Kóngar og drottningar eru skrýtnar verur. Stundum hafa þeir hins vegar verið óvenjulega klikkaðir, jafnvel á kóngamælikvarðann. Einn þeirra stjörnuklikkuðu var Kristján sjöundi Danakonungur (og Íslands- svo sem líka auðvitað). Sá hafði víst mest gaman af því að velta styttum og kasta húsgögnum út um gluggann og leika sér við svertingjaþrælinn sinn(!). Hann hafði lítið um landsstjórnina að segja og í raun var eina aðkoma hans að hinu formlega hlutverki sínu að skrifa undir pappíra öðru hvoru sem hann hafði enga hugmynd, og hvað þá áhuga á, hvað stóð í.

Í fjarveru geðheilbrigðs þjóðarleiðtoga myndaðist ákveðið tómarúm í æðstu stjórn landsins. Þau átök sem áttu sér stað um þau raunverulegu völd eru efni skáldsögunnar Livläkarens besök (Líflæknirinn á íslensku) eftir sænska rithöfundinn Per Olov Enquist. Höfundurinn getur ekki kvartað undan líflausum eða óspennandi efnistökum því að raunverulega atburðarásin býður upp á spennu, dramatík, ástir og örlög og allt annað það sem góða sögu ber að prýða. Og höfundurinn bregst svo sannarlega ekki því að úr verður fyrirtaks söguleg skáldsaga sem spennandi var að fylgja eftir.

Við upphaf sögunnar ríkir þónokkur stöðugleiki í dönskum konungshöllum þrátt fyrir sinnisveiki konungsins sjálfs. Raunveruleg völd liggja að miklu í höndum Ove Høegh-Guldberg, fyrrverandi guðfræðiprófessors sem hafði olnbogað sig upp metorðastigann innan dönsku krúnunnar. Sú kemur stund að konungur vill halda í Evrópureisu og til þess að hann haldi nú þokkalegum sönsum í þeirri ferð þá er ráðinn í föruneytið Johann Friedrich Struensee, þýskur læknir frá þarlendum slóðum syðst í Danaríki.

Hann þykir sanna sig það vel í starfi að hann er ráðinn til frambúðar við hofið. Hann fær í raun hlutverk einkageðlæknis konungs og kallast líflæknir upp á þessa tíma vísu. Enginn áttar sig hins vegar á því að með þessu er Struensee hins vegar farinn að hafa afgerandi áhrif á það sem konungurinn hugsar og gerir. Sérstaklega verður þetta allt saman hættulegt hinu afturhaldssama danska einveldi þegar að Struensee fær í lið með sér hina kornungu drottningu Kristjáns sjöunda og beinlínis hneykslanlegt í hæsta máta þegar þau tvö hefja ástarsamband sem meira að segja ber ávöxt í stúlkubarni.

Struensee nær um fjögurra ára skeið að stjórna á þennan lúmska hátt Danmörku á bak við tjöldin. Hann er endurreisnarmaður að hugsjón og gerir í raun hljóðláta byltingu í nafni endurreisnar í ríki Kristjáns sjöunda 1768-72, löngu áður en kollegar hans í Frakklandi fóru af stað með sína byltingu. Þetta varð eins konar prófraun fyrir það sem síðar varð og Voltaire og fleiri endurreisnarmenn í Frakklandi fylgdust með af aðdáun og stóðu í bréfasambandi við bæði Kristján 7. og Struensee.

Að lokum ná þó hin afturhaldssömu öfl innan dönsku hirðarinnar, með stuðningi hersins, að knýja allt saman niður og Struensee er hálshöggvinn og drottningin er send lengst suður í Þýskaland og allt er gert til þess að reyna að gleyma og grafa endurreisnina stuttu í Danmörku. Það tókst þokkalega en eftir lifðu þó glæður af byltingarandanum enda reyndist uppreisn endurreisnarinnar einungis vera í startholunum og tíð Struensees varð eins konar formáli af því sem síðan geisaði í Evrópu meira og minna með reglulegu millibili næstu hálfa öldina þar sem lýðræðis- og frelsisöfl reyndu að fá völd og áhrif á kostnað einvalda hvers lands fyrir sig.

Það má vel mæla með þessari góðu bók.