Emperor eftir Ryszard Kapuściński
Með Emperor lokaði ég loks hringnum: ég er búinn með allt eftir Ryszard Kapuściński.
Emperor á sér stað við hirð eþíópíska keisarans Haile Selassie sem ríkti í sínu ríki í 44 ár eða þangað til að honum var steypt af stóli 1974, þá háöldruðum. Bók þessi sver sig að vissu leyti í ætt við Shah of Shahs eftir sama höfund að því leyti að dregin er upp mynd af einræðisherra sem haldin er svo taumlausri valdafíkn og glórulausri óstjórn að manni verður helst á að hlæja þó að þegnum landsins hafi sjálfsagt ekki verið hlátur í hug öll þessi ár. Að minnsta kosti koma súrrealískar grínmyndir helst upp í hugann þegar þau störf eru talin upp sem unnin voru við hirðina: Einn var í því að vera tilbúinn með kolla og sessur til þess að skjóta undir fætur keisarans þegar að hann settist hvar sem hann kom (keisarinn var lítill og hefði litið kjánalega út ef hann hefði dinglað fótunum af stólnum eins og smákrakki), annar vann við að opna hurðir nákvæmlega á réttum tímapunkti og sá þriðji vann við að þurrka migu keisarahundsins af skóm þeirra við hirðina sem hundurinn skvetti yfir.
Keisarinn lifði lúxuslífi á snekkjum, í höllum og í lystigörðum og spreðaði peningum í kringum sig eins og markmið hans væri að flýta sér að eyða sem mestu. Ríkiskassinn og hans vasi voru eitt og sama fyrirbæri og í hann borgaði þjóð sem svalt heilu og hálfu hungri. Til að enginn væri með neitt múður þaggaði hann líka niður í allri gagnrýni um sjálfan sig og slökkti rækilega í öllum þeim sem hugsanlega mögulega gætu ógnað veldi hans. Herinn var virkt afl í samfélaginu og, líkt og í Íran í bókinni Shah of Shahs, var þjóðinni allri haldið í gíslingu ótta og skelfingar.
Að lokum gerðist þó hið sama og í Íran. Allt í einu molnaði allt saman innanfrá og keisaraveldið var hætt að geta veitt uppreisnaröflum mótstöðu. Það sem þó skilur Selassie frá starfsbróður hans frá Íran var það að hann veitti litla sem enga mótspyrnu. Hann var orðinn háaldraður og ef til vill var hann farinn að kalka og veiklast eftir því. Alla vega voru hans drastískustu viðbrögð við uppreisninni þau að panta sænskan leikfimikennara til hirðarinnar til þess að hressa fólkið við með reglulegri morgunleikfimi! Þetta kostaði auðvitað skildinginn eins og öll þau þjóðþrifaverk áratugina á undan sem Selassie hafði staðið fyrir.
Í bókinni heldur Kapuściński að mestu til hlés sem sögumaður en lætur viðmælendur sína, fyrrum meðlimi keisarahirðarinnar, tala sínu máli og segja frá keisaranum sínum. Flestir þeirra tala með söknuði um tíma þegar að hinn óskeikuli keisari fór með völd og bölva frekjunni og óskammfeilninni í öllu alþýðupakkinu sem vildi ráða bót á hungri og eymd sínu og sinna.
Sumir segja að þetta sé besta bók Kapuścińskis en því er ég ekki sammála. Hún er að vísu ágæt en ég hefði frekar kosið að heyra í Kapuściński sjálfum sem sögumanni þessarar bókar. Mér þykir honum nefnilega takast best upp í þeim bókum þar sem hann sjálfur er í hlutverki sögumanns og þess sem greinir frá sínu sjónarhorni, sínum aðstæðum og sínum skoðunum. Því er hann áfram bestur í sínum persónulegustu verkum sem mér finnst vera Another Day of Life og Imperium.
Emperor á sér stað við hirð eþíópíska keisarans Haile Selassie sem ríkti í sínu ríki í 44 ár eða þangað til að honum var steypt af stóli 1974, þá háöldruðum. Bók þessi sver sig að vissu leyti í ætt við Shah of Shahs eftir sama höfund að því leyti að dregin er upp mynd af einræðisherra sem haldin er svo taumlausri valdafíkn og glórulausri óstjórn að manni verður helst á að hlæja þó að þegnum landsins hafi sjálfsagt ekki verið hlátur í hug öll þessi ár. Að minnsta kosti koma súrrealískar grínmyndir helst upp í hugann þegar þau störf eru talin upp sem unnin voru við hirðina: Einn var í því að vera tilbúinn með kolla og sessur til þess að skjóta undir fætur keisarans þegar að hann settist hvar sem hann kom (keisarinn var lítill og hefði litið kjánalega út ef hann hefði dinglað fótunum af stólnum eins og smákrakki), annar vann við að opna hurðir nákvæmlega á réttum tímapunkti og sá þriðji vann við að þurrka migu keisarahundsins af skóm þeirra við hirðina sem hundurinn skvetti yfir.
Keisarinn lifði lúxuslífi á snekkjum, í höllum og í lystigörðum og spreðaði peningum í kringum sig eins og markmið hans væri að flýta sér að eyða sem mestu. Ríkiskassinn og hans vasi voru eitt og sama fyrirbæri og í hann borgaði þjóð sem svalt heilu og hálfu hungri. Til að enginn væri með neitt múður þaggaði hann líka niður í allri gagnrýni um sjálfan sig og slökkti rækilega í öllum þeim sem hugsanlega mögulega gætu ógnað veldi hans. Herinn var virkt afl í samfélaginu og, líkt og í Íran í bókinni Shah of Shahs, var þjóðinni allri haldið í gíslingu ótta og skelfingar.
Að lokum gerðist þó hið sama og í Íran. Allt í einu molnaði allt saman innanfrá og keisaraveldið var hætt að geta veitt uppreisnaröflum mótstöðu. Það sem þó skilur Selassie frá starfsbróður hans frá Íran var það að hann veitti litla sem enga mótspyrnu. Hann var orðinn háaldraður og ef til vill var hann farinn að kalka og veiklast eftir því. Alla vega voru hans drastískustu viðbrögð við uppreisninni þau að panta sænskan leikfimikennara til hirðarinnar til þess að hressa fólkið við með reglulegri morgunleikfimi! Þetta kostaði auðvitað skildinginn eins og öll þau þjóðþrifaverk áratugina á undan sem Selassie hafði staðið fyrir.
Í bókinni heldur Kapuściński að mestu til hlés sem sögumaður en lætur viðmælendur sína, fyrrum meðlimi keisarahirðarinnar, tala sínu máli og segja frá keisaranum sínum. Flestir þeirra tala með söknuði um tíma þegar að hinn óskeikuli keisari fór með völd og bölva frekjunni og óskammfeilninni í öllu alþýðupakkinu sem vildi ráða bót á hungri og eymd sínu og sinna.
Sumir segja að þetta sé besta bók Kapuścińskis en því er ég ekki sammála. Hún er að vísu ágæt en ég hefði frekar kosið að heyra í Kapuściński sjálfum sem sögumanni þessarar bókar. Mér þykir honum nefnilega takast best upp í þeim bókum þar sem hann sjálfur er í hlutverki sögumanns og þess sem greinir frá sínu sjónarhorni, sínum aðstæðum og sínum skoðunum. Því er hann áfram bestur í sínum persónulegustu verkum sem mér finnst vera Another Day of Life og Imperium.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home