Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

9.2.06

Argóarflísin eftir Sjón

Fyrirfram hefði ég haldið að það hefði orðið svolítið erfitt fyrir Sjón að fylgja eftir Skugga-Baldri og Norðurlandameistaratitlinum í Bókmenntum með sögu sem hefur ákveðna utanaðkomandi forskrift og er liður í alþjóðlegum sagnabálki þar sem goðsögur eru þemað. En Sjón fer létt með þetta allt saman.

Argóarflísin heitir bókin nýja og gerist á farmskipi sem Valdimar Haraldsson býðst far með á vordögum ársins 1949 (ef ég man þetta rétt). Valdimar þessi er íslenskur karlskröggur sem búið hefur í Kaupmannahöfn mestalla sína tíð. Þar hefur hann einkum sinnt því hugðarefni sínu að tengja yfirburði hins norræna kynstofns miklu fiskáti. Sjón tekst meistaralega að draga upp mynd af þessari einkar ósympatísku karluglu sem tuðar út í eitt um þessa sérviturslegu lífsskoðun sína og hefur lítið álit á fólki sem tekur ekki heils hugar undir málstað hans eða hlustar af óskiptri athygli.

Anstæða Valdimars um borð er Keneifur, annar stýrimaður skipsins. Hann er sögumaður hinn besti og lumar á ótrúlegum sögum úr sjómannstíð sinni og einkum þeim sem tengjast ferðum hans með Jasoni á töfraskipinu Argó. Þarna kemur að sjálfsögðu goðsagan inn í frásögnina og er hún lipurlega fléttuð inn í framvindu sögunnar.

Allur þessi kokteill Sjóns; goðsagan, norrænn nasjónalismi og kotungsháttur, lýsing á aldarfari um miðja síðustu öld og vísanir í kitsch-bókmenntir um sjóara-dáðadrengi-og-drabbsama-eins-og-gengur gengur frábærlega upp. Sjón notast þannig við klassískustu verk bókmenntasögurnar, Hómer og Óvidíus og fleiri, en einnig sjóarasögur Hrafns Valdimarssonar (Ég sigli minn sjó og Ennþá sigli ég sjóinn - algjör klassík!) þar sem sjómennsku er líst upp á gamla mátann: kærustur í hverri höfn og slagsmál við heimamenn (þar sem söguhetjan er alltaf ein á móti átta fílefldum en lemur samt alla í spað).

Útkoman er stórgóð nóvella sem mér finnst jafnvel skáka Skugga-Baldri.

8.2.06

Amsterdam eftir Ian McEwan

Í Amsterdam eftir Ian McEwan hittum við fyrir vinina Clive og Vernon, tvo miðaldra menn sem báðir hafa á einhverjum tíma lífs síns verið elskendur Molly Lane sem nú er nýfallin frá, langt fyrir aldur fram. Clive er þekkt og virt tónskáld en Vernon er ritstjóri dagblaðs sem berst í bökkum. Við fráfall Mollyjar koma fleiri elskendur hennar saman því að þar er einnig Julian, utanríkisráðherra Breta, og svo George sem undir lokin var eiginmaður Mollyjar. Þessi sameiginlega forsaga þeirra allra og Mollyjar skapar spennu á milli þeirra allra sem misdjúpt er á.

Það gerist síðan skömmu eftir jarðarförina að George kemur myndum til Vernons úr eigu Mollyjar. Myndirnar sýna utanríkisráðherrann klæddan í eggjandi kvenmannsföt. George vill að hann birti myndirnar í blaði sínu til þess að koma höggi á Julian. Þrátt fyrir að Vernon sjái ýmsa annmarka á birtingu myndanna þá finnst honum samt freistandi að láta þær flakka. Ekki bara er óvild hans á Julian tilkomin af afbrýði vegna hins sameiginlega elskhuga heldur hefur hann líka óbeit á Julian sem stjórnmálamanni (Julian vill skerpa innflytjendalöggjöfina til muna, segja Bretland úr ESB og fleira) og við það bætist að blaðið hans stendur illa og veitir ekki af því að athyglin beinist að síðum þess.

Hann ákveður því að taka slaginn og láta birta myndirnar. Hann rekst hins vegar á óvæntan vegg þegar að vinur hans, tónskáldið Clive, veitir honum ekki þann móralska stuðning sem hann bjóst við heldur finnst þvert á móti að myndirnar eigi að fá að vera einkamál Mollyjar og Julians. Vinátta Clives og Vernons kemst í uppnám en Vernon ákveður samt sem áður að birta myndirnar.

Allt endar þetta ákaflega illa: Vernon fer flatt á myndbirtingunni sem fer þvert ofan í almenningsálitið. Minnir óneitanlega nokkuð á DV-málið í síðasta mánuði þar sem svipað var uppi á tengingnum: Hvað er forsvaranlegt að birta? Hvað kemur almenningi við og hvað er einkamál?

Ekki fer reyndar betur fyrir Clive. Hann er á lokastigum þess að semja sérstaka þúsaldarsinfóníu sem mikið er beðið eftir. Hann er undir mikilli tímapressu og stenst hana æ verr eftir því sem hún þyngist og álagið eykst.

Nóvellan Amsterdam fékk Bookerinn á sínum tíma. Það var ekki svo galið enda er sagan ákaflega vel skrifuð og vönduð á allan hátt. Ég heyrði af því þegar að rætt var um nýjustu bók McEwans, Saturday, að þá hefði höfundurinn lagt á sig mikla vinnu til þess að kynnast störfum heilaskurðlækna til þess að geta dregið upp sannfærandi mynd af aðalpersónu sinni, miðaldra heilaskurðlækni í Lundúnum.

