Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

21.12.05

Ett år i Provence eftir Peter Mayle

Allt frá því í aðdraganda mánaðanna minna í Frakklandi hér um árið og allt upp frá því hef ég litið bækur Peters Mayle um Próvens hýru auga. Peter Mayle er, fyrir þá sem ekki vita, Breti sem á miðjum aldri reif sig upp ásamt eiginkonu sinni og hóf nýtt líf í Próvens-héraði í Suður-Frakklandi og skrifaði um það bækur þar sem sú fyrsta, A Year in Provence, er þekktust. Og það er einmitt bókin sem ég hef verið að hlýða á í sænskum upplestri undanfarna daga.

Peter Mayle lýsir sem sagt í þessari bók fyrsta ári þeirra hjóna í Próvens - hvernig miðaldra fólki í ævintýraleit gengur að hefja nýtt líf í ókunnu landi. Þau kaupa sér hús í sveitinni í Próvens og hefja í raun líf sem franskt sveitafólk. Bókin öll einkennist af ekta breskum írónískum og lágtstemmdum, en þó alltumlykjandi, húmor. Oft skemmtilegum en stundum líka ansi þreytandi og gamaldags.

Bókin hefur þann kost að draga upp sannfærandi og lifandi mynd af hversdagslífinu í Próvens. Hún hefur að geyma alveg hreint ómótstæðilegar lýsingar af lífsnautnum, einkum í mat og drykk sem auðveldlega framkalla vatn í munni. En hún dregur líka upp mynd af basli og vetrarkuldum í kjölfar Mistral-vindsins alræmda og vandræðagangi við það að koma sér inn í tilveruna á nýjum stað. Til dæmis er skemmtileg lýsing af öllum þeim skilríkjum og pappírum úr öllum áttum sem þarf að hafa til reiðu við minnstu viðvik. Rifjar upp fyrir mér eigin reynslu við það að komast inn í kerfið í Frakklandi. Frakkland er landið þar sem maður þarf heimasímanúmer til þess að fá að skrá sig inn í landið en til þess að skrá sig inn í landið - þá þarf maður heimasímanúmer!

Mest þótti mér auðvitað vert um þær fáu slóðir sem fjallað er um í bókinni og ég þekki af eigin raun. Skemmtilegast þar auðvitað að lesa kaflann um Aix-en-Provence og skemmtilega lýsingu af aðalbreiðstrætinu Court Mirabeau þar sem bankar og fasteignasölur og aðrar gróðastofnanir standa skuggamegin götunnar en kaffihús og barir sólarmegin. Mikið langaði mig aftur til Aix við það að hlusta á þann kafla.

Lýsingar Peters Mayle á fyrsta árinu í Próvens voru sem sagt prýðilegar að hlýða á og það má meira en vera að maður taki sér framhaldið Toujours Provence einhver tíma í hendur til þess að fylgjast með áframhaldandi ævintýrum Bretans í Próvens.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home