Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

8.2.06

Amsterdam eftir Ian McEwan

Í Amsterdam eftir Ian McEwan hittum við fyrir vinina Clive og Vernon, tvo miðaldra menn sem báðir hafa á einhverjum tíma lífs síns verið elskendur Molly Lane sem nú er nýfallin frá, langt fyrir aldur fram. Clive er þekkt og virt tónskáld en Vernon er ritstjóri dagblaðs sem berst í bökkum. Við fráfall Mollyjar koma fleiri elskendur hennar saman því að þar er einnig Julian, utanríkisráðherra Breta, og svo George sem undir lokin var eiginmaður Mollyjar. Þessi sameiginlega forsaga þeirra allra og Mollyjar skapar spennu á milli þeirra allra sem misdjúpt er á.

Það gerist síðan skömmu eftir jarðarförina að George kemur myndum til Vernons úr eigu Mollyjar. Myndirnar sýna utanríkisráðherrann klæddan í eggjandi kvenmannsföt. George vill að hann birti myndirnar í blaði sínu til þess að koma höggi á Julian. Þrátt fyrir að Vernon sjái ýmsa annmarka á birtingu myndanna þá finnst honum samt freistandi að láta þær flakka. Ekki bara er óvild hans á Julian tilkomin af afbrýði vegna hins sameiginlega elskhuga heldur hefur hann líka óbeit á Julian sem stjórnmálamanni (Julian vill skerpa innflytjendalöggjöfina til muna, segja Bretland úr ESB og fleira) og við það bætist að blaðið hans stendur illa og veitir ekki af því að athyglin beinist að síðum þess.

Hann ákveður því að taka slaginn og láta birta myndirnar. Hann rekst hins vegar á óvæntan vegg þegar að vinur hans, tónskáldið Clive, veitir honum ekki þann móralska stuðning sem hann bjóst við heldur finnst þvert á móti að myndirnar eigi að fá að vera einkamál Mollyjar og Julians. Vinátta Clives og Vernons kemst í uppnám en Vernon ákveður samt sem áður að birta myndirnar.

Allt endar þetta ákaflega illa: Vernon fer flatt á myndbirtingunni sem fer þvert ofan í almenningsálitið. Minnir óneitanlega nokkuð á DV-málið í síðasta mánuði þar sem svipað var uppi á tengingnum: Hvað er forsvaranlegt að birta? Hvað kemur almenningi við og hvað er einkamál?

Ekki fer reyndar betur fyrir Clive. Hann er á lokastigum þess að semja sérstaka þúsaldarsinfóníu sem mikið er beðið eftir. Hann er undir mikilli tímapressu og stenst hana æ verr eftir því sem hún þyngist og álagið eykst.

Nóvellan Amsterdam fékk Bookerinn á sínum tíma. Það var ekki svo galið enda er sagan ákaflega vel skrifuð og vönduð á allan hátt. Ég heyrði af því þegar að rætt var um nýjustu bók McEwans, Saturday, að þá hefði höfundurinn lagt á sig mikla vinnu til þess að kynnast störfum heilaskurðlækna til þess að geta dregið upp sannfærandi mynd af aðalpersónu sinni, miðaldra heilaskurðlækni í Lundúnum.

Ekki kæmi mér á óvart þó að McEwan hafi lagst í aðrar eins kannanir á vinnubrögðum og þankagangi tónskálda því að persónusköpunin á tónskáldinu Clive er hreint út sagt meistaraleg og einkennist af aðdáunarverðri innsýn (þó að ég viti svo sem ekki mikið um þankagang tónskálda - en lýsingin var í það minnsta mjög sannfærandi). Aðrar persónulýsingar voru líka með miklum ágætum en Clive var langbestur.

Amsterdam olli því engum vonbrigðum, jafnvel þó að mér þætti hún detta örlítið niður í seinni hlutanum.

Og nú langar mig enn meira en áður að leggjast yfir Saturday. Ætla að kaupa mér hana bráðlega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home