Ekki kæmi mér á óvart þó að McEwan hafi lagst í aðrar eins kannanir á vinnubrögðum og þankagangi tónskálda því að persónusköpunin á tónskáldinu Clive er hreint út sagt meistaraleg og einkennist af aðdáunarverðri innsýn (þó að ég viti svo sem ekki mikið um þankagang tónskálda - en lýsingin var í það minnsta mjög sannfærandi). Aðrar persónulýsingar voru líka með miklum ágætum en Clive var langbestur.

Amsterdam olli því engum vonbrigðum, jafnvel þó að mér þætti hún detta örlítið niður í seinni hlutanum.

Og nú langar mig enn meira en áður að leggjast yfir Saturday. Ætla að kaupa mér hana bráðlega.

1.2.06

Emperor eftir Ryszard Kapuściński

Með Emperor lokaði ég loks hringnum: ég er búinn með allt eftir Ryszard Kapuściński.

Emperor á sér stað við hirð eþíópíska keisarans Haile Selassie sem ríkti í sínu ríki í 44 ár eða þangað til að honum var steypt af stóli 1974, þá háöldruðum. Bók þessi sver sig að vissu leyti í ætt við Shah of Shahs eftir sama höfund að því leyti að dregin er upp mynd af einræðisherra sem haldin er svo taumlausri valdafíkn og glórulausri óstjórn að manni verður helst á að hlæja þó að þegnum landsins hafi sjálfsagt ekki verið hlátur í hug öll þessi ár. Að minnsta kosti koma súrrealískar grínmyndir helst upp í hugann þegar þau störf eru talin upp sem unnin voru við hirðina: Einn var í því að vera tilbúinn með kolla og sessur til þess að skjóta undir fætur keisarans þegar að hann settist hvar sem hann kom (keisarinn var lítill og hefði litið kjánalega út ef hann hefði dinglað fótunum af stólnum eins og smákrakki), annar vann við að opna hurðir nákvæmlega á réttum tímapunkti og sá þriðji vann við að þurrka migu keisarahundsins af skóm þeirra við hirðina sem hundurinn skvetti yfir.

Keisarinn lifði lúxuslífi á snekkjum, í höllum og í lystigörðum og spreðaði peningum í kringum sig eins og markmið hans væri að flýta sér að eyða sem mestu. Ríkiskassinn og hans vasi voru eitt og sama fyrirbæri og í hann borgaði þjóð sem svalt heilu og hálfu hungri. Til að enginn væri með neitt múður þaggaði hann líka niður í allri gagnrýni um sjálfan sig og slökkti rækilega í öllum þeim sem hugsanlega mögulega gætu ógnað veldi hans. Herinn var virkt afl í samfélaginu og, líkt og í Íran í bókinni Shah of Shahs, var þjóðinni allri haldið í gíslingu ótta og skelfingar.

Að lokum gerðist þó hið sama og í Íran. Allt í einu molnaði allt saman innanfrá og keisaraveldið var hætt að geta veitt uppreisnaröflum mótstöðu. Það sem þó skilur Selassie frá starfsbróður hans frá Íran var það að hann veitti litla sem enga mótspyrnu. Hann var orðinn háaldraður og ef til vill var hann farinn að kalka og veiklast eftir því. Alla vega voru hans drastískustu viðbrögð við uppreisninni þau að panta sænskan leikfimikennara til hirðarinnar til þess að hressa fólkið við með reglulegri morgunleikfimi! Þetta kostaði auðvitað skildinginn eins og öll þau þjóðþrifaverk áratugina á undan sem Selassie hafði staðið fyrir.

Í bókinni heldur Kapuściński að mestu til hlés sem sögumaður en lætur viðmælendur sína, fyrrum meðlimi keisarahirðarinnar, tala sínu máli og segja frá keisaranum sínum. Flestir þeirra tala með söknuði um tíma þegar að hinn óskeikuli keisari fór með völd og bölva frekjunni og óskammfeilninni í öllu alþýðupakkinu sem vildi ráða bót á hungri og eymd sínu og sinna.

Sumir segja að þetta sé besta bók Kapuścińskis en því er ég ekki sammála. Hún er að vísu ágæt en ég hefði frekar kosið að heyra í Kapuściński sjálfum sem sögumanni þessarar bókar. Mér þykir honum nefnilega takast best upp í þeim bókum þar sem hann sjálfur er í hlutverki sögumanns og þess sem greinir frá sínu sjónarhorni, sínum aðstæðum og sínum skoðunum. Því er hann áfram bestur í sínum persónulegustu verkum sem mér finnst vera Another Day of Life og Imperium.

Lille prinsen eftir Antoine de Saint-Exupéry

Max von Sydow að lesa Litla prinsinn fyrir mann á sænsku við uppvaskið: ekki svo slæmt.

Hlustaði sem sagt á Litla prinsinn og er þetta í fyrsta skiptið sem ég kynnist þessari heimsfrægu og tímalausu barnasögu um hrapaða flugmanninn og litla prinsinn. Þetta er falleg og skemmtileg saga og ég skil vel að hún sé klassísk og þar að auki höfðar hún miklu meira til mín en til dæmis hann Harry Potter sem ég hef aldrei botnað í af hverju á að höfða svona mikið til fólks eldri en 14-15 ára.

Og í raun ekkert fleira um það að segja.